[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Að mati Sigríðar Snævarr, fyrsta kvensendiherra Íslands, er fyrsta forsendan fyrir því að draumurinn um að völd og áhrif í atvinnulífinu verði að raunveruleika fyrir bæði kynin sú, að viðskiptalífið dragi til sín metnaðargjarnar konur. Önnur forsendan er að hennar sögn sú að öflugir aðilar velji að eiga viðskipti eingöngu við þau fyrirtæki þar sem hlutfallið milli karla og kvenna í samsetningu stjórna og lykilstjórnenda er þeim að skapi.

Þetta kom fram í máli Sigríðar á athöfn sem haldin var í Kauphöll Íslands í gærmorgun, þegar alþjóðadegi kvenna var fagnað með bjölluhringingu við opnun markaða. Sigríður var sérstakur gestur Nasdaq við þetta tilefni, og hringdi hún Nasdaq-bjöllunni kröftuglega eftir að hafa lokið máli sínu.

Sigríður benti á í þessu samhengi að við opnun viðskiptadags í kauphöllinni í London fyrir mánuði hefðu 27 alþjóðleg fjárfestingarfyrirtæki komið saman undir yfirskriftinni 30% klúbburinn sem vísi í hlutfall kvenna í stjórnum þeirra fyrirtækja sem þau munu eiga í viðskiptum við. „Mun þetta duga, eða þurfum við nýjan arkitektúr, að stilla áttavitann upp á nýtt,“ spurði Sigríður.

Óbreytt staða í Noregi

Í máli Sigríðar kom einnig fram að Norðmenn hafi fyrstir allra fyrir 10 árum sett reglur um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja. Vísaði hún í grein The Economist þar sem fram kom að þrátt fyrir þetta hefði konum í lykilstöðum í norsku atvinnulífi ekki fjölgað á þessum 10 árum. Norskar konur væru nú 7% forstjóra þar í landi, á Íslandi sé sama hlutfall 8% og í Bandaríkjunum, þar sem engar sambærilegar reglur séu í gildi, sé hlutfallið 5%. „Þessi grein vekur áleitnar spurningar um það hvaða hnífar bíta.“

Benti Sigríður einnig á þær vörður sem varðaðar hefðu verið hér á landi, og nefndi þar meðal annars 19. júní, kvennafrídaginn, kvennasögusafnið, kjör Vigdísar, Kvennalistann, fléttulistana, feðraorlofið, jafnlaunavottunina, Press for progress og He for She.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sté einnig í pontu við þetta tilefni og sagði að þó að Íslendingar væru iðulega mjög framarlega í öllum könnunum þegar kæmi að mælingum á jafnrétti og stöðu kvenna, sýndi tölfræði atvinnulífsins svo ekki væri um villst að enn væri nokkuð í land. „Þannig að baráttan heldur áfram,“ sagði Páll og bætti við: „Það er óneitanlega umhugsunarvert, að þó að það sé á fimmta ár síðan kynjakvótar voru innleiddir séum við ennþá að sjá ójafnvægi í valdastöðum. Hlutfall kvenna er skelfilega lágt á mörgum sviðum.“

Jafnrétti
» Bjöllu var einnig hringt í móðurkauphöll Nasdaq í New York og hjá Nasdaq í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki og í Eystrasaltsríkjunum.
» Deginum er auk þess fagnað í yfir 50 öðrum kauphöllum.
» Adena Friedman, forstjóri Nasdaq, hefur skrifað undir yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um þau grunngildi sem snúa að valdeflingu kvenna.