Sunneva Edith Fjeldsted fæddist 30. júlí 1983. Hún lést 18. febrúar 2018.

Útför Sunnevu fór fram 2. mars 2018.

Sunnudagurinn 18. febrúar var og er ein af mínum erfiðustu lífsreynslum. Að missa þig, elsku besta vinkona mín, og að koma að þér og geta ekki vakið þig, sama hvað ég reyndi, ég bara vildi ekki trúa því að þú værir farin. Ég veit að þú ert komin á betri stað en mér finnst þetta bara svo ósanngjarnt. Ég var nýbúin að fá þig til baka og við vorum búnar að plana að fara að gera góða hluti og gera eitthvað af viti við líf okkar.

Ég bara verð að viðurkenna að ég er reið út í Guð og lífið og bara mjög reið. Ég skil ekki hvað er lagt á fjölskylduna þína og hvað þá elsku strákana þína þrjá. Þú varst svo góð mamma, ég dáðist svo að þolinmæði þinni og elsku Sunna mín, sannari og betri vinkonu er erfitt að finna og ég mun aldrei finna neina eins og þig. Þú hefðir vaðið eld og brennistein fyrir vini þína og fjölskyldu og ekki hugsað þig tvisvar um.

Við vorum búnar að vera bestu vinkonur frá því við vorum unglingar, við vorum ekkert þær allra stilltustu, en samt með pínulítinn geislabaug, hvað heldur þú að margir trúi því? En þú vildir öllum vel. Varst með svo stórt og fallegt hjarta elsku engillinn minn.

En Sunna, þú stóðst alltaf með minni máttar og máttir ekkert aumt sjá og réttlætiskenndin, vá.

Og það sem þú elskaðir fallegu strákana þína, þú ljómaðir öll þegar þú talaðir um þá, þeir voru þitt líf og yndi. Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að þeir fengju þig til baka, elsku, góðu, fallegu, skemmtilegu og fyndnu mömmu sína aftur. Þú varst ein af þeim góðu og sönnu og varst bara þú sjálf, þér var alveg sama hvað öðrum fannst. Þú sagðir bara hlutina eins og þeir voru og ef þú varst ekki sátt við eitthvað sem ég var að gera þá sagðir þú það við mig, ekki á bak við mig.

Mér finnst ég bara tala í hringi en hvað með það, veit að þér er sama, elsku hjartað mitt. Þú varst svo mikil skellibjalla, gleymi aldrei þegar við vorum í Rockville, þú varst út um allt, upp um allt og einmitt talaðir í hringi. Þú gast alltaf fengið mig til að hlæja og ég elskaði það við þig, reyndar elskaði ég allt við þig, elsku Sunna. Hvað á ég að gera án þín? Ég sakna þín svo sárt að mig verkjar í hjartað.

Gabríel spyr mikið um þig, þú varst í algjöru uppáhaldi hjá honum og hann gefur sig ekki að öllum og ég veit að þú elskaðir hann líka. Þú hafðir svo gaman af honum, hann er stríðnispúki eins og þú. Ég segi honum að nú sért þú fallegur engill og sýni honum styttu af engli og að þú passir hann og þú lifir áfram í hjarta okkar. Hann leit niður og sagði: Sunna er inni í mér. Hvernig útskýrir maður þetta fyrir tveggja ára pjakk?

Elsku Sunneva mín, ég er að fara í tattú á eftir og ætla láta setja nafnið þitt, ég veit ekki hvað ég get sagt meir, en ég elska þig og mun alltaf gera, ég mun sakna þín alla daga, ég verð að læra að lifa með því að þú ert farin.

Ég ætla að gera þig stolta af mér og standa mig, ég mun leggja inn á strákana þína hver mánaðamót.

Bless í bili, ástin mín, þú átt hjarta mitt sem núna er í molum, það getur enginn komið í staðinn fyrir þig því þú varst einstök manneskja.

Elsku Baldur Elmar, Elvar Máni, Bjartur Elí, Bryndís, Baldur Freyr, Barbara, Reynir, Dagur Ragnar, vinir og aðrir ættingjar, ég votta ykkur mína dýpstu samúð frá innstu hjartarótum.

Þín vinkona að eilifu,

Guðrún Eva.