Faðmlag Mateusz Morawiecki og Jean-Claude Juncker í Brussel.
Faðmlag Mateusz Morawiecki og Jean-Claude Juncker í Brussel. — AFP
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, afhenti í Brussel í gær ítarlega málsvörn pólskra stjórnvalda fyrir umdeildum breytingum á dómskerfinu og varaði við því að refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins gætu leitt til aukinnar andúðar í garð...

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, afhenti í Brussel í gær ítarlega málsvörn pólskra stjórnvalda fyrir umdeildum breytingum á dómskerfinu og varaði við því að refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins gætu leitt til aukinnar andúðar í garð þess meðal Pólverja og uppgangs lýðskrumshreyfinga sem vildu afnema eða veikja ESB.

ESB hóf í desember undirbúning að því að refsa Pólverjum vegna breytinganna þar sem af þeim stafaði ógn við sjálfstæði dómstóla landsins. Fengu pólsk stjórnvöld frest til 20. mars til að draga í land.

„Við gerum ráð fyrir því að rækileg greining verði gerð á þessu skjali,“ sagði Morawiecki á blaðamannafundi eftir að hann afhenti Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, málsvörnina.

Pólverjar eiga yfir höfði sér að verða sviptir atkvæðisrétti í sambandinu. Í grein sjö í Lissabon-sáttmálanum er kveðið á um að grípa megi til slíkra aðgerða sé réttarkerfi aðildarríkis í hættu. Greininni hefur aldrei verið beitt. Ungverjar, sem einnig hafa átt í deilum við ESB út af lýðræði, hafa sagst munu beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir slíkt.

Í málsvörninni segir að umbóta sé þörf til að berjast gegn spillingu og losna við eftirlegukindur frá tímum kommúnista. Umdeildasta breytingin er að þing og ráðherrar skipi dómara í hæstarétt og nefnd, sem gefur álit um framgang dómara. Hingað til hafa dómarar séð um þessar skipanir. Einnig segir að eftir breytingarnar njóti dómstólar sama sjálfstæðis og breskir, danskir, franskir, hollenskir, spænskir og þýskir dómstólar.