Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Vel gekk að leggja samræmt próf í stærðfræði fyrir nemendur í níunda bekk í gær. Ekki komu upp sambærileg vandamál og með íslenskuhluta prófsins daginn áður. Alls þreyttu um 4.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Vel gekk að leggja samræmt próf í stærðfræði fyrir nemendur í níunda bekk í gær. Ekki komu upp sambærileg vandamál og með íslenskuhluta prófsins daginn áður. Alls þreyttu um 4.300 nemendur prófið og aðeins komu upp einstaka tæknileg vandamál. Fulltrúar þjónustuaðila prófakerfisins voru með sérstaka vakt og sáu til þess að tölvuþjónar á Írlandi réðu við álagið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem það er harmað að framkvæmd samræmdra prófa í íslensku í 9. bekk hafi mistekist með tilheyrandi óþægindum fyrir nemendur og kennara.

Ráðuneytið hefur boðað fulltrúa skólastjóra, kennara, nemenda, foreldra og sveitarfélaga til fundar á miðvikudaginn í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna eftir íslenskuprófið. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort íslenskupróf verður lagt fyrir að nýju fyrir þá nemendur sem ekki náðu að ljúka því eða prófið fellt niður.

Prófin rædd á Alþingi

Framkvæmd samræmdu prófanna var rædd á Alþingi í gær. Þar spurði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, út í tilgang samræmdu prófanna. Sagði hann að sú nálgun á íslenskukennslu sem sneri að prófunum og undirbúningi fyrir þau gæti skapað andúð á íslenskri tungu og bókmenntum meðal ungmenna. Lilja Alfreðsdóttir sagði í svari sínu að brýnt væri að skoða samræmdu prófin og athuga hvað ætti við og hvað ekki í dag.