Þjálfari Arnar Pétursson kveður Eyjaliðið að tímabilinu loknu.
Þjálfari Arnar Pétursson kveður Eyjaliðið að tímabilinu loknu. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjar Ívar Benediktsson iben@mbl.is Karlalið ÍBV og nýkrýndir bikarmeistarar í handknattleik eru í þjálfaraleit fyrir næsta tímabil þar sem Arnar Pétursson þjálfari liðsins hefur ákveðið að hætta þjálfun liðsins að loknu þessu keppnistímabili.

Eyjar

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Karlalið ÍBV og nýkrýndir bikarmeistarar í handknattleik eru í þjálfaraleit fyrir næsta tímabil þar sem Arnar Pétursson þjálfari liðsins hefur ákveðið að hætta þjálfun liðsins að loknu þessu keppnistímabili.

„Fyrst og fremst er ástæðan fyrir þessari ákvörðun minni annir í vinnu. Ég rek og á ásamt góðu fólki ört vaxandi fyrirtæki í Vestmannaeyjum sem er í útflutningi á ferskum fiskafurðum. Það kallar á meiri og meiri tíma og hefur gert í töluverðan tíma. Dagarnir eru langir, maður eldist og þarf meiri svefn,“ sagði Arnar léttur í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði ákvörðunina í sjálfu sér ekki erfiða og hafi verið tekna fyrir töluverðum tíma síðan og að félagar hans í stjórn handknattleiksdeildar ÍBV hefðu verið meðvitaðir um þetta frá því að ákvörðun var tekin.

Hafa haft góðan tíma

„Það hefur legið fyrir frá því fyrir tímabil að ég ætlaði að láta gott heita í lok þessa keppnistímabils. Ég var heiðarlegur með það og þannig hafa menn haft góðan tíma til að hugsa næstu skref og finna minn eftirmann. Framundan er lokaspretturinn í Olísdeildinni, úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn auk átta liða úrslita í Áskorendakeppni Evrópu. Við erum í eldlínunni á öllum vígstöðvum eins og við viljum vera og þó við höfum landað einum stórum um helgina langar okkur í fleiri,“ sagði Arnar og bætti við að ekkert hik væri á sér þótt hann hefði tekið þessa ákvörun.

„Við búum á eyju sem tilheyrir annarri aðeins stærri eyju og fljótt flýgur fiskisagan. Mínir leikmenn eru vel meðvitaðir um þessa ákvörðun og hafa verið nánast frá upphafi og ég sjálfur hef verið í sambandi við bæði leikmenn og þjálfara sem við höfum áhuga á að fá til okkar fyrir næsta tímabil, sem vita vel hver staðan er. Það er því algjör óþarfi að pukrast eitthvað með þetta sérstaklega þegar vinur minn Guðmundur Ásgeir Grétarsson [Gummi Pönk] er með þetta allt á hreinu.“

Vona að Erlingur taki við

Óvíst er hver tekur við starfinu af Arnari sem hefur þjálfað ÍBV liðið í meira og minna í 7 ár og komið því í allra fremstu röð. Heimildir Morgunblaðsins herma að forráðamenn ÍBV hafi rætt við Erling Richardsson, landsliðsþjálfara Hollendinga, en fleiri munu vera í sigtinu og hafa nöfn þeirra Arons Kristjánssonar og Óskars Bjarna Óskarssonar verið nefnd í því sambandi.

„Ég þekki alla þessa kappa og allir eru þeir miklir snillingar. Ég sjálfur er þó að vona að Erlingur taki við liðinu. Ég lagði á mig töluverða vinnu við að ná honum hingað til Eyja í fyrra, hér á hann heima og ég vona innilega að hann sé klár í næsta tímabil. En ef ekki þá eru þau ekki mörg félögin sem geta boðið upp umgjörð sambærilega við þá sem við bjóðum upp á hér í Eyjum. Aðstaðan er til fyrirmyndar, við erum með mjög gott lið og ætlum að vera með áfram auk þess sem áhuginn er mikill og mjög góð mæting á alla leiki. Og þó ég hafi unnið fullt starf með þjálfuninni þá ætlum við okkur að ráða mann í 100% starf, mann sem sinnir aðeins þjálfun hjá félaginu og því tel ég ÍBV-liðið spennandi kost og þeir eru eflaust margir þjálfararnir sem hafa áhuga,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari bikarmeistara ÍBV.