Sigurveig Georgsdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 4. mars 2018.

Foreldrar Sigurveigar voru Georg Júlíus Guðmundsson skipstjóri, f. 11.1. 1898, d. 28.2. 1977, og Jónína Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir, f. 8.11. 1907, d. 28.6. 1955. Bræður Sigurveigar voru dr. Guðmundur, læknir, forstöðumaður, kennari og háskólaprófessor, f. 11.1. 1932, d. 13.6. 2010, og Magnús Jónsson, rennismiður, forstöðumaður og framkvæmdastjóri, f. 24.12. 1930, d. 18.1. 2000.

Sigurveig gekk í hjónaband 8.11. 1957. Maður hennar er sr. Lárus Þorvaldur Guðmundsson, prestur og prófastur, f. 16.5. 1933. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðni Kristjánsson, verkstjóri og skrifstofumaður, f. 23.1. 1893, d. 4.11. 1975, og Lára Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir, f. 19.7. 1894, d. 15.7. 1990. Börn Sigurveigar og Lárusar eru: 1) Georg Kristinn, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, f. 21.3. 1959. Börn Georgs eru: a) Hildur, f. 28.7. 1984, maki Ólafur Már Ægisson, f. 27.3. 1981. Börn þeirra eru Ragnhildur Katla, f. 29.12. 2012, og Edda Guðrún, f. 6.8. 2016. b) Lárus Gauti, f. 7.9. 1986. Móðir Hildar og Lárusar er Guðrún Hrund Sigurðardóttir, kennari og fatahönnuður, f. 31.5. 1960. c) Vala Kristín, f. 16.7. 2009. Sambýliskona Georgs er Vala Agnes Oddsdóttir flugfreyja, f. 24.4. 1965. 2) Ragnheiður, kennari við Menntaskólann í Kópavogi, f. 29.5. 1961. Börn Ragnheiðar eru: a) Þorvaldur Sigurbjörn, f. 6.11. 1991, b) Rögnvaldur Konráð, f. 4.1. 1995, og c) Sigurveig Steinunn, f. 8.1. 1997. Faðir þeirra er Helgi Smári Gunnarsson, forstjóri Regins, f. 7.9. 1960. 3) Özur, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, f. 1.6. 1965, eiginkona Margrét Ása Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri, f. 1.11. 1971. Börn þeirra eru: a) Guðrún, f. 30.9. 1994, og b) Ragnheiður, f. 24.3. 1998.

Sigurveig ólst upp á Sólvallagötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún gekk í Landakotsskóla og Kvennaskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist með gagnfræðapróf 1948. Hún stundaði hjúkrunarnám við Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1954. Eftir útskrift vann hún sem hjúkrunarfræðingur á skurðstofum Landspítalans þar til hún fluttist að Holti í Önundarfirði ásamt eiginmanni sínum og fjölskyldu. Árið 1969 hóf hún störf á Heilsugæslustöðinni á Flateyri og starfaði þar til ársins 1987. Árið 1976 var henni veitt sérleyfi í skurðhjúkrun og árið 1981 lauk hún framhaldsnámi í heilsugæsluhjúkrun við Háskóla Íslands. Það sama ár var hún skipuð hjúkrunarforstjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Flateyri.

Sigurveig var virk í félagsmálum Hjúkrunarfélags Íslands, hún var formaður Vestfjarðadeildar félagsins og sat í samninganefnd þess um árabil. Árið 1987 fluttist hún ásamt eiginmanni sínum til Kaupmannahafnar þar sem hún var honum til aðstoðar í starfi hans sem sendiráðsprestur. Árið 1998 fluttust Sigurveig og sr. Lárus aftur til Íslands og settust að í Grafarvogi.

Útför Sigurveigar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 9. mars 2018, klukkan 11.

Ég hélt að hún mamma yrði eilíf. Hún var alla tíð svo sterk og örugg, skynsöm og klár. Hún var harðgerð, góð blanda úr Önundarfirðinum og Reykjavík. Hún var eins og klettur. Hún ólst upp í Vesturbænum. Afi var togarasjómaður og amma og langamma voru heima með krakkana. Uppeldið var í nánum tengslum við lífið, tilveruna, sjóinn og fiskinn og frændfólkið að vestan, uppi á Skaga og í Reykjavík. Mamma var eins og aðrir krakkar send í sveit, m.a. til frændfólksins og Maju Jóhanns vestur á Flateyri. Það var því kannski ekki svo skrítið að mamma og pabbi, sem er fæddur og uppalinn á Ísafirði, skyldu flytjast vestur í Önundarfjörð árið 1963. Þetta var langt ferðalag með Esjunni um vetur, komið til Flateyrar í snjó og myrkri. Ninna frænka og Greipur tóku vel á móti okkur. Með leiðbeiningu tókst að finna leiðina heim í Holt. Það hlýtur að hafa verið allnokkuð fyrir rétt rúmlega þrítuga Reykjavíkurstúlku að flytjast að Holti þar sem ekki var einu sinni rafmagn en reyndar mjög góð gljákolavél og símanúmerið var tvær langar og tvær stuttar. Þetta eins og annað leysti hún mamma vel. Það var þó ekki þannig að henni líkaði allt sem fylgdi þessum nýja raunveruleika og er þá fyrst fyrir ferðalögin í ófærð og hættur bæði á sjó og landi í snjó og ís.

Mamma var hjúkrunarkona, sérmenntuð í skurðstofuhjúkrun og sú reynsla var ekki látin liggja ónotuð í þessari sveit. Fljótlega var hún farin að gera að sárum og leggja lið dýrum og mönnum og komin í fasta vinnu á Sjúkraskýlinu á Flateyri. Við systkinin þrjú vorum þá bráðung. Á þessum árum var oft læknislaust og samgöngur verulega frábrugðnar því sem nú er. Til að komast til vinnu þurfti að fara fyrir fjörð en það var um 25 km leið. Á þeim árum lokaði Vegagerðin aldrei þessum vegi og opnaði hann reyndar heldur ekki. Þegar skoðuð eru orðin „að sinna sínu starfi, rækja sínar skyldur“ kemur þessi aðstaða oft upp í hugann. Mamma fór nánast í öllum veðrum til að sinna sínum skyldum. Hún vissi að hennar var þörf og oft á tíðum engum öðrum til að dreifa. Hún var ekki alltaf hrifin af ferðunum, sérstaklega á bátnum þar sem þurfti að miða á bryggjuljósið, ef það sást, og taka mið af fallinu þegar lagt var inn í íshrönglið til að ná að hitta á Eyrina. Svo komu vélsleðarnir en annars var það Landroverinn, snjóflóðin, snjómoksturinn og kófið. Henni þótti huggulegast að ferðast með varðskipunum sem oft voru hjálpleg á milli fjarða. Hún mamma var sumarkona sem naut vestfirska vorsins og þá var hún í æðarvarpinu, hún þekkti kollurnar með nafni og reyndar alla fugla og plöntur. Mamma var eins og náttúran fyrir vestan; stundum svolítið hrjúf, alltaf í raunveruleikanum og með báða fæturna á jörðinni en líka svo ljúf og mild. Hún var rífandi klár, hún las sagnfræði, amerísk leikrit og ljóð í frístundum. Hún var okkar internet, sem var flett upp í við öll tækifæri, og það nýttist í námi og starfi. Hún mamma gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana, hún var baráttukona og það staðfesti hún nú í vikunni.

Georg Kristinn Lárusson.

Elskuleg tengdamóðir mín, Sigurveig Georgsdóttir, hefur fengið hvíldina eilífu.

Systa og Lárus bjuggu megnið af sínum búskaparárum í Holti í Önundarfirði. Systa starfaði þar sem hjúkrunarfræðingur og síðar hjúkrunarforstjóri á heilsugæslustöðinni á Flateyri, eftir að hún lauk mastersprófi sínu í hjúkrun. Starf hennar fyrir vestan var ansi fjölbreytt enda þurfti hún oft að fylla í skarðið þar sem læknir var ekki alltaf til staðar. Þannig var hún oft einnig í hlutverki ljósmóður þar sem hún þurfti oft að ferðast í vondu veðri í sveitinni til að sinna sjúklingum og taka á móti börnum.

Eftir tæplega 30 ára farsælt starf fyrir vestan fluttu Systa og Lárus til Danmerkur þar sem þau bjuggu sér fallegt heimili í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Það fór ekki á milli mála að hún naut þess að búa í Kaupmannahöfn. Hún talaði stundum um að sér hefði nú þótt snjórinn fullmikill þarna fyrir vestan enda sjálf uppalin í Reykjavík og fyrir vestan voru oft allar leiðir lokaðar, jafnvel í allt að þrjár vikur sem gerði vinnuna oft erfiða.

Þegar þau voru flutt út til Kaupmannahafnar kynntist ég syni þeirra Özuri, það hefur verið lán mitt að eignast þau sem tengdaforeldra. Við Özur bjuggum við nám í Danmörku og áttum við tvö mjög skemmtileg ár úti með Systu og Lárusi. Þótt söknuður fylli hjarta mitt þá er ég fyrst og fremst þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman. Systa var sérstaklega orðheppin, gáfuð og með yndislegan húmor. Hún var fyrirmynd mín í lífinu. Þau hjónin áttu góðan tíma í Kaupmannahöfn þar sem Lárus starfaði sem sendiráðsprestur og hún aðstoðaði hann. Systa var meistarakokkur og hún hafði unun af að elda góðan mat fyrir vini sína og fjölskyldu. Í Kaupmannahöfn hún gat hún valið úr úrvalshráefni og eldað alls kyns lystisemdir. Ég ylja mér við minningar úr eldhúsinu þar sem ég lærði af henni að búa til góðan mat og við skáluðum saman í sérríglasi yfir pottunum. Hún naut sín best ef hún hafði allt fólkið sitt hjá sér. Í Jónshúsi var alltaf gestkvæmt og man ég að hún hélt veislur fyrir kirkjukórinn eftir hverja kóræfingu. Við matarborðið skapaðist iðulega skemmtileg stemning yfir höfðinglegum kræsingum þar sem spjallað var um allt milli himins og jarðar.

Eftir 10 ára starf í Danmörku fluttu þau heim í faðm fjölskyldunnar. Þegar þau komu heim fengum við að njóta þess að ferðast um allt landið með þeim.

Síðustu árin hafa Systa og Lárus búið á Eir þar sem Systa sofnaði sínum hinsta svefni sátt við alla hér á jörð. Við varðveitum dýrmætar minningar og þökkum samfylgdina.

Guð geymi Systu.

Margrét Ása (Mása).

Ég sakna hennar ömmu minnar sem dó á sunnudaginn. Hún var góð og skemmtileg. Mér fannst gaman að koma til hennar. Henni fannst ís mjög góður og líka mér. Það var gaman að fara í útilegur með henni og afa og stundum hittum við fullt af frændfólkinu okkar og ég fékk að leika með stóru krökkunum.

Ég er langyngst af barnabörnunum hennar ömmu. Ég man alltaf eftir henni þegar ég fæ mér ís.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Við amma ólumst báðar upp í Vesturbænum, hún á Sólvallagötunni en ég á Framnesveginum. Það var gaman að koma á Eir. Afi kenndi mér margföldunartöfluna og við amma fengum nammi.

Bless elsku amma og Guð geymi þig.

Vala Kristín Georgsdóttir.

Ég var svo heppin að eiga ömmu Systu sem ömmu, alvöru ömmulega ömmu, sem tók alltaf á móti mér með ólýsanlegri hlýju þegar við hittumst. Ég minnist einna helst tímans sem við áttum í Dofraskóla, þegar við barnabörnin vorum svo heppin að fá að vera hjá ömmu og afa meðan verkfall var í grunnskólum landsins. Afi sá um stærðfræðitímana og amma um íslenskutímana og þegar verkfallinu lauk vorum við frændsystkinin búin að læra allt sem læra átti þann veturinn – enda var Dofraskóli enginn barnaskóli. Amma sá ekki bara um íslenskutímana, heldur auðvitað hádegismatinn líka – enda varla til betri kokkur en hún. Síðar, þegar ég byrjaði í menntaskóla, tók ég það upp að heimsækja ömmu og afa einu sinni í viku eftir skóla og það var alltaf notalegt hjá okkur, amma eldaði eitthvað gott og við spjölluðum öll þrjú saman fram eftir kvöldi. Amma hafði líka gaman af því að fara í bíltúr og við gerðum svolítið af því síðustu árin, fórum á ísrúnt, en við amma áttum það sameiginlegt að vera nammigrísir. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með ömmu minni, sem alltaf var glöð að sjá mig, sýndi mér mikla væntumþykju og hlýju og passaði upp á að öllum í kringum sig liði vel.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Guðrún Özurardóttir.

Hún amma mín var kjarnakona. Hún var hámenntuð útivinnandi kona sem mér fannst allt kunna. Mínar helstu minningar um ömmu eru um allt það sem hún gat og kunni. Hún gat lagað allt og vissi allt. Ef einhvern vantaði klippingu gat hún bjargað því. Veiktist einhver eða slasaðist gat hún bjargað því og vissi allt um alla mögulega sjúkdóma. Hún saumaði skírnarkjóla og brúðarföt, heklaði teppi og sjöl sem við barnabörnin og barnabarnabörnin fáum enn í dag að njóta.

Amma að öðrum ólöstuðum eldaði heimsins besta mat. Hún hefði hæglega geta unnið sem matreiðslumaður á fínustu veitingahúsum heimsins. Amma eldaði heldur engan hefðbundinn „ömmumat“ heldur bauð hún upp á framúrstefnulega rétti og notaði óhefðbundin krydd og fræ til matargerðar. Þegar við Lalli vorum hjá ömmu og afa í Jónshúsi fengum við mjög oft að ráða hvað yrði í matinn. Þá sló amma reglulega upp dýrindis veislu af engu tilefni, bauð upp á þriggja rétta máltíð og við fengum að aðstoða hana. Mér fannst mjög gaman að rölta með henni yfir í Irma þegar amma og afi bjuggu í Kaupmannahöfn. Þar völdum við saman hvað ætti að kaupa inn og hafa í matinn og settum það síðan í innkaupakerruna hennar sem afi hafði gefið henni.

Amma var mikill sælkeri sem hafði unun af góðum mat og smá rauðvíni með. Það var því viðeigandi að nóttina eftir að hún dó dreymdi mig hana þar sem hún sat við borð og spurði mig á dönsku hvort við ættum nú ekki að fá okkur smávegis rauðvín.

Ég sé ömmu fyrir mér sitjandi við eldhúsborðið í Jónshúsinu að fletta uppskriftum. Núna er hún laus við þjáningar og getur notið þess að borða góðan mat með bræðrum sínum og foreldrum sem hún saknaði svo.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Hildur Georgsdóttir.

amma sjóræningi

leppar fyrir augum og klútar á höfðum

á skenknum trónir pappafallbyssa

við stöndum saman

hönd í hönd

tveir sjóræningjar

reiðubúnir til atlögu

man vart þennan dag

en rúmum tveimur áratugum síðar

finnst mér ekkert sjálfsagðara

veit að þér fannst ekkert sjálfsagðara

þú skildir nauðsyn þess fyrir unga menn

að vera ávallt gráir fyrir plasti

og vílaðir ekki fyrir þér að vopnast sjálf

þú

sem varst heiðursgestur í Amalíuborg

jafnt sem Kristjaníu

hélst stórveislur í húsum forseta

jafnt sem fellihýsum

menntaðir hundruð

í Holti jafnt sem Dofraskóla

hjúkraðir þúsundum

sjúklingum jafnt sem sjóræningjum

amma

þú sigldir með mér um höfin sjö

nú siglir þú öll hin höfin.

Þorvaldur S. Helgason.

Frú Sigurveig Georgsdóttir hjúkrunarfræðingur er látin.

Systa var glöggskyggn, glaðvær og leifturfljót að hugsa. Hún bjó yfir skemmtilegri frásagnargáfu og þegar Systa mælti lagði fólk við hlustir. Hún var móðir, heilari, líknari og gjöf af manneskju. Systa bjó yfir mannelsku og visku sem hreif hvern þann sem kynntist henni. Smitandi hlátur hennar og kímnigáfa var engu lík. Systa var salt jarðar og ljós himins sem allir, sem henni kynntust, elskuðu.

Kærleikur þeirra hjóna Lárusar og Sigurveigar var með eindæmum skilyrðislaus og á ég þeim heiðurshjónum líf mitt að launa er þau, án orðtaks hvað þá meira, tóku mig að sér sem ráðvilltan ungling. Heimili þeirra, Holt í Önundarfirði, bjó yfir reisn, kærleik, hlýju, svefnró og gnægð matar. Minningin er sem paradís og lífgjöfin sönn.

Það var gjöfull lærdómur að kynnast fjölskyldunni í Holti. Borðbænir, messur og dagleg störf í dreifbýli. Lárus og Systa bökuðu grófkjarnabrauð af lífsins lyst, dældu í okkur bætiefnum og næringarríkri fæðu og þarna lærði ég að meta líðandi stund án örvæntingar eða kvíða, sem ég er ævinlega þakklátur fyrir.

Elsku Lárus minn, Georg, Ragnheiður og Özur, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. Þyngra en tárum taki þykir mér að vera í fjarlægum heimshluta og geta ekki verið viðstaddur útförina. Votta ykkur innilega hjartans samúð vegna fráfalls Sigurveigar. Hugur minn og bænir er hjá ykkur.

Árni Mar Jensson.