[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður telur dóm Hæstaréttar í máli umbjóðanda hans hafa víðtækt fordæmisgildi. Hagsmunirnir kunni að hlaupa á milljörðum.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður telur dóm Hæstaréttar í máli umbjóðanda hans hafa víðtækt fordæmisgildi. Hagsmunirnir kunni að hlaupa á milljörðum.

Málið varðar dráttarvexti sem Arion banki reiknaði af láni meðan stefnandi var í greiðsluskjóli. Tímabilið var um 34 mánuðir, frá feb. 2011 til nóv. 2013.

„Niðurstaðan er afdráttarlaus. Bankanum var óheimilt að krefja umbjóðanda minn um vexti meðan hann var í greiðsluskjóli,“ segir Einar Hugi sem áætlar aðspurður að umbjóðandi hans fái líklega á aðra milljón endurgreidda frá Arion banka, auk málskostnaðar og vaxta.

„Þetta er fyrsta mál sinnar tegundar sem fær efnislega niðurstöðu í Hæstarétti. Málið varðar heimild fjármálafyrirtækja til töku dráttarvaxta á tímabili greiðslustöðvunar. Þetta er auðvitað aðeins fyrsta málið. Það á eftir að koma í ljós hver viðbrögðin verða. Ef Arion banki þráast við að endurgreiða skuldurum oftekna dráttarvexti vænti ég þess að einhverjir sjái sér hag í að leita réttar síns á grundvelli þessa dóms,“ segir Einar Hugi. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll í okt. 2016 og staðfesti Hæstiréttur hann í gær.

Einar Hugi segir um og yfir tvö þúsund einstaklinga kunni að eiga rétt á endurgreiðslu dráttarvaxta meðan þeir voru í greiðsluskjóli.

„Ef hagsmunir í þessu máli eru margfaldaðir með fjölda fólks í sambærilegri stöðu hlaupa hagsmunirnir á milljörðum,“ segir hann.

Einar Hugi segir aðspurður að Arion banki hafi talið 11. grein laga um greiðsluaðlögun óljósa, þ.e. að óljóst væri hvort eingöngu væri átt við almenna vexti, eða bæði almenna vexti og dráttarvexti.

Markmiðið að aðstoða fólk

„Það er að mínu mati með ólíkindum að bankinn hafi talið sér stætt á að krefja skuldarann um dráttarvexti. Vísa ég þar til þess markmiðs laga um greiðsluaðlögun að koma skuldsettum einstaklingum til aðstoðar eftir efnahagslegt áfall í kjölfar hrunsins.

Í öðru lagi, sem er nú kannski þungamiðjan í þessu, mátti skuldarinn samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun ekki greiða af skuldum sínum og kröfuhafar ekki taka við greiðslum á tímabili greiðsluaðlögunar. Því voru engin vanskil til staðar. Það lá því mjög skýrt fyrir frá upphafi að það var engin heimild til töku dráttarvaxta. Þetta atriði er áréttað í 7. grein vaxtalaganna. Þar kemur fram að ekki megi krefjast dráttarvaxta ef skuldari heldur eftir greiðslu af lögmætum ástæðum. Í mínum huga er það auðvitað skólabókardæmi um að greiðslu sé haldið eftir af lögmætum ástæðum þegar lög mæla beinlínis fyrir um að það megi ekki greiða af skuldunum,“ segir Einar Hugi.

Hann hefur sem lögmaður komið að fleiri dómsmálum sem varða efndir fjárhagslegra skuldbindinga í kjölfar efnahagshrunsins. Þá meðal annars gengislánamál Plastiðjunnar. Hann kveðst aðspurður ekki hafa trú á að dráttarvaxtamálið sé síðasta dómsmálið sem varðar uppgjör skulda eftir hrun.

Bankinn mun skoða málið

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir gott að niðurstaða sé komin í málið.

Með því sé búið að eyða „ákveðinni óvissu um hvernig bæri að túlka lögin“. „Við munum fara yfir niðurstöðuna,“ segir Haraldur Guðni.