Þakklátur Balkrishna Doshi.
Þakklátur Balkrishna Doshi. — AFP
Indverski arkitektinn Balkrishna Doshi hlýtur hin virtu Pritzker-verðlaun í ár, en þau eru ein virtasta viðurkenning sem veitt er á sviði arkitektúrs.

Indverski arkitektinn Balkrishna Doshi hlýtur hin virtu Pritzker-verðlaun í ár, en þau eru ein virtasta viðurkenning sem veitt er á sviði arkitektúrs.

Doshi, sem er níræður, starfaði með svissneska arkitektinum Le Corbusier og hafði yfirumsjón með hönnun hans á borginni Chandigarh í norðurhluta Indlands sem var fyrsta borgin sem byggðist upp eftir að Indland hlaut sjálfstæði 1947. Doshi er þekktur fyrir að vinna að hagkvæmum húsnæðislausnum og varð einn áhrifamesti arkitekt í heimalandi sínu eftir að Indland öðlaðist sjálfstæði. Doshi er fyrsti Indverjinn sem hlýtur Pritzker-verðlaunin sem veitt hafa verið frá árinu 1979.

„Balkrishna Doshi hefur alltaf skapað alvarlegan arkitektúr, sem er laus við íburð eða eltist við tískuna,“ segir í umsögn dómnefndar verðlaunanna. Þar kemur fram að hönnun hans búi yfir „djúpri tilfinningu fyrir ábyrgð og löngun til að leggja sitt af mörkum fyrir föðurlandið og íbúa þess með ekta hágæðaarkitektúr“.

Doshi fæddist 1927 inn í fjölskyldu sem fengist hafði við húsgagnagerð í tvær kynslóðir. Hann lærði arkitektúr í Mumbai áður en hann fluttist til Parísar 1951 til að vinna fyrir Le Corbusier og sneri aftur til Indlands 1954 til að hafa yfirumsjón með hönnunarverkum lærimeistara síns. „Ég get þakkað læriföður mínum, Le Corbusier, fyrir að hafa hlotið þessi virtu verðlaun,“ sagði Doshi þegar hann frétti af verðlaununum.