Bretar segjast svara, en hverju?

Fátt hefur verið jafnumtalað í breskum fjölmiðlum þessa vikuna og banatilræðið við fyrrverandi rússneska njósnarann Sergei Skripal og Júlíu dóttur hans, en þau fundust illa haldin á sunnudaginn á almannafæri í smábænum Salisbury. Í ljós hefur komið að þau hafi orðið fyrir eitrun frá einhvers konar taugagasi, sem aftur bendir til þess að tilræðið hafi verið á vegum einhvers ríkis frekar en óbreyttra borgara.

Málið hefur óneitanlega vakið minningar frá morðinu á Alexander Litvinenko, sem eitrað var fyrir með Pólóníum í Lundúnum árið 2006. Við rannsókn málsins bárust böndin að tveimur útsendurum rússnesku leyniþjónustunnar og sagði í niðurstöðum dánardómstóls að morðið á Litvinenko hefði líklega verið framið að ósk Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Ekkert er hins vegar fast í hendi að svo komnu máli með tilræðið við Skripal, annað en það sem fólk telur sig geta leitt líkum að. Reynist sú tilgáta rétt, að útsendarar rússneska ríkisins hafi hér verið að verki, er um að ræða háalvarlegt atvik í samskiptum Bretlands og Rússlands, sem dregið gæti dilk á eftir sér. Þá hafa sérfræðingar í öryggismálum bent á, að slíkt tilræði af hálfu Rússa væri í raun hægt að líta á sem griðrof og brot á óskráðum reglum, þar sem Skripal var framseldur til Bretlands árið 2010 og átti samkvæmt því að vera „úr leik“ sem skotmark og þátttakandi í þeim hráskinnaleik sem njósnastarfsemi getur verið.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, hefur þegar lofað því að Bretar myndu svara fyrir sig, án þess þó að geta í hverju slíkt svar fælist. Bresk stjórnvöld vilja ekki taka vægt á því ef erlend ríki eru að taka fólk af lífi án dóms og laga innan landamæra Bretlands. Á hinn bóginn er alls óvíst að Bretar hafi í raun einhver tök á því að fæla Rússa eða önnur ríki frá slíkum aðgerðum í framtíðinni.