Víkverji hefur gaman af því að bregða sér á stærri viðburði í íslensku íþróttalífi. Skemmtileg stemning skapast jafnan þegar til tíðinda dregur í bikarkeppnum hvort sem um er að ræða sumar- eða vetraríþróttir.

Víkverji hefur gaman af því að bregða sér á stærri viðburði í íslensku íþróttalífi. Skemmtileg stemning skapast jafnan þegar til tíðinda dregur í bikarkeppnum hvort sem um er að ræða sumar- eða vetraríþróttir.

Á veturna fara nú þrjár greinar, blak, handbolti og körfubolti þá leið að láta þau fjögur lið sem eftir eru ljúka keppninni á þremur dögum í Laugardalshöllinni.

Fyrirkomulagið mælist vel fyrir og getur Víkverji tekið undir að umgjörðin utan um viðburðina er metnaðarfull og skemmtileg.

Einhvern veginn virðist það vera þannig að mesta stemningin skapast í kringum landsbyggðarliðin. Svo virðist sem ástríðan fyrir sínu félagi sé meiri meðal fólks á landsbyggðinni. En ekki er þó neitt vísindalegt að baki því að Víkverji dragi slíka ályktun.

Athygli vakti hin mikla gleði sem skein af Skagfirðingum í Laugardalshöllinni í janúar þegar karlalið þeirra varð bikarmeistari í körfunni.

Í gær voru Eyjamenn mættir til að styðja kvennalið sitt í handboltanum. ÍBV komst í undanúrslit hjá báðum kynjum og því stórir dagar fyrir Eyjamenn í handboltanum. Bikarkeppni á vel við Eyjamenn en síðasta sumar unnu bæði lið ÍBV bikarkeppni KSÍ. Þá var stemningin ósvikin í Laugardalnum. Eyjamenn eru nú farnir að brugga sitt eigið öl með góðum árangri og geta nýtt sem söngvatn.

Eins má búast við því að Selfyssingar verði líflegir þegar karlalið þeirra spilar í undanúrslitum í dag. Lið sem komið hefur svo skemmtilega á óvart í vetur undir stjórn bróður forseta landsins. Víkverji ætlar að bregða sér á völlinn.