Sigurjón Pétursson fæddist í Skildinganesi við Reykjavík 9.3. 1888. Hann var sonur Péturs Þórarins Hanssonar, sjómanns og síðan næturvarðar í Skildinganesi, og k.h., Vilborgar Jónsdóttur húsfreyju.
Pétur Þórarinn var sonur Hans Hanssonar, tómthúsmanns á Litlu-Bergsstöðum í Reykjavík, og Ólafar Jónsdóttur húsfreyju, en Vilborg var dóttir Jóns Einarssona, bónda og sjómanns í Skildinganesi, og Ástu Sigurðardóttur húsfreyju.
Kona Sigurjóns var Sigurbjörg Ásbjörnsdóttir Stephensen og eignuðust þau þrjú börn, Pétur, verkfræðing og forstjóra Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, Sigríði húsfreyju og Ásbjörn.
Sigurjón stundaði verslunarstörf hjá ýmsum í Reykjavík á árunum 1902-15 og var síðan kaupmaður þar frá 1915. Hann festi kaup á klæðaverksmiðjunni Álafossi í Mosfellssveit 1919 og starfrækti hana síðan.
Sigurjón var þekktur glímukappi og glímukóngur á sínum yngri árum. Hann var einn af glímuköppunum sem glímdu á Þingvöllum við konungskomuna 1907, meðal ólympíufaranna til London 1908 og til Stokkhólms 1912 og var glímukappi Íslands 1910-1919. Þá var hann skautameistari Íslands 1910 og 1911 og var sæmdur fjölda verðlauna fyrir ýmis íþróttaafrek, s.s. á íþróttamótinu sem haldið var í Reykjavík á hundrað ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar.
Sigurjón var á ýmsan hátt dæmigerður fulltrúi aldamótakynslóðarinnar sem trúði á land og þjóð og heilbrigða sál í hraustum líkama. Hann var íþróttafrömuður, einn af stofnendum Glímufélagsins Ármanns 1906 og sat í stjórn þess í mörg ár, einn af stofnendum ÍSÍ 1912 og heiðursfélagi þess, rak frægan íþróttaskóla að Álafossi, var meðal stofnenda Sálarrannsóknarfélags Íslands, Náttúrulækningafélags Íslands og Félags íslenskra iðnrekenda og formaður þess.
Sigurjón lést 3.5. 1955.