Bjarni Jón Gottskálksson fæddist 11. maí 1926. Hann lést 28. mars 2018.

Útför Bjarna fór fram 12. mars 2018.

Traustur og góður vinur okkar Kristrúnar, Bjarni Gottskálksson, er til moldar borinn í dag. Hugur minn hefur verið hjá honum síðustu daga. Við vorum mjög nánir þau átta ár sem ég var ráðherra og hann var vinur fjölskyldunnar. Ekki síst föður míns og höfðu þeir margt að spjalla og nutu samvistanna báðir tveir.

Það er mikið þolinmæðisverk að vera bílstjóri ráðherra og þurfa að hlíta duttlungum hans. En það kunni Bjarni og leysti vel af hendi. Með árunum urðum við góðir vinir og samrýndir. Hann fór með mig heim í átthagana austur á Síðu, sýndi mér Heiði og sagði mér frá fólkinu austur þar. Og ferðinni lauk í Skálmarbæ. Þar var tekið vel á móti okkur. Gísli bóndi var sérstakur persónuleiki, ávallt glaður og bjó yfir fróðleik um reynslu kynslóðanna. „Katla setur í herðarnar áður en hún gýs,“ sagði hann. Og svo var haldið til veiða í Kúðafljóti, því að til þess var leikurinn gerður. Ég reyndi fyrir mér með stöng en varð ekki var. Bjarni og Gísli drógu fyrir og gengu rösklega til verks.

Bjarni var einstakur persónuleiki. Aldrei heyrði ég hann halla orði til nokkurs manns og hann lagði gott til mála. Mér var óhætt að treysta trúnaði hans og þagmælsku. Hann var lipur í umgengni og brást skjótt og vel við ef til hans var leitað. Enginn skyldi þó halda, að hann hafi verið skaplaus. Og hann tók þykkjuna upp fyrir vini sína ef svo bar undir. Hann hafði hógværan og skemmtilegan húmor. Og hann var mikill fjölskyldumaður. Það fann ég glöggt þegar talið barst að börnum hans. Hann var glaður og stoltur yfir velgengni þeirra.

Bjarna Gottskálkssyni á ég margt að þakka og við Kristrún. Um hann á ég engar minningar nema góðar. Guð blessi minningu hans.

Halldór Blöndal.

Þegar þú verður ráðherra 34 ára og hefur í tíu ár skrifað leiðara um ráðherrabíla sem snobbtíkur þá er málið flókið. Ég byrjaði á því að taka leigubíla milli staða; það kostaði mikið en samt minna en ráðherrabíllinn. Þá var mér bent á að hafa kannski alltaf sama leigubílinn. Það fannst mér góð hugmynd. Þá kom Bjarni. Þegar hann sótti mig á Holtsgötuna þá bað ég hann að bíða eftir mér á Framnesveginum af tveimur ástæðum. Sú fyrri var sú að svört drossían frá BSR teppti umferðina í götunni, en síðari var að dóttur minni fannst það svo ógeðslega hallærislegt að hafa svona bíl nálægt sér. Hún var 14 ára; ég var reyndar sammála henni. Bjarni keyrði mig í fimm ár til 1983. Svarti bíllinn hans var að vísu ekki notaður lengi heldur keyptur mikið minni bíll, rauður. Það var í eina skiptið á fimm árum sem Bjarni var mér bersýnilega ósammála. Bjarni og ritarinn Sæunn Eiríksdóttir urðu hornsteinar vinnunnar og héldu utan um mig eins og son sinn í fimm ár í þremur ráðuneytum.

Bjarni Gottskálksson hét hann, lést í hárri elli á Hrafnistu, eftir að hafa verið nokkuð utan heims um skeið.

Hann var gersemi hann Bjarni. Áreitnislaus, snyrtilegur, myndarlegur á velli, kunni á malarvegina því hann hafði keyrt áður olíubíla um allt land. Ekki undirgefinn, uppréttur, sagði sínar skoðanir umbúðalaust. Bjarni var reyndar svo glæsilegur að þegar Hallvard Bakke, viðskiptaráðherra Noregs, kom til mín í opinbera heimsókn þá gekk einn eldri fylgdarmanna Bakkes beint að Bjarna og heilsaði honum sem ráðherra, fannst Bjarni ráðherralegri en ég.

Ég sat alltaf aftur í ráðherrabílnum; var þá að rísla við gögn sem ég þurfti að glöggva mig á fyrir næsta fund. En þegar þurfti þá skiptumst við á orðum, töluðum lítið um pólitík. En mest töluðum við um sveitina. Hann um Heiði. Hann sagði mér stoltur frá börnunum sínum Gottskálk, Ragnari, Heiðu og Hinriki; þau spönnuðu allt mannlífið. Einn spilaði á gítar annar átti risakrana, allt þar á milli. Miklu seinna kom svo Jón til sögunnar. Bjarni var nákvæmlega eins og ráðherrabílstjórar eiga að vera. Drengur góður, lipur, viljugur, mætti alltaf korteri áður en hann var beðinn um að mæta. Hafði einn galla: Hann gerði aldrei kröfur um neitt fyrir sjálfan sig.

Í fimm ár vorum við saman í bíl kannski tíu sinnum á dag, það liðu aldrei meira en nokkrir dagar á milli samfunda okkar nema þrír mánuðir einu sinni á milli ríkisstjórna. Alltaf þægilegt, aldrei vesen. Ráðherrar Alþýðubandalagsins fóru ekki í frí. Þeir vissu að þeir myndu gera stuttan stans í ráðuneytunum og þess vegna þyrfti að klára allan heiminn áður en við gengjum þaðan út.

Þegar ég fór utan til sendiherrastarfa strjáluðust samfundir okkar. Frétti þó af honum líta inn hjá stelpunni sem vildi ekki ráðherrabílinn í Holtsgötuna. Um þau erindi segi ég ekkert hér.

Með þessum línum flyt ég fjölskyldu Bjarna Gottskálkssonar, börnum, tengdabörnum og niðjum samúðaróskir okkar Guðrúnar og þakkir fyrir langa og trygga samfylgd frá mér og börnunum mínum.

Svavar Gestsson.