Forföll Brynjar Þór Björnsson leikur ekki með KR gegn Njarðvík.
Forföll Brynjar Þór Björnsson leikur ekki með KR gegn Njarðvík. — Morgunblaðið/Eggert
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, braut bein í handarbaki á æfingu hjá KR á mánudagskvöldið en ekki fingur eins og greint var frá í fjölmiðlum. Eru meiðslin því í raun alvarlegri að mati Brynjars heldur en ef um fingurbrot væri að ræða.

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, braut bein í handarbaki á æfingu hjá KR á mánudagskvöldið en ekki fingur eins og greint var frá í fjölmiðlum. Eru meiðslin því í raun alvarlegri að mati Brynjars heldur en ef um fingurbrot væri að ræða.

„Ef þetta hefði verið fingurbrot hefði ef til vill verið hægt að reyna fyrr á þetta með því að nota spelku. Allur fréttaflutningur hingað til hefur í raun verið rangur. Beinið í handarbakinu sem liggur í baugfingur brotnaði í tvennt. Hið jákvæða er að að sögn lækna er brotið fínlegt og líkur á að þetta muni gróða hratt og vel,“ sagði Brynjar þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær en framundan eru væntanlega fjórar til fimm vikur í gifsi. Ekkert bendir því til þess að Brynjar þurfi að fara í aðgerð til að setja beinið saman.

Eftir að hafa leikið allan veturinn í deildakeppninni er afskaplega leiðinlegt fyrir menn að meiðast á þröskuldi úrslitakeppninnar þegar fjörið byrjar fyrir alvöru. „Já, þetta er alveg skelfilegt. Versta mögulega tímasetning til að meiðast,“ sagði Brynjar sem mun hitta sérfræðing á morgun til að velta vöngum yfir stöðunni.

„Þá fæ ég ef til vill að vita hvort einhver möguleiki sé að fara eitthvað fyrr af stað en áætlað er. Eftir viku fer ég í aðra myndatöku og þá sést hvort beinið sé byrjað að gróa.“

Brynjar hefur orðið Íslandsmeistari með KR síðustu fjögur árin. Liðið hafnaði í 4. sæti í Dominos-deildinni í körfuknattleik og tekur á móti Njarðvík í 8-liða úrslitum í kvöld. Á sama tíma verður Stjarnan í heimsókn hjá ÍR í Breiðholtinu. kris@mbl.is