Þórunn Benný Finnbogadóttir fæddist í Bolungarvík 27. maí 1923. Hún lést 26. febrúar 2018.

Hún var dóttir Finnboga Bernódussonar, f. 26. júlí 1892, d. 9. nóvember 1980, og Sesselju Sturludóttur, f. 14. september 1893, d. 21. janúar 1963. Systkini Þórunnar Bennýjar, þau sem komust á fullorðinsár, eru: Sigríður, f. 9.8. 1914, d. 4.4. 1997; Ásdís, f. 18.12. 1915, d. 5.9. 2007; Valgerður, f. 10.11. 1918, d. 11.5. 2005; Bernódus Örn, f. 21.2. 1922, d. 17.4. 1995; Þórlaug, f. 22.2. 1925, d. 8.1. 2001; Ingibjörg, f. 13.6. 1926; Guðrún Helga, f. 25.6. 1929; og Stella, f. 6.8. 1934, d. 18.12. 2014. Auk þessara barna áttu Finnbogi og Sesselja þrjú börn sem dóu í bernsku.

Þórunn Benný giftist hinn 1. nóvember 1952 Ingólfi Jóhannessyni, f. í Reykjavík 19. maí 1928, d. 7. ágúst 2016. Foreldrar hans voru Jóhannes Björnsson, f. 14. júní 1905, d. 4. janúar 1990, og Guðbjörg Lilja Árnadóttir, f. 4. september 1909, d. 2. nóvember 1987. Benný og Ingólfur bjuggu alla sína hjúskapartíð í Reykjavík og þeim varð ekki barna auðið.

Útför Bennýjar fer fram frá Áskirkju í dag, 9. mars 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Ó, Jesú, séu orðin þín

andláts síðasta huggun mín.

Sál minni verði þá sælan vís

með sjálfum þér í Paradís.

Látin er í hárri elli Þórunn Benný móðursystir mín. Lokaorðin í 40. passíusálmi Hallgríms Péturssonar koma upp í hugann við þessi tímamót. Þórunn Benný var trúuð og andlega sinnuð eins og hennar systkini öll en var ekkert alltaf að flíka því. Hún var venjulega kölluð Benný af þeim sem þekktu hana en mamma sagði stundum Þórunn systir þegar hún nefndi hana og það var nánast daglega meðan mamma heitin lifði. Milli þeirra systra og systkina voru almennt miklir kærleikar. Þau voru níu systkini sem komust til fullorðinsára og af þeim bjuggu fimm systur í Reykjavík. Þær töluðu saman löngum stundum í síma eða í heimsóknum hver til annarrar. Benný var bráðvel gefin og hefði getað lagt fyrir sig langskólanám. En það þótti ekki sjálfsagt fyrir alþýðustúlkur á hennar tíð úr barnmargri fjölskyldu og það í vestfirsku sjávarplássi. Annað sem hindraði voru berklarnir sem hún smitaðist af og komu fram um tvítugsaldurinn. Hún fékk það sem kallaðist þá hnútarós en það eru einkenni sem koma stundum fram samfara berklasmiti. Hún lá á Vífilsstöðum í gifsi í marga mánuði. Sér til dægrastyttingar stundaði hún hannyrðir sem hún varð að vinna upp fyrir sig. Þar vann hún ýmis listaverk og lærði handbragð sem hún bjó að alla tíð. Berklarnir hurfu en höfðu afleiðingar sem hún glímdi við alla ævi.

Svo kom Ingólfur til sögunnar. Hann var fimm árum yngri, sjentilmaður fram í fingurgóma. Með honum átti hún sextíu og fimm ár, nær allar stundir voru góðar sagði hún sjálf. Þau ferðuðust innanlands og utan, bjuggu sér fallegt og hlýlegt heimili og áttu góðan vinahóp. Þeim hjónum varð ekki barna auðið. Ég var hjá þeim sem ungbarn og barn í nokkur skipti og í lengri tíma vegna veikinda mömmu. Margar bestu bernskuminningarnar eru tengdar þeim hjónum og viðmóti þeirra og hlýju. Þrátt fyrir barnleysið áttu þau fjölda systkinabarna sem tengdust þeim nánum og sterkum böndum.

Síðustu æviárin áttu þau hjón á Hrafnistu í Reykjavík. Þar leið þeim vel og fengu góða og nærgætna umönnun. Fram á síðustu stund naut Benný þess að spjalla við fólk, hún var vel inni í öllum málum og átti auðvelt með að setja sig í annarra spor. Hún var dama, hafði góða lund og var stálminnug.

Víkin var Bennýju alltaf efst í huga og varla það samtal við hana að ekki bærist talið þangað. Þær systur nefndu Bolungarvík á hverjum degi meðan þær lifðu held ég. Það bendir til þess að þrátt fyrir að hafa alist upp á kreppuárum hafi þeim liðið vel þar í uppvextinum og treyst sínu góða fólki.

Blessuð sé minning þín, Benný mín.

Bjarni Guðmundsson.