Sigmundur Benediktsson orti „sólskinssonnettu“ í hádegi 7. mars, birtir á Leir og kallar „Vorþrá (ensk sonnetta)“: Nú hækkar sólin, hugsun birtu vefur og hokinn vetrarskuggans þáttur dvín.

Sigmundur Benediktsson orti „sólskinssonnettu“ í hádegi 7. mars, birtir á Leir og kallar „Vorþrá (ensk sonnetta)“:

Nú hækkar sólin, hugsun birtu vefur

og hokinn vetrarskuggans þáttur dvín.

Í brjósti vaknað vorsins andi hefur

og vonin aftur fundið gullin sín.

Nú góa hefur gengið sér til húðar

og gamli þorri liðinn okkur frá,

svo einmánuður arkar nú til búðar

og ýmsar nýjar myndir lætur sjá.

Þá loftsins gestir ljúfa brýna róminn

og lögin þeirra vekja streng í sál.

Í okkar vitund ástar finnum hljóminn

og af því verður lundin mild og þjál.

Því hugarflugið móti vorsins veldi

er varðað helgri þrá – og sólar eldi.

Arnþór Helgason sagði vel og fallega ort: – „Það er eins og segir í þjóðvísu af Seltjarnarnesi:

Sólskinið er sannarlega

silfurbjart

og reynist ekki alla vega

allt of hart.“

Páll Imsland heilsar Leirliði „í biðinni eftir vori“:

Skarphéðinn Jensson á Skeri

skipstjóri' í fengsælu veri

var aldrei á sjó.

Í ættinni þó,

hvorki' er hann lúði né leri.

Kötturinn Jósefína Meulengracht Dietrich er búin að ákveða að hjálpa með þetta:

Stjórnmál virðast stundum eins og stærðar hnykill.

Það flækjast oft hjá fólki böndin

í ferlegt rugl með heilu löndin

og Berlusconis býður vandi býsna mikill

svo hafa þarf í höfði sínu

heilræði frá Jósefínu.

Þetta féll í góðan jarðveg. Atli Harðarson kvað:

Já best er að þú bjargir honum

Berlusconi

því alveg hreint ég er á nálum

að hann klúðri sínum málum.

Benedikt Jóhannsson yrkir á Boðnarmiði:

Lífið það er lotterí

mig langar svo í „flotterí“.

Gef mér ljúffengt gotterí,

glás, en ekkert smotterí.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is