Guðmundur Magnússon fæddist á Kirkjubóli í Staðardal við Steingrímsfjörð 9. júní 1925. Hann lést á heimili sínu Hlíðarhúsum 3 í Grafarvogi 28. febrúar 2018.

Foreldrar hans voru Magnús Sveinsson og Þorbjörg Árnadóttir. Systkini hans eru: Lýður, f. 1924, látinn, Guðlaug, f. 1926, látin, Ólafur, f. 1928, og Katrín, f. 1932.

Guðmundur kvæntist Margréti Jónfríði Björnsdóttur frá Kringlu í Austur-Húnavatnssýslu árið 1952. Þeirra synir eru: 1) Magnús Már, f. 1954. Hann býr á Fellsenda í Dalasýslu, ókvæntur og barnlaus. 2) Vignir, f. 1956, býr á Bitru í Flóahreppi. Kona hans er Sigurbjörg Þráinsdóttir og dætur þeirra eru Margret, f. 1973, sambýlismaður Magnús Viðar Árnason, börn þeirra eru Róbert, f. 2001, og Karitas Milla, f. 2017. Kristjana, f. 1980. Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns, Gísla Péturs Hinrikssonar, eru Ari Eðvald, f. 2007, og Amelía, f. 2010. 3) Björn Steinar, býr í Danmörku. Synir hans og fyrrverandi eiginkonu hans, Laufeyjar Ásmundsdóttur, eru Guðmundur Arnar, f. 1987, sambýliskona hans er Steffie Bogesen og sonur þeirra Viktor Nord, f. 2017, Brynjar Örn, f. 1989, ókvæntur og barnlaus, og Kristófer Aron, f. 2001.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 9. mars 2018, klukkan 13.

Genginn er til feðra sinna kær frændi, Guðmundur Magnússon. Hann var föðurbróðir minn og úr æsku minni geymi ég margar góðar minningar um þennan frænda minn. Hann var eitt fimm systkina sem kennd eru við Kirkjuból í Staðardal, börn Þorbjargar Árnadóttur og Magnúsar G. Sveinssonar.

Guðmundur var reyndar fluttur til Reykjavíkur þegar ég man fyrst eftir honum en átti ófá sporin á æskustöðvarnar. Þeir bræður, faðir minn og hann, voru mjög samrýndir og ekki veit ég til þess að nokkru sinni hafi fallið styggðarorð milli þeirra. Þeir voru aldir upp í íslenskri sveit með fjöllin, dalinn, ána og heiðarnar allt umlykjandi. „Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til“ og það átti svo sannarlega við, þangað sótti hann mikið, ekki síst til laxveiða enda snjall veiðimaður. Mér er t.d. minnisstætt þegar hann sótti af öryggi „fiskinn sinn“ í uppáhaldsveiðistaðinn eins og ekkert væri sjálfsagðara og öðrum vandasamt að leika eftir.

Akstur varð ævistarf Guðmundar og stærstan hluta starfsævinnar ók hann leigubifreið 26 á Bifreiðastöð Reykjavíkur, BSR. Bílnúmerið R 7720 átti hann lengi og oft mátti hann finna á „staurnum“ á horni Gnoðarvogs og Álfheima þar sem hann beið eftir næsta túr. Bílarnir hans alltaf gljábónaðir og hreinir að utan sem innan. Hann var farsæll og góður ökumaður og varð mér fyrirmynd í þeim efnum.

Eitt helsta áhugamálið voru hestarnir sem hann hélt lengst af á svæði hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og ófáar voru þær hestaferðirnar sem hann stóð fyrir vítt og breitt um landið með góðum félögum. Glæsir, Gosi og hvað þeir hétu gæðingarnir sem voru honum svo mikið yndi alla tíð og eftir að hann var heimilismaður á Eir hýrnaði heldur betur yfir honum þegar minnst var á blessaða hestana og ferðalögin. Á Eir undi hann hag sínum vel og þangað heimsótti ég hann stundum og alltaf spurði hann frétta af búskap og tíðarfari á Ströndum og hvernig Matta bróður gengi nú með búskapinn í Húsavík. Hugurinn leitaði í sveitina og allt fram til hins síðasta hafði hann uppi áætlanir um næstu ferð þangað, mála bústaðinn, tína ber og renna fyrir lax.

Eftir að ég kom til Reykjavíkur stóð heimili hans og Margrétar konu hans mér ætíð opið enda vorum við Vignir sonur hans æskuvinir. Margréti missti hann fyrir þrettán árum.

Milli Kirkjubólssystkina var gott samband og saman byggðu þau bústaðinn á Selhólnum handan Staðarár, við Selgilið sem hjalaði, fossinn sem söng og þar sem sást svo glatt um dalinn út og inn. Handan ár blöstu æskustöðvarnar við undir brattri hlíðinni með túngörðunum og iðjagrænum bæjarhólnum sem geymir ósagðar sögur genginna kynslóða.

Nú að leiðarlokum minnist ég með þakklæti og virðingu Guðmundar frænda míns. Með honum er genginn góður maður, velviljaður, hrifnæmur og skörulegur hvar hann um gekk. Hans nánustu vottum við Dísa samúð okkar. Efir lifir minningin.

Sveinn Ingi Lýðsson.