Haukur Hilmarsson Eins og hann birtist á myndbandi á Youtube.
Haukur Hilmarsson Eins og hann birtist á myndbandi á Youtube. — Skjáskot/Youtube-IFB
Magnús Heimir Jónasson Erna Ýr Öldudóttir Haukur Hilmarsson var skotinn til bana af tyrkneska flughernum og líkið er í höndum tyrkneska hersins skv. heimildum frá Afrin-héraði.

Magnús Heimir Jónasson

Erna Ýr Öldudóttir

Haukur Hilmarsson var skotinn til bana af tyrkneska flughernum og líkið er í höndum tyrkneska hersins skv. heimildum frá Afrin-héraði.

Mohammed Hassan, Kúrdi og blaðamaður í Sýrlandi, sóttist eftir að fá staðfestar fregnir af andláti Hauks og skv. heimildum hans frá hátt settum félaga innan vopnaðra sveita Kúrda (YPG), féll Haukur ásamt tveimur arabískum YPG-liðum í skotárás. Reyndu liðsmenn YPG að komast að honum en urðu að hörfa frá. Lík Hauks sé nú í höndum tyrkneska hersins. Fljótlega standi til að skipta á líkum tyrkneskra hermanna og YPG-liða, þ.á m. líki Hauks.

„Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að YGP telji hann af og vitum nokkuð nákvæmlega hvar hann féll en við vitum ekki ennþá hvar líkið er. Kúrdar komast ekki inn á árásarsvæðið til þess að leita en það hefur verið leitað á öllum sjúkrahúsum í borginni og hann hefur ekki fundist. Í tyrkneskum fjölmiðlum hefur komið fram að Tyrkir séu með líkið og að það verði sent heim, en það hefur enginn haft samband við íslensk yfirvöld vegna þess og þetta gæti verið byggt á sögusögnum eða hreinlega áróðursbragð. Það er allt eins líklegt að hann hafi grafist undir rústum,“ er haft eftir Evu Hauksdóttur, móður hans.

Fjölskyldan átti fund með utanríkisráðuneytinu og lögreglu í dag, en þar fengust engar viðbótarupplýsingar, að sögn Evu.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði embætti hans vera að vinna í málinu og hafa leitað til erlendra samstarfsaðila en hafi ekki fengið staðfestingu á láti Hauks.

Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði engar formlegar upplýsingar hafa borist um andlát Hauks. Enn væri því ekki hægt að byrja að reyna að fá tyrknesk stjórnvöld til að afhenda líkamsleifar hans, en ræðismaður Íslands í Tyrklandi væri að vinna í málinu sem nyti algers forgangs.