Viðskiptavinur Costco í New York hefur höfðað mál á hendur verslanakeðjunni vegna óánægju með lýsispillur sem hann keypti í einni versluninni. Um er að ræða lýsispillur sem seldar eru undir merkinu Kirkland Signature Wild Alaskan Fish Oil. Heldur maðurinn því fram að lýsið innihaldi minna en helming af Omega-fitusýrum sem fullyrt er á pakkningunni að þær geri.
Maðurinn og lögfræðingar hans létu gera tvær rannsóknir á innihaldi lýsispillanna. Sú fyrri leiddi í ljós að 48% uppgefinna Omega 5, 6, 7, 9 og 11 fitusýra var þar að finna. Í þeirri síðari kom fram að einungis 40% uppgefinn Omega 3-fitusýra var á sínum stað.
Frá þessu er í greint í Seattle Times. Segir blaðið að hvorki Costco né framleiðandinn Trident Seafoods hafi svarað óskum um viðbrögð við fréttinni. Morgunblaðið hafði samband við verslun Costco í Garðabæ og þar fékkst uppgefið að umrædd vara væri ekki til sölu í versluninni.