Fyrirliði Emil Barja lyfti bikarnum á Ásvöllum í gærkvöld. Hann segir að liðsheild Haukanna sé afar sterk og þeir séu heppnir með atvinnumann.
Fyrirliði Emil Barja lyfti bikarnum á Ásvöllum í gærkvöld. Hann segir að liðsheild Haukanna sé afar sterk og þeir séu heppnir með atvinnumann. — Morgunblaðið/Hari
Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is „Þeir höfðu engu að tapa og börðust eins og ljón allan tímann. Þetta var ekki einfalt á móti góðu liði.Valsmenn eru nýliðar en héldu sér uppi og þeir spila fast.

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þeir höfðu engu að tapa og börðust eins og ljón allan tímann. Þetta var ekki einfalt á móti góðu liði.Valsmenn eru nýliðar en héldu sér uppi og þeir spila fast. Við vorum hins vegar skrefi fyrir ofan í öllum aðgerðum,“ sagði Emil Barja, fyrirliði Hauka, í samtali við Morgunblaðið eftir 83:70-sigur á Val í gærkvöldi. Með sigrinum tryggðu Haukar sér sinn fyrsta deildarmeistaratitil í körfuknattleik karla.

Haukar gátu tryggt sér hann með sigri á ÍR síðastliðinn sunnudag, en það tókst ekki. Emil segir Haukamenn ekki hafa velt því fyrir sér. „Þessi vika hefur verið svipuð og aðrar í vetur. Stressið hefur ekki verið neitt meira. Við vissum að ef við myndum spila af krafti og spila okkar leik myndum við vinna. Við getum spilað betur en það er gott að geta unnið án þess að eiga okkar besta leik. Það sýnir hve góðir við erum.“

Fyrirliðinn segir marga þætti koma að góðu gengi í vetur og þá sérstaklega liðsheildina hjá leikmönnum sem hafa spilað lengi saman. „Breiddin og varnarleikurinn eru búin að vera mjög góð í allan vetur og liðsheildin er góð. Við höfum verið að spila saman í mörg ár. Við höfum einu sinni komist í úrslit og oftast verið í kringum úrslitakeppnina,“ sagði Emil, sem hrósaði þeim Kára Jónssyni og Paul Jones sérstaklega. Þeir voru ekki með liðinu í fyrra, er það var í mikilli fallbaráttu. „Allir átta sig á því að Kári er númer eitt. Drengurinn er alveg geggjaður. Við höfum stigið upp með honum líka, en þetta er einn besti leikmaður landsins. Hann myndi gera öll lið í deildinni að toppliðum. Jones hefur svo líka smellpassað inn í liðið. Mikið betur en atvinnumennirnir í fyrra. Við vorum heppnir að hitta á Jones, því hann er frábær einstaklingur, bæði innan og utan vallar. Hann gerir mikið fyrir okkur. Á sama tíma höfum við verið miklu hungraðri í ár á meðan við virkuðum saddir í fyrra.“

Úrslitakeppnin hefst eftir viku og mætast Haukar og Keflavík í átta liða úrslitum. Sem deildarmeistarar eru Haukar með heimavallarrétt og segir Emil það mikilvægt, enda liðið aðeins tapað einum leik á heimavelli í allan vetur. „Það skiptir okkur ekki máli hverja við fáum, við förum í alla leiki til að vinna. Heimavöllurinn er búinn að vera mjög sterkur í vetur og við ætlum að halda því þannig,“ sagði Emil Barja, fyrirliði Hauka.