Hjalti J. Guðmundsson er skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands. Hann segir Reykjavíkurborg reyna hvað hún geti til að halda styrk svifryks í lágmarki og að nú sé árleg vorhreinsun hafin.
„Eftir að snjóa leysti var byrjað að sópa göturnar, þ.e. stofnbrautir og nokkrar tengibrautir í Reykjavík. Nokkrum dögum seinna rykbundum við götur og svo aftur um síðustu helgi,“ segir hann og bætir við að í fyrradag hafi Reykjavíkurborg hafið vorhreinsun gatna. „Þessu til viðbótar höfum við nýtt þessa stuttu glugga sem mynduðust til að þrífa götur borgarinnar, en janúar og febrúar voru bara mjög erfiðir veðurfarslega þannig að við gátum ekkert þrifið þá mánuði.“