Jón Þór Karlsson fæddist í Borgarnesi 22. apríl 1933. Hann lést á líknardeild Landspítalans 28. febrúar 2018.

Foreldrar hans voru Karl Eyjólfur Jónsson, starfsmaður Vegagerðar ríkisins í Borgarnesi, f. 1910, d. 1986, og Áslaug Bachmann húsmóðir, f. 1910, d. 2009.

Systkini Jóns eru Guðrún, f. 1935, Guðjón, f. 1938, Ásgeir, f. 1941, Hjördís, f. 1944, og Sturla, f. 1949.

Hinn 22. júlí 1965 kvæntist Jón eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1940. Foreldrar hennar voru Ólafur Pálsson sundkennari, f. 1898, d. 1981, og Jústa Sigurðardóttir húsmóðir, f. 1901, d. 1995.

Börn Jóns og Helgu eru: Þórdís María hjúkrunarfræðingur, f. 1965. Ólafur Páll tannlæknir, f. 1968, kona hans er Birna Sigurðardóttir félagsráðgjafi, f. 1964, börn þeirra eru: a) Helga Ásta, f. 1991, maður hennar Haraldur Gunnar, f. 1981, dóttir þeirra Hekla María, f. 2016, b) Hafþór Atli, f. 1996, c) Elvar Þór, f. 2001. Ágúst Sturla rafmagnstæknifræðingur, f. 1976, kona hans er Oddný Hróbjartsdóttir iðjuþjálfi, f. 1982, börn þeirra eru a) Þórdís Nanna, f. 2008, b) Sigríður Ása, f. 2010, c) Freyja Rún, f. 2014, d) Iðunn Helga, f. 2014.

Börn Jóns og Bjarneyjar Gunnarsdóttur, f. 1935, eru: Karl Þorvaldur, starfsmaður Faxaflóahafna, f. 1959. Lilja, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 1961, dóttir hennar Bjarney Helga, f. 2000, barnsfaðir Guðjón Viðar Guðjónsson, f. 1959.

Jón ólst upp í Borgarnesi þar sem hann hóf sjómennsku ungur að árum. Hann fluttist þaðan til Reykjavíkur þar sem hann bjó lengst af ævinni.

Jón lauk unglingaprófi 1949 og farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1958.

Jón hóf sjómennsku sína á mb. Eldborg frá Borgarnesi 1951. Hann var stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar frá 1960-1965, á ms. Kötlu og ms. Öskju 1965-1966. Þá hóf hann störf hjá Eimskipafélagi Íslands þar sem hann var stýrimaður og skipstjóri á ýmsum skipum þar til hann lét af störfum árið 2000. Árið 2001 fór hann til Kína að sækja fjölveiðiskipið Guðrúnu Gísladóttur sem hann sigldi heim til Íslands.

Útför Jóns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 9. mars 2018, klukkan 13.

Alveg frá því að við munum eftir okkur höfðum við alltaf mjög gaman af afa. Þó að hann væri einstaklega rólegur og þögull maður lumaði hann oft á skemmtilegum sögum og aldrei var langt í húmorinn. Afi hafði lifað tímana tvenna og átti því margar sögur að segja. Okkur þóttu sögurnar frá heimsstyrjaldarárunum og kalda stríðinu einstaklega skemmtilegar.

Afi ólst upp í Borgarnesi og á stríðsárunum höfðu Bandaríkjamenn verið með herbúðir í Borgarnesi. Afi var þá bara níu ára og eins og öðrum Íslendingum fannst honum bandarísku hermennirnir mjög áhugaverðir. Einn daginn var hann að leika sér með vinum sínum nálægt bragga þar sem bandarískir hermenn höfðu aðsetur. Allt í einu byrjuðu bandarísku hermennirinir að kalla „Eskimos“ til afa og vina hans. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvað það þýddi og kölluðu bara til baka „Eskimos“. Það virðist hafa farið mjög illa í hermennina því þeir fóru og sóttu rifflana sína. Afi og vinir hans hentu sér ofan í skurð af hræðslu. Afi sagði líka að loftvarnaflauturnar í Borgarnesi hefðu verið einstaklega óþolandi. Afi átti margar fleiri sögur og sagði hann okkur krassandi sögur frá því þegar hann sigldi til Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands. Við spurðum hann hvernig honum fyndust þessir staðir. Afi var lítið hrifinn af þeim og sagði að í hvert skipti sem hann fór þangað hefðu alltaf einhverjir skuggalegir menn verið að elta hann og fylgjast með honum. Sögurnar hans afa voru eins og Hollywood-bíómyndir; þær voru æði. Hvíldu í friði, elsku afi okkar. Takk fyrir allt.

Þín Þykkvabæjarbarnabörn

Helga Ásta, Hafþór Atli

og Elvar Þór.

Þótt mér brygði frekar illilega við þegar Sturla Karlsson, frændi minn, hringdi um daginn til að segja mér að Jón Þór bróðir hans væri allur, þá hafði mig grunað um skeið að komið væri að leikslokum hjá honum. Heilsa hans hafði tekið alvarlega sveigju í þá átt. Mér hefur alltaf þótt dauðinn miskunnarlaus og oft brugðið við er mér hefur borist fregn af nýlátnu frændfólki og/eða vinum, en svo séð að oft hefur hann jafnvel verið miskunnsamur og hreinlega líkn fyrir viðkomandi.

Þannig var það í tilfelli Jóns Þórs Karlssonar, fv. skipstjóra, frænda míns og mikils vinar. Ásmundur afi minn, alltaf kenndur við Dal, og Þórdís amma Jóns, ávallt kennd við Litla-Dal, voru systkin. Jón fæddist í Borgarnesi 1933. Hann bar giftu til að njóta hins holla andrúmslofts sem skapast á myndar- og regluheimilum eins og hinir dugmiklu foreldrar hans, sá góði drengur Kalli í Dal og hin yndislega kona hans Áslaug G. Bachmann, bjuggu sér og börnum sínum sex. Fyrst í Litla-Dal, en eftir 1949 á Berugötu 9 þar sem tvö af systkinunum búa enn. Heimili sem var fullt af ástúð, hamingju sem og stuðningi við framtíðarplön barnanna. Og þar sem þeim var kennt að bera virðingu hvert fyrir öðru sem og öðru samferðafólki. Þannig að úr varð samhentur systkinahópur. Jón er því alinn upp í miklum stöðugleika þegar unglingar eru næmastir fyrir áhrifum og enginn vafi er á því að hann mótaðist þar að mestu leyti.

Jón var góðum gáfum gæddur og á margan hátt óvenjulegur persónuleiki. Hann kom gjarnan auga á hinar spaugilegu hliðar varðandi menn og málefni. Við Jón kynntumst strax og ég kom í Borgarnes 1945 og urðum góðir vinir þar til yfir lauk hjá honum. Á þessum árum söfnuðust krakkar og unglingar í Borgarnesi (en þá bjuggu að mig minnir um 700 manns í bænum) saman á vorkvöldum á Samlagsplaninu í ýmsum boltaleikjum þótt ekki væri um fótbolta að ræða, aðallega einhvers konar íslenska eftirlíkingu af hafnabolta. Nú, ef einhver ætlaði að abbast upp á nýja gæjann, sem þá átti heima í Kletti, kom frændinn úr Litla-Dal til skjalanna. Sannaðist þá oft að „ber er hver að baki nema sér bróður eigi“ en í þessu tilfelli ætti að standa „sér frænda eigi“ og sannaðist þetta máltæki með mínum breytingum mjög svo oft í okkar samskiptum gegnum lífið. Og svo sannarlega þegar leiðir okkur lágu saman á Eldborginni. En svona orti „Refur bóndi“ í Baðstofuhjali Tímans 1954 um okkur Jón:

Nonni og Óli nýtir tveir,

njóta margra hylli.

Seggir úti á sjónum þeir

sýna tíðum snilli.

Það hlýtur að hafa verið Jón sem sýndi snilldina. Jón kvæntist mikilli eðalkonu, Helgu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi, sem bjó honum virkilega hlýlegt og fallegt heimili alla tíð. Eignuðust þau þrjú börn en áður hafði Jón eignast tvö börn með Bjarneyju Gunnarsdóttur. Börn Jóns hafa erft gáfur, fjör og manndóm föður síns. Mikið manndómsfólk. Við dauðlegir menn horfum hjálparvana á eftir vinum okkar og samstarfsmönnum hverfa yfir landamæri lífs og dauða. En meðal okkar, sem eftir stöndum, er um sinn opinn skurður, óútfyllt lína, fyrsta kastið.

Minn elskulegi og góði vinur, Jón Þór: mikið sárnaði mér að geta ekki fylgt þér síðasta spölinn en ýmsar miður góðar aðstæður í mínu lífi komu í veg fyrir það. Minningin um þig, hinn góða dreng, mun lifa í hjörtum okkar sem til þín þekktum.

Ólafur Ragnarsson.