Heiðar Guðjónsson
Heiðar Guðjónsson
Eftir Heiðar Guðjónsson: "Það hefur verið ljóst í mörg ár hvert stefndi og í millitíðinni hefur Seðlabankinn tapað hátt í 200 milljörðum á gjaldeyrisforða sínum."

Það eru komin þrjú ár síðan ég skrifaði grein í Morgunblaðið og sagði Seðlabankann rýra lífskjör almennings stórkostlega með hávaxtastefnu sinni og inngripum á gjaldeyrismarkaði. Fyrir það fyrsta myndi það valda miklum kostnaði fyrir afborganir lána einstaklinga og fyrirtækja en inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði, til að halda aftur af styrkingu gengisins, myndi halda aftur af lífskjörum almennings og valda miklum kostnaði við að halda úti gjaldeyrisforða. Ég hef síðan árlega fjallað um þetta, fyrst með grein árið 2016, „Seðlabankinn tapar öllu sínu eigin fé – og lætur sem ekkert sé“ og síðan fyrir ári, „Seðlabankinn er búinn með allt sitt eigið fé“.

Það þarf því ekki að koma á óvart hver staðan er í dag hjá bankanum, með neikvætt eigið fé. Það hefur verið ljóst í mörg ár hvert stefndi og í millitíðinni hefur Seðlabankinn tapað hátt í 200 milljörðum á gjaldeyrisforða sínum. Þá er ótalið það tjón sem hávaxtastefnan hefur valdið almenningi.

Það hefur alltaf legið fyrir hver lausn vandans er: Að lækka vexti og minnka gjaldeyrisforða. Hvort tveggja hefði sparað samfélaginu gríðarlega fjármuni. En í stað þess að fjalla um gjaldþrot peningastefnu bankans hélt Seðlabankinn málstofu, 6. mars; „verðbólga og trúverðugleiki peningastefnu“. Það er ekki Seðlabankanum að þakka að verðbólga hefur verið hófleg síðustu ár heldur alþjóðlegri verðhjöðnun (olía, aðrar hrávörur og neysluvörur hafa lækkað mjög mikið). En á málstofunni vildi bankinn meina, þrátt fyrir að hafa sólundað hundruðum milljarða síðustu 3 ár, að hann hefði „bætt kjölfestu verðbólguvæntinga“!

Við sjáum af afglöpum bankans í eignastýringu, sala á FIH með tugmilljarða afslætti og skuldabréfum Kaupþings með milljarða afslætti, að honum er ekki treystandi til að stýra eignum með hagkvæmum hætti. Aðrir seðlabankar, sem þó eru hæfir í eignastýringu, hafa þurft að færa gjaldeyrisforða sinn til fjármálaráðuneytisins í gegnum tíðina enda skerpir það á rekstri þeirra.

Það blasir því við að ríkið taki stærstan hluta gjaldeyrisforða Seðlabankans til sín og visti í fjármálaráðuneytinu, sem aftur ætti að greiða stærstan hlut til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Á sama tíma þarf að lækka vexti í landinu, öllum til hagsbóta. Það breytir því hins vegar ekki að peningastefnan hefur verið rekin hér í þrot á síðustu árum. Hvernig ætlar Seðlabanki Íslands að axla ábyrgð á því?

Höfundur er hagfræðingur.

Höf.: Heiðar Guðjónsson