Inga Dagmar Karlsdóttir fæddist 15. apríl 1913. Hún lést 25. febrúar 2018.

Útför hennar fór fram 12. mars 2018.

Elskulega amma mín hefur nú kvatt þennan heim. Ég hugsa til hennar með hlýju og þakklæti fyrir allan þann tíma sem hún var til staðar, fátt var henni mikilvægara en afkomendur sínir enda veitti hún okkur öllum gott atlæti og umhyggju í gegnum tíðina og dekraði við okkur með mat og kökum. Pönnukökur, flatkökur og rifsberjasulta voru þó hvað mest í uppáhaldi hjá mér.

Amma var svo hugguleg og myndarleg kona, dálítið smávaxin en fríð, með fallega brún augu, alltaf svo snyrtilega til fara og átti svo fallegt heimili, þar sem við barnabörn og barnabarnabörn vorum alltaf velkomin. Amma fylgdist alltaf vel með útvarpi, blöðum, sjónvarpi, samfélagsmálum og stjórnmálum, hún vildi jafnræði og var miðjumanneskja. Það var hægt að ræða allt við ömmu milli himins og jarðar og án hennar hefði lífið verið fátæklegra því hún var svo mikill klettur og sameiningartákn fjölskyldunnar.

Elsku amma mín, megi Guð umvefja þig blessun. Takk fyrir allt og allt og megir þú hvíla í friði.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín sonardóttir

Hafdís Karlsdóttir.

Okkar ástkæra Inga í Barmahlíð er látin, nærri 105 ára gömul.

Inga Dagmar Karlsdóttir sýndi okkur það að með jákvæðnina að vopni er hægt að ná háum aldri. Inga og fjölskylda bjuggu lengstum á okkar uppeldisárum í Barmahlíð og þess vegna kölluðum við hana alltaf Ingu í Barmahlíð.

Inga giftist Lása (Nikulási) bróður pabba okkar (Péturs) 1943 og byrjuðu þau búskap á Grettisgötu 67.

Á Grettisgötu hefur verið mikið um að vera á fyrstu búskaparárum Ingu og Lása, þau bjuggu í risinu ásamt Ingunni ömmu. Pabbi og mamma bjuggu í kjallaranum (Pétur og Bagga).

Bróðir Lása og Péturs, Loftur Þór, og Guðrún kona hans bjuggu einnig þarna ásamt foreldrum hennar og bróðir og mágkona Guðrúnar, Einar Sæm og Sísí, á hæðunum á milli. Í risinu hjá Ingu og Lása var ekkert salerni, þannig að þau þurftu að fara með koppana sína í kjallarann til að losa þá. En þetta hefur samt verið aldeilis dýrlegt. Og frjósamt. Á Grettisgötunni eignuðust Inga og Lási þrjú börn; þau Helgu, Einar og Karl, Þuríður fæddist seinna.

Á svipuðum tíma eignuðust mamma og pabbi Odd og Ingunni. Loftur Þór og Guðrún eignuðust Jón og Einar, og Einar Sæm og Sísí fluttu að norðan á Grettisgötuna með börnin sín fjögur; Einar, Ólaf, Vilhjálm og Jónínu. Svo það segir sig sjálft að á Grettisgötu 67 hefur verið mikið fjör á þessum árum.

En af þessari eldri kynslóð sem þarna bjó á þessu árabili gekk Inga í Barmahlíð, tæplega 105 ára gömul, síðust af velli. Inga okkar allra sem okkur þótti svo afskaplega vænt um og vorum svo stolt af að þekkja og geta sagt að væri ein af okkur.

Það er alveg magnað að rúmlega aldargömul manneskja skuli hafa munað nöfn okkar allra, barnanna okkar og maka. Kannski vissi hún líka nöfn barnabarna okkar? Hver veit.

Við erum öll sammála um að Inga var falleg manneskja, ekki bara í útliti heldur líka að innan. Hún var líka svo sterk. Þessi lágvaxna kona sem átti örugglega ekki alltaf þægilegt líf. Húsmóðir sem þurfti að hafa fyrir tilveru sinni og sinna og umbera eins og móðir okkar bræður tvo, sem voru ekki alltaf þeir auðveldustu.

Góðmennsku og fórnfýsi Ingu er vel lýst að hún eftirlét pabba okkar legstað sinn við hlið Lása, sem hún var búin að taka frá fyrir sjálfa sig.

Þær góðu minningar sem hún skilur eftir í huga okkar eru dýrmætar.

Ingunn, Einar, Loftur Þór og Linda Björg.