Víkverji er einn af þeim sem tóku andköf þegar þeir fréttu af því að knattspyrnukappinn Gylfi Sigurðsson yrði hugsanlega meiddur í sumar, með þeim afleiðingum að hann yrði af heimsmeistarakeppninni í Rússlandi sem haldin verður í júní næstkomandi.

Víkverji er einn af þeim sem tóku andköf þegar þeir fréttu af því að knattspyrnukappinn Gylfi Sigurðsson yrði hugsanlega meiddur í sumar, með þeim afleiðingum að hann yrði af heimsmeistarakeppninni í Rússlandi sem haldin verður í júní næstkomandi. Að öðrum leikmönnum íslenska liðsins ólöstuðum er Gylfi „stjarnan“ í liðinu, fremstur meðal jafningja.

Atvikið vakti leiðinlegar minningar frá námsárum Víkverja í Bretlandi, þegar Wayne Rooney, sem naut svipaðs sess í enska landsliðinu þá og liðsfélagi hans Gylfi í því íslenska nú, tók upp á því að brjóta á sér ristina kortéri fyrir HM-keppnina í Þýskalandi sumarið 2006. Það má segja að þjóðarsorg hafi ríkt á Englandi það vorið og tíðar fréttir voru af bata Rooneys; hvort beinið myndi gróa í tæka tíð fyrir mótið og hvort hann yrði í leikformi fyrir fyrsta leik.

Skemmst er frá því að segja að öll þessi athygli fjölmiðla á hinni heilögu rist Rooneys varð enska landsliðinu ekki til framdráttar. Allur undirbúningur liðsins féll í skuggann af meiðslum stórstjörnunnar og þó að Rooney næði undraverðum bata varð snemma ljóst að hvorki líkami hans né hugur voru nægilega vel undirbúnir til þess að bera heilt landslið á herðum sér, hvað þá lið með jafnmiklar væntingar þjóðar sinnar og það enska hefur oftast haft í kringum sig.

Að þessu leyti er íslenska landsliðið betur komið en það enska. Enginn gerir ráð fyrir að við verðum heimsmeistarar en allir vona auðvitað að liðið muni standa sig jafn vel og það gerði á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Víkverji andaði því léttar þegar í ljós kom að meiðsli Gylfa voru ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu. Engu að síður megum við hér á Fróni passa okkur að detta ekki í sama gírinn og Englendingar gerðu árið 2006. Það mun ekki gera neinum gott.