Meistarar Haukar tóku við bikarnum fyrir framan stuðningsmenn sína á Ásvöllum eftir sigurinn á Val í gærkvöld. Þeir mæta Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Meistarar Haukar tóku við bikarnum fyrir framan stuðningsmenn sína á Ásvöllum eftir sigurinn á Val í gærkvöld. Þeir mæta Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. — Morgunblaðið/Hari
• Vinna úrvalsdeildina í fyrsta sinn í sögunni þrátt fyrir einn Íslandsmeistaratitil • ÍR númer tvö sem er besti árangur liðsins frá titlinum 1977 • Haukar – Keflavík • ÍR – Stjarnan • Tindastóll – Grindavík • KR – Njarðvík

Í höllunum

Jóhann Ingi Hafþórsson

Skúli B. Sigurðsson

Magnús Logi Sigurbjörnsson

Haukar náðu sínum besta árangri í sögu félagsins í deildarkeppni karla í körfubolta í gær, er þeir tryggðu sér sigur í Dominos-deildinni. Haukar unnu þá Valsmenn örugglega á heimavelli, 83:70. Voru þeir allan tímann skrefinu á undan gegn baráttuglöðum Valsmönnum. Gæði Hauka eru mun meiri og þurftu þeir ekki að eiga sinn besta leik til að vinna þægilegan sigur.

Haukar urðu Íslandsmeistarar árið 1988, en höfnuðu þá í 3. sæti deildarinnar. Fjórum sinnum hefur liðið hafnað í 2. sæti, síðast árið 2000. Fyrsti deildarmeistaratitilinn er hins vegar loks kominn í hús.

Haukar unnu 17 af 22 leikjum sínum í vetur og þar af tíu af ellefu heimaleikjum sínum. Eina tap liðsins á heimavelli kom í lok október gegn Keflavík og eru Haukar því ósigraðir á heimavelli í tæplega fimm mánuði, ekki slæmt veganesti fyrir úrslitakeppnina. 15 sigrar í síðustu 17 leikjum segir allt sem segja þarf og koma Haukamenn sjóðheitir til leiks þegar leikirnir skipta mestu máli.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að liðið er að mestu skipað sömu leikmönnum, og með sama þjálfara, og í fyrra. Haukar voru þá í fallbaráttu og enduðu í 10. sæti eftir að hafa farið alla leið í lokaúrslit árið 2016. Kári Jónsson spilaði með Haukum árið 2016, en fór í háskóla í Bandaríkjunum í fyrra. Kári snéri hins vegar aftur til Hauka í byrjun tímabils og áhrif hans eru augljós. Án hans virðast Haukar eitt slakasta lið deildarinnar, en með hann innanborðs eru þeir með betri liðum deildarinnar.

Kári hefur misst af síðustu þremur leikjum vegna puttabrots, en allar líkur eru á því að hann verði með í úrslitakeppninni frá byrjun. Kári er hins vegar ekki eina ástæða þess að Haukar hafa náð svo langt í vetur. Breiddin er mikil og ungir leikmenn eru orðnir reyndari. Fimm leikmenn skoruðu tíu stig eða meira í gær og er það ekki óalgengt þar á bæ. Allir virðast geta tekið á skarið og skotið fyrir utan eða keyrt að körfunni. Haukar mæta Keflvíkingum í átta liða úrslitum. Einvígið er mjög áhugavert, enda Keflvíkingar þeir einu sem hafa tekið tvö stig með sér heim úr Hafnarfirðinum í vetur. Þegar kemur að stöðuleika hafa liðin hins vegar verið eins og svart og hvítt. Haukar tapa varla leik á meðan Keflvíkingar eru ólíkindatól. Vissulega er Keflavík ekki þægilegasti andstæðingurinn í úrslitakeppninni, en gæði Hauka ættu að vera næg.

Besti árangur ÍR í rúm 40 ár

ÍR tryggði sér annað sætið í gærkvöldi þegar þeir lögðu Keflavík með 74 stigum gegn 69. Leikið var í TM-Höll Keflvíkinga og voru það heimamenn sem leiddu í hálfleik með einu stigi.

Árangur ÍR-inga í vetur er þeirra besti í 41 ár, eða síðan þeir urðu Íslandsmeistarar síðast árið 1977. Frá þeim tíma höfðu þeir best náð 3.-4. sæti í deildinni árið 1995.

Leikurinn í heild sinni var frekar daufur og slen yfir leik beggja liða þetta kvöldið. Kannski vitað mál með Keflvíkinga sem höfðu ekki neitt fyrir stafni nema stoltið og svo jú kannski að gefa stuðningsmönnum sínum einn sigur í lokaleiknum. ÍR-ingar hinsvegar eygðu von um að vera deildarmeistarar ef úrslit úr öðrum leikjum yrði þeim hagstæð en svo varð ekki.

Að því sögðu þá furðaði maður sig á því að ekki skyldi hafa verið meiri ákefð í þeirra landa öruggari sigri. Þeim til happs þetta kvöldið gátu þeir leyft sér að vera töluvert langt frá sínu besta og landa sigri í Keflavík. En það telst varla lengur til afreka að sleppa úr Keflavík með sigur þar sem heimamenn hafa aðeins náð að landa einum sigri á heimavelli í síðustu 8 viðureignum.

ÍR-ingar fara hinsvegar í úrslitakeppnina fullir sjálfstrausts með heimavallarrétt eftir eitt allra besta ár þeirra í manna minnum. Þar spila þeir gegn Stjörnumönnum sem jú reyndar lönduðu sigri í Hertzhelli ÍR-inga ekki fyrir löngu. Fyrirfram hafa gárungar verið að tala um að ÍR sé „slakasta“ liðið af topp fjórum liðunum en það má alveg sjá fyrir sér að þeir komi til með að afsanna það í úrslitakeppninni.

Endasprettur hjá Tindastóli

Tindastóll vann sannfærandi sigur á Stjörnunni, 87:67, á Sauðárkróki. Tindastóll endar þar með í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig, á eftir Haukum og ÍR en Stjarnan endar í sjöunda sætinu með 22 stig. Tindastóll mætir því Grindavík í átta liða úrslitunum og Stjarnan mætir ÍR.

Leikurinn var jafn fram í fjórða leikhluta en snemma í honum fékk Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, á sig tæknivillu. Við það misstu Stjörnumenn hausinn, þá fóru Stólarnir að spila betri vörn og uppskáru auðveldar körfur sem færðu þeim þennan tuttugu stiga sigur.

Njarðvík í fimmta sæti

Njarðvíkingar voru með fimmta sætið í höndunum og það breyttist ekkert því þeir unnu Hött, 85:74, á Egilsstöðum. Héraðsbúarnir kvöddu þar með deildina eftir eins árs dvöl. Það kemur í hlut Njarðvíkinga að mæta Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitunum.

Halldór skoraði 42 stig

KR-ingar áttu möguleika á öðru eða þriðja sæti en þar sem bæði ÍR og Tindastóll unnu verða þeir að gera sér fjórða sætið að góðu. Þeir unnu Þór, 98:89, í Þorlákshöfn en Þórsarar voru þegar úr leik og luku tímabilinu með þessum leik. Óhætt er að segja að Halldór Garðar Hermannsson hafi endað með stæl því hann átti stjörnuleik og skoraði 42 stig fyrir Þór.

Grindavík númer sex

Grindvíkingar þurftu að hafa mikið fyrir sigri á föllnum Þórsurum frá Akureyri en eftir jafna stöðu seint í leiknum stungu þeir af í lokin og unnu 104:89. Grindavík endar í sjötta sætinu eins og við blasti fyrir umferðina og mætir Tindastóli. Dagur Kár Jónsson skoraði 26 stig fyrir Grindvíkinga.