Samkeppnislög nr. 44/2005 mæla fyrir um eftirlit samkeppnisyfirvalda með sameiningum fyrirtækja. Með samruna í skilningi laganna er ýmist átt við að tvö eða fleiri fyrirtæki, sem áður störfuðu sjálfstætt, sameinist þannig að úr verði nýr lögaðili eða að eitt fyrirtæki taki yfir annað fyrirtæki, hvort sem félögin „renna saman“ í kjölfarið eða ekki. Hugtakið samruni í samkeppnisrétti tekur raunar til allra kringumstæðna þar sem yfirráð yfir fyrirtæki, í heild eða að hluta, breytast til frambúðar, hvernig sem slík yfirráðabreyting er tilkomin. Með yfirráðum er átt við þann möguleika eins aðila (eða fleiri aðila sameiginlega) að ráða mikilvægum atriðum í rekstri fyrirtækis, eins og skipan stjórnar, ráðningu lykilstarfsmanna, rekstrar- og fjárfestingaráætlunum o.þ.h.
Ef samruni í skilningi samkeppnislaga á sér stað þarf að tilkynna hann til Samkeppniseftirlitsins ef samrunafyrirtækin ná tilteknum veltumörkum. Sé samruni tilkynningarskyldur er óheimilt að láta samrunann koma til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur lokið sinni skoðun á honum og eftir atvikum samþykkt hann eða a.m.k. ekki lagst gegn honum.
Í 17. gr. c. í samkeppnislögum er ákvæði sem felur í sér að telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri fyrirtækja verði til eða styrkist, eða verði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, geti stofnunin ógilt samruna eða sett honum skilyrði. Þessi regla felur því í sér grundvöllinn fyrir íþyngjandi afskiptum Samkeppniseftirlitsins af samruna. Hyggist Samkeppniseftirlitið beita íþyngjandi íhlutun í samruna, í formi ógildingar eða skilyrða, verður eftirlitið að sýna fram á að skilyrði þessa ákvæðis séu uppfyllt.
Reglan er í raun tvíþætt. Annars vegar má ógilda samruna, eða setja honum skilyrði, ef samruni verður til þess að markaðsráðandi staða verður til eða slík staða styrkist. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að samruni hafi þetta í för með sér mun Samkeppniseftirlitið kanna markaðshlutdeild samrunafyrirtækjanna og samþjöppun á þeim markaði sem samruninn tekur til. Ef markaðshlutdeild er umtalsverð (yfirleitt um eða yfir 50%) eða samþjöppun telst veruleg á markaði (fá og stór fyrirtæki á markaði) gefur það tilefni til ítarlegri skoðunar á líklegum áhrifum samruna. Meta þarf þá hvort markaður telst opinn eða lokaður fyrir nýrri samkeppni, hvort viðskiptavinir samrunafyrirtækjanna búa yfir því sem kallað er kaupendastyrkur o.fl., allt í því skyni að finna útúr því hvort samruninn verður til þess að markaðsráðandi staða verði til eða slík staða styrkist.
Hins vegar getur Samkeppniseftirlitið ógilt samruna eða sett honum skilyrði ef sannað þykir að hann raski samkeppni að öðru leyti. Við fyrstu sýn mætti ætla að þessi heimild væri galopin til þess að beita megi íþyngjandi íhlutun bara ef Samkeppniseftirlitið telur að samruni raski samkeppni á einhvern hátt. Svo er þó ekki. Þessi hluti ákvæðisins á rót að rekja til sambærilegrar reglu í samkeppnisrétti Evrópusambandsins, eins og reyndar flestar reglur íslensku samkeppnislaganna. Reglunni er ætlað að ná til þeirra kringumstæðna þegar samruni hvorki skapar né styrkir markaðsráðandi stöðu en hann þykir hins vegar breyta samkeppnisskilyrðum á markaði til hins verra, einkum í átt til fákeppnismarkaðar. Samkvæmt þessu getur Samkeppniseftirlitið beitt íþyngjandi afskiptum af samruna, sem þó hvorki skapar né styrkir markaðsráðandi stöðu, ef hann verður til þess að markaðsgerð þess markaðar sem samruni tekur til færist í átt til fákeppnismarkaðar og rökstutt er að þetta valdi umtalsverðri röskun á samkeppni. Því fer hins vegar fjarri að hvers kyns aðrar kringumstæður, sem Samkeppniseftirlitið telur eftir atvikum óheppilegar í tengslum við samruna og áhrif þeirra á samkeppni, geti réttlætt ógildingu samruna á grundvelli 17. gr. c. í samkeppnislögum eða setningu skilyrða gagnvart honum.