Jóhann Gunnar Jóhannsson fæddist í Reykjavík 19. september 1969. Hann lést í Berlín 9. febrúar 2018.
Foreldrar hans eru Edda Þorkelsdóttir, fædd í Reykjavík 27.11. 1937, og Jóhann Gunnarsson, fæddur að Selalæk á Rangárvöllum 20.9. 1935.
Jóhann var yngstur fjögurra systkina. Systur hans eru eru Lilja, fædd 13.10. 1956, Guðrún, fædd 30.6. 1960, og Anna Hrönn, fædd 10.8. 1962.
Dóttir Jóhanns er Karólína Jóhannsdóttir, fædd 31.12. 1997. Móðir hennar er Sigfríður Guðlaugsdóttir, fædd 5.5. 1967. Þær mæðgur búa í Kaupmannahöfn. Hálfbróðir Karólínu er Hrafnkell Grímur Gunnlaugsson, fæddur 22.12. 1991. Síðari sambýliskona Jóhanns til margra ára var Louise Højgaard Johansen, nú búsett í Prag.
Jóhann ólst upp á Seltjarnarnesi og gekk í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla. Um þriggja ára skeið, frá 1978 til 1981, bjó fjölskyldan í París og gekk Jóhann þá í Ameríska skólann í París. Frá 10 ára aldri lærði hann á básúnu og síðar einnig píanó, meðal annars í Tónlistarskóla Seltjarnarness. Hann lék á básúnu í skólahljómsveitum og Lúðrasveitinni Svan. Á unglingsárunum stofnuðu hann og vinir hans hljómsveitina Daisy Hill Puppy Farm sem gaf út tvær smáskífur. Síðar kom hver hljómsveitin af annarri. Hann lagði stund á ensku, frönsku og bókmenntir við Háskóla Íslands en lengst af átti tónlistin hug hans allan. Hann stofnaði ásamt fleirum Apparat Organ Quartet, og um líkt leyti byrjaði hann að semja eigin tónlist. Ásamt þeim Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Hilmari Jenssyni stofnaði hann Tilraunaeldhúsið, eða Kitchen Motors, sem gaf út nokkrar plötur og stóð fyrir ýmsum stefnumótum ólíkra listamanna. IBM 1401 – A User's Manual varð til sem tón- og dansverk í höndum hans og Ernu Ómarsdóttur dansara.
Eftir aldamót hætti hann hljómsveitarleik og sneri sér alfarið að tónsmíðum. Hann flutti til Kaupmannahafnar en settist síðar að í Berlín um það bil sem kvikmyndatónlist hans fór að vekja athygli. Eftir hann liggja meðal annars níu sólódiskar, tónlist við yfir 20 kvikmyndir og nokkur leikrit. Frá 2016 var útgáfa á tónverkum hans undir merki Deutsche Grammophon. Þá gerði hann á síðari árum tvær kvikmyndir undir eigin nafni, End of Summer og Last and First Men. Hin síðarnefnda var frumflutt með lifandi tónlist á tónlistarhátíð Manchester-borgar 2017 og er á dagskrá Fílharmoníusveitar BBC í Barbican Centre í desember næstkomandi.
Verk hans hafa verið tilnefnd til fjölda verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlauna tvisvar, BAFTA-verðlauna þrisvar og Golden Globe tvisvar, en þau verðlaun vann hann 2014 fyrir tónlist í myndinni The Theory of Everything. Ásamt Hildi Guðnadóttur og Rutger Hoedemaekers hlaut hann Edduverðlaun árið 2016 fyrir tónlist í sjónvarpsþáttunum Ófærð.
Útför Jóhanns verður frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 9. mars 2018, klukkan 15.
Þessa daga síðan Jói kvaddi hafa minningarnar hrannast upp og ég átta mig á því hve mikil áhrif það hefur haft á mig að hitta hann. Við áttum örlagaríkt spjall á kaffihúsi í Amsterdam fyrir sextán árum þar sem við uppgötvuðum að pabbar okkar hefðu unnið saman hjá IBM í gamla daga og verið viðstaddir kveðjuathöfn þegar IBM 1401, fyrsta tölva Íslands, var tekin úr sambandi og þar með úr notkun. Hann sagði mér frá upptökum sem pabbi hans átti í fórum sínum, en hann hafði unnið við þessa merku tölvu og fundið leið til að láta hana búa til melódíur. Það var mannlegur eiginleiki sem tölvan átti ekki að hafa.
Ég var heilluð af þessu og innblásin. Við tengdum strax og ákváðum að prófa að vinna saman, gera dúett sem yrði samtal milli dans og tónlistar. Þetta var byrjunin á verkinu IBM 1401 – A User's Manual og næstum tíu ára samstarfi sem fól í sér hátt í hundrað sýningar um alla Evrópu. Við tók svo annað verk sem hét því dramatíska nafni The Mysteries of Love. En svo skildu leiðir enda hafði þetta samstarf tekið á, eins mikið og það var búið að vera gjöfult og stórkostlegt. Við vorum í litlu sambandi síðustu árin en skrifuðumst á einstaka sinnum.
Nú í byrjun febrúar töluðum við heillengi saman í síma þar sem Jói var í Berlín. Það lá svo vel á honum eins og ekkert hefði breyst. Við fórum að tala um nýtt samstarf og ákváðum einnig að taka upp IBM-verkið aftur vegna mikillar eftirspurnar. Við sem höfðum áður talað um að gera það ekki aftur fyrr en við yrðum orðin mjög gömul, þá fyrst yrði það áhugavert. Ég var aldeilis glöð og innblásin eftir þetta símtal. Í vikunni á eftir fór ég svo upp í dansstúdíó til að reyna að rifja upp IBM-dansinn, níu árum síðar. Ég sendi Jóa síðan SMS-skilaboð um hvað ég væri hamingjusöm að dansa aftur við þessa stórkostlegu tónlist og hlakkaði til að hitta hann aftur í mars þegar hann ætlaði að koma heim til Íslands. Hann sagðist ætla að skrifa mér bréf um þetta allt saman en það bréf fékk ég aldrei, því daginn eftir kvaddi hann þennan heim, þetta líf í þeirri mynd sem við þekkjum það.
Við áttum margt sameiginlegt í sambandi við listrænan smekk, vorum bæði fyrir öfgarnar, myrkrið og ljósið, fegurðina, ljótleika, skrítnina, horrorinn og allt þar á milli. Jói var ótrúlegur, svo góður og svo fróður. Hann kynnti mér alls konar tónlist og kvikmyndir og hitti alltaf naglann á höfuðið.
Ég kveð stórkostlegan listamann og vin með söknuði og votta fjölskyldunni innilega samúð.
Erna Ómarsdóttir.