Systur Nunnurnar Melkorka og Agnes eru sáttar í Karmelklaustrinu í Hafnafirði.
Systur Nunnurnar Melkorka og Agnes eru sáttar í Karmelklaustrinu í Hafnafirði. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karmelklaustrið í Hafnarfirði er í miðri húsabyggð, nálægt skóla, sundlaug og steinsnar frá miðbæ Hafnarfjarðar sem iðar af mannlífi, verslunum og kaffihúsum.

Karmelklaustrið í Hafnarfirði er í miðri húsabyggð, nálægt skóla, sundlaug og steinsnar frá miðbæ Hafnarfjarðar sem iðar af mannlífi, verslunum og kaffihúsum. Samt er eins og tíminn verði afstæður þegar maður gengur inn í þetta fallega klaustur, þar sem leitin að tilgangi lífsins og kærleikurinn vegur þyngra en klukkuvísir á vegg.

Elínrós Líndal

elinros@mbl.is

Það fyrsta sem maður rekur augun í þegar maður kemur inn í klaustrið er fallegt handverk þeirra Karmelnunna. Handskreytt kerti, talnabönd og kort sem tilheyra hvorki tímabili né árum, einungis kærleikanum.

Karmelnunnurnar eru þekktar fyrir tónlistarhæfileika sína sem hljóma í messum sem haldnar eru á hverjum morgni klukkan átta. Einn viðmælandi blaðamanns í klaustrinu segir: „Þú ert kominn að finna mikinn fjársjóð, hér muntu eignast kærleiksríkar systur sem gefa þér leiðbeiningar með bæn og lífið.“

Listrænar nunnur

Þegar ég geng inn í klaustrið hitti ég fyrir systur Agnesi og systir Melkorku sem er listmenntuð. Hún er að handskreyta fallegt kerti sem minna meira á ljósmynd af Jesú en málað handverk. „Þó að við séum með opið hér daglega á milli kl. 12.00 og 18.00 erum við ekki hin hefðbundna verslun. Við erum með nokkra hluti sem fólk getur nálgast, en aðallega erum við glaðar að fá fólkið til okkar, að ræða við það um klærleikann og lífið,“ segir systir Agnes og brosir.

Blessun yfir vörunum

Ég hef heyrt að það sem keypt er hér hafi blessun, en þið systurnar eru þekktar fyrir að vera bænasterkar? „Já, við systurnar erum mikið fyrir bænina, enda er bænin þar sem við sameinumst Guði,“ segir systir Agnes.

„Guð skapaði okkur til að deila með okkur hamingju og til að deila með okkur sínu lífi,“ segir hún og heldur áfram að útskýra: „En oft leitum við að hamingjunni þar sem hana er ekki að finna. Þegar við leitum að hamingju í dauðum hlutum og upplifun finnum við fyrir tómleikatilfinningu því hamingjan er ekki þar.“

Þetta kannast blaðamaður við, þegar kápan sem á að breyta öllu, eða utanlandsferðin sem á að halda fjölskyldunni saman reynist ekki duga í amstri dagsins. Agnes heldur áfram: „Jesús kom til heimsins til að kenna okkur um kærleika Guðs, til að sýna okkur hjarta Guðs. Að deyja fyrir okkur á krossinum, rísa upp frá dauðum og gefa okkur heilagan anda,“ segir hún og útskýrir að það er í gegnum bænina og iðkun á kærleiksríkum verkum sem við finnum þessa innri tilfinningu friðar og kærleika. Þegar við finnum heilagan anda starfa í okkur.

„Ef við tökum Jesús inn í líf okkar og leyfum honum að vera Drottinn í hjarta okkar og leiðtogi lífs okkar, þýðir það að við veljum hann daglega í lífinu og látum stjórnast af „lögmáli“ hans. Þá finnum við fyrir þessari raunverulegri hamingju sem fæst ekki keypt með peningum eða dauðum hlutum. En til að upplifa þetta þá þurfum við að þekkja hann.“

Hvernig við öðlumst frið og hamingju

Agnes mælir með að lesa Biblíuna, að hugleiða hvað Jesú kennir, hvernig hann hagaði sér, hvað við eigum að velja í ljósi kenninga hans, hvað hann myndi gera í ákveðnum aðstæðum sem við erum í og fleira. „Í raun er þetta bæn. Að tala við Jesú eins og við tölum við vin sem við treystum algjörlega og vitum að elskar okkur. Heilög móður okkar Teresa frá Avila gefur einmitt svona skilgreiningu bænar.“

Hinar andlegu reglur

Systir Agnes talar um andlegar reglur sem eru ekki svo frábrugðnar þeim veraldlegu reglum sem við þekkjum svo vel. „Guð sem skapaði okkur og alheiminn setti reglur sem stjórna öllu. Við dáumst að fegurð heimsins og „speki“ sem „býr“ í öllu sem Guð skapaði.“ Systir Agnes nefnir einfalt dæmi um hvernig við vitum að eldur brennir, og því forðumst við að setja höndina yfir eld. „Sama gildir um þessar andlegu reglur. Við getum ekki fundið hamingjuna, hvorki í dauðlegum hlutum né í upplifunum. Við erum kölluð til vináttu við Guð, til að lifa í kærleika hans þar sem raunveruleg hamingja býr.“ Þegar kemur að umræðunni um fermingarbörnin segir hún þennan aldur einstakan til að kynna fyrir unga fólkinu okkar lögmál kærleika Guðs. „Fermingin er svo merkileg, þar sem að í fermingunni biðjum við um gjafir heilags anda, sem kom yfir postulana. Þessi eldur kærleikans sem nærir hjartað. Ef við biðjum heilagan anda að stýra lífi okkar þá finnum við breytingar í hjörtum okkar eins og skrifar Páll postuli skrifaði í bréfi til Galatamanna að.“ Ávöxtur andans sé kærleikur, gleði friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi“(Gal. 5,22-23). Við fáum þennan frið og næringu fyrir allar þessar tilfinningar sem búa í hjarta okkar til að taka við kærleika Guðs.“

Að framkvæma í sannleika og auðmýkt

Systir Agnes bendir á samskipti fólks sín á milli og ítrekar að þegar við framkvæmum í kærleika Guðs, þá óttumst við ekki og erum með frið í hjarta. Við gerum hlutina í sannleika og auðmýkt.Hún bendir á hversu mikilvægt er fyrir framtíð barna okkar að þau fái að kynnast kærleikanum, Jesú og fái þau verkfæri til að takast á við áskoranir lífsins. Fái möguleika á að finna sanna hamingju í lífinu, finna frið og öryggi í vináttu við Jesú sem elskar okkur óendanlega mikið.

Blaðamaður hefur heyrt að Karmelnunnurnar biðji allt að átta tíma á dag, hvernig breytist bænin með þannig iðkun? „Það eru ýmsir þættir í sambandi við bænina. Þeir átta tímar sem við verjum í bæn á hverjum degi skiptist í: messu, tíðabænir, tveir timar fara í íhugunarbæn í þögn, við biðjum rósakrans bænina og fleiri bænir. En líf okkar Karmelnunna er íhugunarlíf. Við eigum eftir Reglu Karmels „að íhuga lögmál Drottins dag og nótt,“ lifa í stöðugu vináttusambandi við Jesú. Jafnvel þegar við erum að vinna hættum við ekki að tala við Jesú.

Bæn þróast en alltaf þarf bæn að vera persónulegt samtal - samband við Jesú, sem við vitum að elskar okkur.“

Líf þitt er guðdómlegt

Systir Agnes segir margar blekkingar til í heiminum og að heimurinn sé að opnast á þeim aldri þar sem unglingar eru að vaxa úr grasi og verða að ungu fólki. „Við fullorðna fólkið gefum stundum börnum þau skilaboð að hamingjuna sé að finna utan frá. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum meðvituð um að kenna börnunum lifandi trú. Hvernig við getum notað trúna í daglegu lífi. Það gerir svo lítið fyrir okkur að iðka trúna í tómarúmi á meðan við getum verið daglegir kennarar í Jesú Kristi með því að framkvæma það sem er kærleiksríkt og kennt börnunum okkar þannig að vinna þessi verk með okkur.“

Að lokum minnir systir Agnes okkur á að trú, von og kærleikur séu hinar þrjár guðdómlegu dyggðir. Vegvísarnir sem forða okkur frá villu vegar og beina okkur til Guðs. „Þú ert skapaður í mynd Guðs, þú ert frá Guði kominn og stefni til Guðs. Líf þitt er guðdómlegt. Þú ert miklu skyldari Guði en þig grunar, því þú berð hið guðdómlega í sálarneistanum.“