Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem blaðamaður ræddi við í gær, um hver staða þingmannanna tveggja í VG, þeirra Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar, sé eftir að þau greiddu atkvæði með vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra virðast sammála um að það sé í verkahring VG, þingflokksins og forystu flokksins, að taka ákvörðun um pólitíska framtíð þingmannanna.
Fram kom hér í Morgunblaðinu í gær að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, líta báðir þannig á, að þingmenn í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar séu 33, en ekki 35, þannig að hvorugur formannanna telur þau Andrés Inga og Rósu Björk með í stjórnarliðinu.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem rætt var við í gær, sögðu að málið væri afskaplega viðkvæmt og þeir kusu því að koma ekki fram undir nafni. Þau sögðu þó að atkvæðagreiðsla þingmannanna tveggja hefði svo sem ekki komið á óvart, því Andrés Ingi og Rósa Björk hefðu sl. haust lýst því yfir að landsréttarmálið væri m.a. skýringin á því að þau væru andvíg því að vinna með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.
„Hvað gerist í framhaldinu er of snemmt að segja. Nú er uppi sú staða að hvort um sig, þessara tveggja þingmanna, á sæti í tveimur fastanefndum þingsins. Það er því þeirra atkvæði sem ræður úrslitum um meirihluta eða minnihluta í fjórum af átta fastanefndum þingsins. Það er staða sem þingflokkur VG þarf að finna út úr og komast til botns í því hvort atkvæðagreiðsla þingmannanna um vantraust á dómsmálaráðherra, þýðir að þau séu tilbúin að snúast gegn málum ríkisstjórnarinnar hvenær sem er, eða hvort um eitt einangrað tilvik er að ræða,“ segir þingmaður Framsóknarflokksins.
Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem rætt var við í gær taka undir ofangreint viðhorf, og telja að þingflokkur VG og flokksforystan þurfi að skera úr um það hvort meirihluti ríkisstjórnarinnar sé enn fyrir hendi í þingnefndunum fjórum.
Boltinn sé hjá þingflokki VG og Katrínu Jakobsdóttur og því kjósa þingmennirnir sem rætt var við að tjá sig ekki frekar um málið að sinni