Á Akureyri
Einar Sigtryggsson
sport@mbl.is
Kvennaliðin tvö frá Skautafélagi Akureyrar, Ásynjur og Ynjur, léku annan leik sinn í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöld. Ynjur höfðu unnið fyrsta leikinn 3:2 eftir framlengingu og þurftu annan sigur til að landa titlinum.
Minnstu munaði að það tækist en Ásynjur náðu að kría út framlengingu sem þær unnu. Leikirnir hafa því báðir ráðist í framlengingu, báðir farið 3:2.
Ásynjur voru mun beittari í leiknum og áttu fullt af hættulegum færum en alltaf vantaði herslumuninn, auk þess sem Birta Júlía Þorbjörnsdóttir varði vel í marki Ynja. Á köflum rigndi skotum að marki Ynja en flest þeirra fóru framhjá. Ásynjurnar tóku forustu í leiknum undir lok fyrsta leikhlutans en þá skoraði hin eitilharða Birna Baldursdóttir. Fátt benti til að Ynjur myndu svara fyrir sig en í þeirra liði eru eitraðar pillur. Meðal annars Sunna Björgvinsdóttir og Silvía Björgvinsdóttir sem skoruðu tvö mörk og komu Ynjum yfir.
Allt leit út fyrir að hinar ungu Ynjur myndu klára leikinn og hampa titlinum. Þær eldri gáfust þó ekki upp og knúðu fram framlengingu með marki 15 sekúndum fyrir leikslok. Anna Sonja Ágústsdóttir jafnaði þá metin og Guðrún Marín Viðarsdóttir skoraði svo sigurmark leiksins snemma í framlengingunni.
Það verður því hreinn úrslitaleikur um titilinn á sunnudaginn kl 18.30 og þar verður ekkert gefið eftir.
Guðrún Marín sagði m.a. í viðtali eftir leik: „Við vorum klaufar að skora ekki meira og gera þetta svona erfitt. Það munaði bara engu að við töpuðum. Ég er ekki oft að pressa upp við mark andstæðingsins en við urðum að taka sénsinn. Markmaðurinn okkar var út af og við með sex í sókn. Það var geggjað að sjá pökkinn í netinu og ekki síðra að skora svo sigurmarkið skömmu seinna.“