Guðmundur Kristján Magnússon fæddist á Brekku í Langadal í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp 27. október 1927. Hann lést á Landakoti í Reykjavík 2. mars 2018.

Foreldrar hans voru Magnús Jensson á Brekku og síðar á Hamri, f. 30.8. 1896, d. 19.9. 1969, og Jensína Arnfinnsdóttir, f. 7.6. 1894, d. 30.11. 1986. Systkini Guðmundar voru: 1) Jón Arnar Magnússon, f. 6.8. 1926, d. 24.1. 2002, maki Elín Erna Ólafsdóttir. 2) Jens Magnússon. f. 6.10. 1928, d. 7.2. 1930. 3) Kristín Magnúsdóttir, f. 25.10. 1929, d. 9.7. 2011, maki Ingvar Jónsson. 4) Sigríður Gyða Magnúsdóttir, f. 7.5. 1931, maki Eiríkur Jónsson. 5) Margrét Guðrún Magnúsdóttir. f. 9.6. 1932, d. 22.11. 1994, maki Matthías Bjarnason. 6) Halldór Magnússon, f. 9.6. 1933, d. 22.5. 1976, maki Hulda Engilbertsdóttir. 7) Ragnar Heiðar Magnússon, f. 19.11. 1935. 8) Edda Magnúsdóttir, f. 5.7. 1937, maki Guðni Jónsson.

Hinn 11. júní 1955 kvæntist Guðmundur Kristínu Steinunni Þórðardóttur, f. 12.10. 1928, d. 12.4. 2005. Foreldrar hennar voru Þórður Halldórsson á Laugalandi, f. 22.11. 1891, d. 26.5. 1987, og Helga María Jónsdóttir, f. 2.2. 1898, d. 8.4. 1999. Guðmundur og Kristín eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Snævar, f. 3.7. 1956, maki Anna Guðný Gunnarsdóttir, dætur þeirra eru Kristín Valgerður og Steinunn Jóhanna. Fyrir átti Snævar soninn Jakob Má með fyrrverandi eiginkonu sinni Kristen M. Swenson. Fyrir átti Anna Guðný synina Ástþór Inga Sævarsson og Gunnþór Tuma Sævarsson. 2) Þórunn Helga, f. 14.7. 1959, d. 8.11. 2012. Sonur hennar og Steindórs Karvelssonar er Fannar Karvel. Börn hennar og Kolbeins Péturssonar eru Natan, Salka og Arnfinnur. 3) Magnea Jenny, f. 2.4. 1963, dóttir hennar og Finnboga Kristjánssonar er Ragnheiður Kristín.

Guðmundur ólst upp á Brekku í Langadal fram til 1945 þegar fjölskyldan fluttist út að Hamri við Ísafjarðardjúp. Hann stundaði nám við Héraðsskólann í Reykjanesi. Hann vann lengi vel við vegagerð við Djúpið. Síðar keyptu hann og Kristín jörðina Melgraseyri árið 1955 af föðurbróður Kristínar, Jóni Fjalldal. Þar ráku þau stórt bú mestan sinn starfsaldur. Guðmundur sá um póstafgreiðslu á Melgraseyri, móttöku Djúpbátsins og sat auk þess bæði í hreppsnefnd og sýslunefnd til margra ára.

Þau fluttu til Hveragerðis 1986. Þar vann Guðmundur hjá Ullarþvottastöðinni, Olíufélaginu og við garðyrkjustörf. Árið 1993 fluttu þau í Kópavog og Guðmundur hélt áfram að vinna hjá Olíufélaginu. Árið 2001 fluttu þau Kristín í Jökulgrunn 11 í Reykjavík.

Minningarathöfn verður um Guðmund í Kópavogskirkju í dag, 15. mars 2018, og hefst klukkan 13.

Jarðsett verður frá Melgraseyrarkirkju föstudaginn 16. mars og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveðjum við mikinn heiðursmann sem ég var svo lánsöm að kynnast fyrir 18 árum. Ég var með hnút í maganum þegar við Tumi minn, þá þriggja ára, fórum í okkar fyrstu heimsókn til ykkar Stínu í Gullsmárann. En hann hvarf um leið og inn var komið því ætíð tókuð þið og svo síðar þú vel á móti okkur þegar við komum í heimsókn. Síðustu vikuna þína sat ég oft hjá þér og minntist ég þess þá hve oft þú sast yfir lömbunum. Lömbunum sem minna máttu sín, komust illa á spena eða mamman vildi þau ekki. Þú hafðir óþrjótandi þolinmæði, natni og glöggt auga fyrir fénu og í sauðburði varstu í essinu þínu. Fórst á milli stía og vissir upp á hár hvar hvert lamb átti að vera og með hverju þeirra þurfti að fylgjast. Við eigum margar góðar minningar úr fjárhúsunum, þó svo að stundum hafir þú skammast í mér og fundist ég vera óttalegt borgarbarn. Þú kenndir mér, Jakobi, strákunum mínum og afastelpunum þínum svo margt. Talaðir um veðrið og hvernig við gætum lesið í himininn, sólina og tunglið til að spá fyrir um veðrið daginn eftir. Þú kenndir okkur örnefnin í sveitinni, rúntaðir með börnin niður á Brellur og út á Sandhól og sagðir þeim allt um stokka og steina. Sýndir þeim fuglana og allt sem landið gaf. Þú sagðir okkur sögur úr sveitinni frá því í gamla daga og hafðir gaman af því að lesa ævisögur annarra. Margt spjallið áttum við saman um alls konar fólk og líf þess þar sem ég hef líka gaman af ættfræði eins og þú. Kirkjan á Melgraseyri átti líka stað í hjarta þínu, þú kenndir okkur unga fólkinu að bera ótakmarkað virðingu fyrir henni og hugsa vel um hana eins og þú hafðir gert. Þú fórst ófáar ferðir keyrandi með Snævari og Kristínu vestur þegar hún var lítið stelpuskott, þú hafðir ofan af fyrir henni alla leiðina og stundum þurftir þú að klæða sömu dúkkuna aftur og aftur. Við áttum góða tíma saman í sveitinni. Þú komst alltaf í sauðburð til okkar og oft þegar verið var að heyja og lést þig ekki vanta þegar kom að smölun. Við áttum líka góðar stundir hér fyrir austan en þú komst til okkar og dvaldir þá í svolítinn tíma í senn. Stelpurnar elskuðu að hafa þig hér, fannst gott að vita af þér í húsinu og vera í kringum þig. Þú gættir þeirra fyrir okkur þegar við skruppum til útlanda og sást um að allt gengi sinn vanagang. Þú varst alltaf til í að lesa fyrir þær þó að þær vildu kannski hlusta á sömu bókina aftur og aftur, þær bara smelltu sér fyrir ofan þig í rúmið þar sem þú lást og hlustaðir á útvarpið og sögðu „afi lesaðu“.

Við áttum líka dýrmætar stundir síðasta sumarið sem við vorum á Melgraseyri, ég hafði ákveðið að vera þar yfir sumarið og taka á móti gestum. Þegar á hólminn var komið þorði ég ekki að vera þar ein með stelpunum, bauð þér með og þú slóst til. En það er komið að því að kveðja og það að síðasta ferðin okkar skuli vera vestur á Melgraseyri finnst mér góð tilhugsun. Þar veit ég að sveitin þín mun taka vel á móti þér og umvefja þig. Elsku Guðmundur, takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman þær eru ómetanlegar.

Anna Guðný Gunnarsdóttir.

Þú er farinn frá okkur, elsku afi minn, loksins ertu kominn á heimaslóðir aftur. Þú ert búinn að vera að bíða lengi eftir að hitta ömmu aftur og nú ertu loksins farinn til hennar. Lengi hefur hugurinn leitað heim á Melgraseyri og í Djúpið og þú varst vart í rónni þegar fór að vora, svo mikið toguðu heimahagarnir eftir vetrardvöl undir Mogganum. Það var alltaf eins og þú yngdist á vorin, þegar sólin fór að skína og þú sást fram á að geta farið úr borginni og enn man ég þá tíð fyrir ekki svo löngu þegar fjörgamall afi minn hringdi í mig og sagðist ætla að skreppa vestur. Ég spurði þá hvenær þú ætlaðir að fara og þá varstu kominn vestur, aleinn á ferð kominn fast að áttræðu og sást ekkert því til fyrirstöðu að keyra yfir landið.

Þú hefur alla tíð verið stoð okkar fjölskyldunnar og stytta, alveg sama hvað á gekk þá varstu til staðar fyrir okkur öll þó ekki nema til að styðja sig við og ræða málin. Það situr föst sú minning í mér frá því amma var veik og þú tókst ekki annað í mál en að hún yrði heima, þú gætir séð um hana. Borið hana í stólinn sinn og hugsað um hana og það gerðir þú með þinni yfirvegun og rólegheitum, þú passaðir upp á að hana vanhagaði ekki um neitt. Ekki einu sinni þegar amma var komin upp á Landakot, þá passaðir þú upp á að hún gæti horft á þáttinn sinn á hverjum degi. Þetta lýsir vel þeim manni sem þú hafðir að geyma; hjartahlýr og umhyggjusamur. Nú er það hlutskipti komið til okkar sem eftir erum, við verðum að reyna að feta í fótspor þín og minnast þín svo komandi kynslóðir gleymi ekki að það er til fólk sem gert er úr gulli, fólk sem er gott í gegn og hefur ekkert að fela.

Í Djúpinu er dásamlegt að vera

því dásamlegri stað ei nokkur veit

Í Djúpinu er dásamlegt að vera

því Drottinn skóp þar unaðslegan reit

(Jón Fanndal.)

Hugurinn leitar alltaf vestur í Djúpið til æskuáranna þegar ég fékk að vera hjá ykkur ömmu í sveitinni, húfunnar sem amma prjónaði á mig svo ég gæti verið alveg eins og þú og farið með þér í fjárhúsin að vatna og gefa. Þegar ég fékk að fara með þér á dráttarvélinni upp í dal að sækja ömmu þegar hún var hjá langömmu. Ég minnist þess líka að þú gafst þér alltaf tíma til að lesa fyrir mig úr dýrabókunum og ég er svo þakklátur fyrir að börnin mín fengu að upplifa það sama. Þau fengu að upplifa langafann sem alltaf skellti á lær og hló þegar hann sá hver voru komin í heimsókn og las fyrir hvert þeirra, spilaði við þau eða tefldi. Síðast þegar þú varst kominn á Landakot þá var nú ekki tiltökumál að taka eins og einn ólsen til að stytta sér stundir.

Ég er glaður, afi minn, að þú ert kominn til ömmu og mömmu og passar upp á þær fyrir mig þar til ég kem og hitti ykkur aftur.

Ég gleð mig við þá tilhugsun að nú ertu kominn heim í Djúpið þitt, vertu velkominn heim Guðmundur Magnússon frá Melgraseyri.

Fagra, dýra móðir mín

minnar vöggu griðastaður

nú er lífsins dagur dvín,

dýra, kæra fóstra mín,

búðu um mig við brjóstin þín.

Bý ég þar um eilífð glaður.

Fagra, dýra móðir mín,

minnar vöggu griðastaður.

(Sigurður Jónsson frá Arnarvatni.)

Fannar Karvel.

Elsku afi það erfitt að kveðja þig í dag. En margs er að minnast og minningarnar munu lifa í hjarta okkar. Við vorum bara pínulítil kríli þegar þú byrjaðir að gæta okkar. Mamma og pabbi á fullu í sauðburði meðan þú passaðir okkur inni í bæ, last blöðin og tókst fréttirnar. Steinunn var ekki nema nokkurra vikna þegar þið tókuð bændalúrinn saman. Þú varst alltaf til í að lesa fyrir okkur og er ein af okkar uppáhaldssetningum „lesaðu afi, afi lesaðu“. Þú dekraði okkur algjörlega og man Kristín eftir því þegar „Sæmundur í sparifötunum“ var á borðum, þá sleikti Kristín kremið en þú afi borðaðir kexið sem Kristínu þótt ekki gott. Þú sagðir okkur svo margt um öll dýrin fyrir vestan, sérstaklega fuglana, hreiðrin og hvernig við ættum að umgangast þau. Þú sagðir okkur sögur frá því þú varst lítill og hafðir gaman af því að segja okkur hvað allir staðir í náttúrunni heita. Þú fórst með okkur niður á bryggju og sagðir okkur frá hamaganginum þar þegar Fagranesið var til. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og leika með bílana. Þú vildir líka alltaf gefa okkur eitthvað að borða og máttum við bara velja úr ísskápnum og stundum var til ís. Einu sinni vorum við hjá þér og þú fékkst sendan matarbakka og í honum voru þrír kjúklingabitar og fannst þér allt í lagi að Steinunn fengi tvo og þú fengir bara einn, en svona var akkúrat afi. Hvíldu í friði, elsku afi, minningin um þig lifir í okkar hjörtum.

Kristín Valgerður

og Steinunn Jóhanna Snævarsdætur.

Elsku afi.

Ég hef þekkt þig alla ævi. Þegar ég var lítil kallaðirðu mig stýrið þitt. Ég á óteljandi góðar minningar með þér og ömmu á Álfhólsveginum þar sem þið voruð mér eins og aðrir foreldrar, og eins minningar með ykkur í sveitinni á Melgraseyri. Þú áttir ekki kost á því að afla þér mikillar menntunar en þú bættir það upp með því að fylgjast mjög vel með fréttum, og ég held ég hafi aldrei hitt fróðari mann. Þú vissir alltaf hvað var í gangi í samfélaginu. Þú lærðir m.a.s. á spjaldtölvu og fylgdist með vefmiðlum, þrátt fyrir að vera fæddur 1927.

Þú hvattir mig alltaf áfram og hafðir alltaf trú á mér í því sem ég gerði, jafnvel þótt ég væri að „þvælast úti í heimi“. Þegar ég hafði áhyggjur af því að ná prófum sagðirðu alltaf „þú klárar þetta“, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég á enn eftir að klára mastersritgerðina en þú sagðir við mig að ég myndi klára hana, svo ég trúi því og mun gera það fyrir þig. Ég lærði oft fyrir próf heima hjá þér í Jökulgrunni, með Rás 1 í bakgrunni. Einu sinni sofnaði ég í rósótta sófanum í miðjum jólaprófum og þú vaktir mig ekki, þér fannst ég þurfa á hvíldinni að halda. Þú hafðir rétt fyrir þér, eins og alltaf.

Þú varst kletturinn okkar, ættfaðirinn, og þín verður sárt saknað. Ef ég fengi einhverju ráðið þá yrðirðu hér áfram, en þinn tími er víst kominn og við fáum ekki að hafa þig lengur. Þú getur nú farið aftur vestur og heim og verið áhyggjulaus. Við spjörum okkur, ég lofa. Síðustu dagar hafa verið erfiðir þar sem hlutverkin hafa snúist við, og á tímabili leið mér aftur eins og litlu stýri. Þessir dagar hafa verið mér ómetanlegir, að hafa getað gefið til baka og verið þér styrkur.

Mér komu til hugar ljóðlínur frá belgískum söngvara þegar stundin nálgaðist, að það væri erfitt að deyja svona á vorin, þegar allt væri í blóma, en þér varð tíðrætt um að draga ekki fyrir sólina.

„Það er erfitt að deyja á vorin, þú veist

en ég fer með blóm og frið í hjarta“

(Jacques Brel – lausleg þýðing mín.)

Ég mun sakna þín óskaplega mikið, en við hittumst aftur hinum megin.

Þín,

Ragnheiður Kristín.

Móðurbróður minn Guðmundur Magnússon frá Melgraseyri er fallinn frá.

Það verður þögn.

Hann hafði stóra hlýja sál og var stuðningur minn inn í lífið á margan hátt og var virtur af sveitungum sínum.

Ég ólst upp hjá afa og ömmu, foreldrum Guðmundar á Hamri sem er næsti bær við Melgraseyri. Guðmundur og kona hans, Kristín Þórðardóttir, keyptu Melgraseyrina og hófu þar búskap. Á þessum tíma bjuggu nærri 100 manns í Nauteyrarhreppi. Enginn vegur var til Ísafjarðar og allir íbúar við Ísafjarðardjúp voru án vegasambands níu mánuði ársins. Aðalsamgöngur voru á sjó. Guðmundur var afgreiðslumaður Djúpbátsins Fagraness sem hafði áætlun frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp tvisvar í viku og stoppaði við bryggjuna á Melgraseyri, þar var sótt mjólk til bænda ásamt öðrum vörum. Það gátu komið allt að 20 manns á bryggjuna eins og það var kallað. Eftir að búið var að afgreiða bátinn var farið í kaffi og meðlæti til Guðmundar og Stínu. Þar hittust karlarnir og alltaf var tekið vel á móti öllum. Þá var rætt um veður, verðlag, pólitík og önnur hitamál. Ekki minnkaði hitinn við að nokkrir hreinræktaðir kommar voru í sveitinni. Ekkert var óviðkomandi. Þessar móttökur með meðlæti var ólaunað framlag hjónanna á Melgraseyri og var það allan tímann sem ég man.

Á Melgraseyri var líka flugvöllur sem var mest notaður fyrir sjúkraflug. Í leysingum á vorin þurfti Guðmundur að keyra eftir flugbrautinni svo hún væri trygg vegna aurbleytu.

Á Melgraseyri var líka kirkja. Þegar messa var komu sveitungarnir til messu og svo í kaffi til Guðmundar og Stínu. Messa prestsins var þá krufin því séra Baldur Vilhelmsson, sóknarprestur í Vatnsfirði, var þegar orðinn þjóðsagnapersóna.

Á Melgraseyri var póstþjónusta fyrir sveitina. Ég man að Guðmundur sýndi mér öll útlendu bréfin sem höfðu borist frá söfnurum. Innihald bréfanna var áletrað umslag með frímerki sem átti að stimpla og endursenda. Stimpillinn á pósthúsinu á Melgraseyri var svo sjaldgæfur að hann var þekktur víða um heim.

Einu atriði man ég eftir, ég hafði fengið nýjar gallabuxur sem þótti fínt í þá daga. Ég var á hlaupum og datt og reif nýju gallabuxurnar og rispaði svo skinnið að það blæddi. Ég hljóp stórslasaður að mér fannst og mætti Guðmundi og sýndi honum sárið. Hann sagði að hann vorkenndi mér ekki neitt því skinnið myndi gróa en gallabuxurnar ekki. Mér þótti þetta ekki mikil huggun í þá daga.

Síðasta árið sem ég var í sveit var ég kaupamaður hjá Guðmundi, þá voru fjárhúsin og hlaðan byggð.

Ég get ekki kvatt Guðmund nema að nefna Stínu konu hans sem var glaðlynd, gestrisin, ákveðin og úrlausnargóð. Þau voru samstillt, drífandi og ábyrg.

Í þessu skrifi hef ég ferðast í draumi minninga um falleg hjón sem voru mér kær og hlý.

Minningar mínar munu lifa svo lengi sem ég lifi.

Elsku Guðmundur frændi, takk fyrir allt.

Blessuð sé minning þín.

Ég sendi aðstandendum mínar samúðarkveðjur.

Kveðja

Magnús Ingvarsson.

Það er sagt að það sé eftirsóknarvert að ná háum aldri, en því fylgir líka að horfa á eftir og kveðja samferðamenn. Nú var það Guðmundur Magnússon, lengi bóndi á Melgraseyri við Djúp, sem andaðist annan mars. Nágranni minn og vinur til margra áratuga, Kristín kona hans mágkona mín. Þegar ég kom í sveitina 1956 voru Guðmundur og Stína tekin við búskap á Melgraseyri og elsta barnið fætt.

Melgraseyri var á þessum árum miðstöð ytri hluta Nauteyrarhrepps, þar lagðist Fagranesið við bryggju tvisvar í viku og þá komu bændur á bæjunum í kring úr Skjaldfannardal og innan af Langadalsströnd, þarna var bensínsala og póstafgreiðsla,. Kirkjustaður og rútan frá Reykjavík í tengslum við bátinn þá mánuði sem fært var yfir Þorskafjarðarheiði. Það má líka nefna það að fundahöld og opinberar samkomu bættust við, að Melgraseyri var alltaf leitað og áreiðanlega liðu fáir dagar svo að gesti bæri ekki að garði, öllum veittur beini og ekki krafið um borgun. Nú er þar hljótt um hlöð og búskap lokið eins og á flestum bæjum í Nauteyrarhreppi hinum forna.

En minningar lifa um gott fólk og góða nágranna. Guðmundur og Stína voru það. Þau voru glæsileg hjón hún með sitt dökka hár kvik og rösk, hann hægari í fasi ljóshærður með fallegt bros og hlýjan svip. Hann var ekki fyrir að trana sér fram en fastur fyrir og tillögugóður, lengi í hreppsnefnd og lagði jafnan gott til mála. Gegnheill og góður maður. Það var erfitt að sjá á bak þeim hjónum þegar þau fluttu burt 1986. Hugur minn leitar til máganna Halldórs og Guðmundar á leið í leitir á haustin öryggir og ákveðnir, það þurfti hvorki málalengingar né miklar orðræður. Báðir þekktu smalalandið eins og lófa sína og hvor um sig vissi að það mátti treysta á hinn og það átti við um alla þeirra samvinnu. Í haust hélt Guðmundur upp á níræðisafmæli sitt. Þangað komu ættingjar og gamlir sveitungar og vinir. Þetta var góð stund og gleðileg. Hann var eins áður brosandi og glaður og þannig vil ég muna hann og kveðja. Ég og börnin mín frá Laugalandi sendum fjölskyldu Guðmundar innilegar samúðarkveðjur og þökkum honum vináttu liðinna ára.

Ása Ketilsdóttir.

Elsku afi minn.

Þú hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu og á ég minningar um okkur frá því ég man eftir mér. Ein sú sterkasta í mínum huga er þegar ég, þú og amma vorum að keyra vestur í Djúp og við stoppuðum í Búðardal til að kaupa okkur samlokur. Þið spurðuð mig, má bjóða þér? Ég, lítill strákur, neitaði því, sagði mig ekki langa í. Við stoppuðum svo rétt fyrir utan bæinn til að borða en þegar ég sá ykkur borða langaði mig allt í einu í. Þið hristuð bara höfuðið, flissuðuð smá, hlógu og sögðu: við förum bara til baka og kaupum eina handa þér. Þegar við lögðum svo af stað eftir samlokuát bauðstu mér mola úr molaboxinu ykkar sem ég og öll ykkar barnabörn muna eftir úr bílferðum með ykkur ömmu.

Því miður er ég búinn að búa fjarri þér síðustu ár en í hvert skipti sem leið mín lá til Reykjavíkur hef ég gefið mér tíma til að hitta þig og tala við þig um ýmislegt enda varst þú fullur af visku. Fróðari mann hef ég ekki hitt því þú mundir tímana tvenna og man ég alltaf eftir því þegar þú og amma töluðuð um þegar þið voruð ung og heyrðuð sprengingarnar í stríðinu. Þú varst harður en samt mjög blíður. Það fauk stundum í þig í smalamennskum og varstu ekki ánægður þegar við barnabörnin misstum kindur fram hjá. Þá brunaðir þú á bílnum fram fyrir féð, fórst út, sveiflaðir stafnum og hrópaðir á það af miklum ákafa. Smalamennsku og allt sem tengdist búskap tókst þú alvarlega og skyldi allt vera vel og rétt gert. Þegar heyskapur var reyndir þú að vera sem mest fyrir vestan þó að pabbi væri tekinn við búskap og mættir alltaf í sauðburð. Síðustu ár hef ég haft mikinn áhuga á rafmagnsbílum og tók þá umræðu stundum við þig. Við ræddum um tæknina í dag og hvernig hún hefur breyst og þróast frá því þú varst ungur. Þér fannst rafmagnsbílar áhugaverðir og varst meðvitaður um snjallsíma, internetið og þ.h. Þú notaðir sjálfur tölvu og áttir þitt eigið spjald. Þar skoðaðir þú alls konar fréttir, myndir og sóttir þér fróðleik. Þú hefur oft hjálpað mér og stutt mig í því sem ég hef verið að gera og þegar Toyotan mín bilaði varstu fljótur að hjálpa mér með það. Og þú spurðir í hvert skipti sem ég hitti þig hvernig Toyotan mín hefði það. Hún er ennþá í 100% lagi. Þú stóðst við bakið á mér í mínu námi þegar ég ákvað að feta í fótspor pabba og verða smiður. Þú varst mjög stoltur af mér þegar ég lauk sveinsprófinu. Þú hafðir alltaf trú á mér og spurðir oft hvernig væri fyrir austan og hvort ekki væri nóg að gera, þú vildir fylgjast með. Þú varst kletturinn í mínu lífi, síðustu dagar hafa verið erfiðir og hafa hlutverkin snúist við. Við öll staðið við bakið á þér þegar þú áttir erfitt eins og þú gerðir fyrir okkur öll hin allt þitt líf.

Mikið væri ég til í að hafa þig lengur í mínu lífi en þinn tími var víst kominn og ert þú kominn aftur heim í Djúp í sveitina þar sem þér leið best. Hvíldu í friði, elsku afi minn, þinn

Jakob Már.

Guðmundur var fæddur 27. október 1927 að Brekku í Langadal við innanvert Ísafjarðardjúp, annað barn hjónanna Magnúsar bónda og Jensínu húsmóður. Búið var ekki stórt í sniðum að Brekku sem var hefðbundið bú.

Jón og Guðmundur voru elstir systkina sinna og brölluð margt saman. Gerðu margar tilraunir úti í náttunni og fiktuðu við að stífla læki og uppgötva lífríki náttúrunnar. Þeim datt m.a. í hug að leita að gulli og þóttust vongóðir um að finna það.

Hann ferjaði ferðamenn á hestum úr Ísafjarðardjúpi yfir í Þorskafjörð, þá 10 ára. Hann teymdi klárinn upp bröttustu brekkurnar. Þar blasti við honum mikil sýn, Drangajökull í norðri, bláhvítur og blikandi. Strandafjöllin gægjast fyrir hálendisbrúnina. Í vestur sér hann niður yfir allt Ísafjarðardjúp og lengst úti sér hann mótað fyrir fjöllum við Ísafjarðarkaupstað og á móti Snæfjöll við Jökulfirði norðanmegin. Djúpið glampar gullitinni sólarlagsins og heiðarnar endalaust suður. Rjúpa flýgur upp við fætur hans með tólf unga á eftir sér. Og hestarnir kippast við og sökkva hófum sínum í mosann. Hann vippar sér á bak og nú falla öll vötn niður í Langadal.

Guðmundur fór í Reykjanes í skóla sem barn og unglingur. Námið var nátengt umhverfinu, náttúru og menningu. Þar var mikill jarðhiti, sem var auðvelt að hafa gróðurhús og sundlaug. Skólinn lagði áherslu á menningarlegt samfélag sem spratt upp með gömlu héraðsskólunum. Nemendur voru þátttakendur í uppbyggingu skólans sem tengdi þá traustum böndum með því að starfa saman af sameiginlegum áhugamálum. Ekkert vekur jafn sanna gleði og óeigingjarnt starf í þágu stærri heildar. Ekkert bindur menn traustum böndum við einhvern stað, en að vinna honum eitthvað til nytsemdar, með ráðnum hug. Þetta mótaði Guðmund.

Guðmundur var útsjónarsamur. Hann réðist í það að kaupa sér vörubíl og gerði hann út í vegagerð. Þessi tími var um miðja síðustu öld. Samgöngur jukust með vegsamandi og byggðar voru bryggjur fyrir ferju um Djúpið. Þessum athöfnum tók Guðmundur virkan þátt í.

Það var mikið mannlíf og fjör sem fylgdi ungu fólki sem var á rekið við Guðmund í sveitinni. Á þar næsta bæ við Guðmund sem var Laugaland var stúlka á hans aldri, Kristín Steinunn Þórðardóttir. Þau hittust oft mitt á milli Hamars og Laugalands, sem var á Melgraseyri. Þau festu kaup á þeirri jörð.

Þannig var það með sveitunga Guðmundar, þeir leituðu til hans og báru undir hann „flókin“ málefni eins og Guðmundur væri þeirra dómari, til að fá lausn hjá honum á þeim. Enda völdu þeir hann í trúnaðarstöður.

Upp úr miðjum níunda áratugnum, þegar David Bowie var á öðrum hverjum grammófóni ákváðu þau hjónin að flytja suður og koma búi sínu í hendur yngra fólks. Þau voru nægilega hraust til að takast á við það og byrja annars staðar. Þau gengu bæði strax í störf syðra.

Guðmundur bjó einn eftir að kona hans dó og sá að mestu um sig sjálfur en hann naut aðstoðar dóttur sinnar, Magneu, í mörg ár sem var alltaf í kallfæri. Hún var á undan 112 í hjá honum, ef á þurfti að halda, ásamt dótturdóttur sinni, Ragnheiði.

Finnbogi Kristjánsson. mbl.is/minningar

Við andlát Guðmundar á Melgraseyri, vinar míns, nágranna og samstarfsmanns um áratugi, leitar margt á hugann. Sem unglingur man ég vel hvað það þóttu góð tíðindi hjá mínu fólki er þær fregnir bárust út að Stína á Laugarlandi og Gummi á Hamri væru að draga sig saman, enda bráðmyndarleg, vinsæl og mikið jafnræði með þeim. Þau voru svo stálheppin að 1955 losnaði ábúð á Melgraseyri, næsta bæ við þau bæði, svo þar voru hæg heimatökin. Melgraseyri er að mörgu leyti góð jörð og hæg og þá þokkalega hýst, sérstaklega hvað íbúðarhúsið varðaði, en þar var einnig bryggja fyrir Djúpbátinn, samgöngulífæð okkar Inndjúpsfólks og tvisvar í viku var þéttskipað bátskörlum við eldhúsborðið hjá Gumma og Stínu og mörgum málum ráðið þar vel til lykta. Svo bættist við að rútur Vestfjarðaleiðar höfðu einnig þar sína endastöð áætlunardaga Djúpbátsins, þar var einnig pósthús og bensínsala, sömuleiðis kirkja með messuhaldi og öðru því sem Guðskristni hér við Djúp heyrði til. Ennfremur kjörfundir í kosningum, aðalfundir félaga, spilakvöld, áramótafagnaðir og þorrablót, því Melgraseyri er miðsvæðis á utanverðri Langadalsströnd, húsrými þar einnig meira en annarsstaðar og síðast en ekki síst, að húsráðendur voru einstaklega gestrisin, góð heim að sækja og vildu allt fyrir alla gera.

Á kal- og hafísárunum 1964-68 var oft þungt fyrir fæti hér um slóðir, t.d. brotnaði hlöðuþakið á Melgraseyri einn veturinn gjörsamlega niður undan snjóþyngslunum og er mér vel í minni er við margir nágrannar í sortabyl og myrkri unnum við það langa skammdegisnótt, að moka snjó, ryðja burtu brotnum viðum og refta yfir heyið. Næsta sumar voru svo reist vegleg 400 kinda fjárhús og hlaða við þau og mjólkurframleiðslu hætt. Við Guðmundur sátum saman í hreppsnefnd í tvo áratugi og stundum hvessti þar verulega og þá kom sér vel að hafa þar jafn glöggan og góðviljaðan mann og hann sem kjölfestu. Nánast var þó samstarf okkar í Ræktunarsambandi Nauteyrar- og Snæfjallahrepps, en þar sinnti ég formennsku í 15 ár, sem var auðvelt, hafandi þá Guðmund og Pál í Bæjum mér til halds og trausts og síðast, en ekki síst, Engilbert á Mýri með sína óbilandi bjartsýni og þraut aldrei ráð.

Öræfin milli Djúps og Stranda eru afar víðáttumikil og var enginn mannskapur til að smala þau með skipulögðum hætti. Á góðum haustum skilaði fé sér seint af þeim og stundum lokuðu n.a. stórhríðarnar sem bresta á eins og hendi sé veifað, öllum leiðum heim fyrir þeim kindum. Guðmundur var afar ötull og óþreytandi í eftirleitum og sagði mér eitt sinn að sér þættu þær góð tilbreyting frá hversdagsamstrinu. Ef heimtur voru slæmar, man ég oft á kvöldin, eftir Guðmundi í sveitasímanum hvetjandi granna sína í leitir með sér að morgni, því nú væri spáð góðu veðri og ekki eftir neinu að bíða. Þannig vil ég helst muna ljúfmennið, mannasættinn og bóndann Guðmund á Melgraseyri á leið með hest sinn og hund austur í öræfavíðáttuna. Aðstandendum sendi ég einlægar samúðarkveðjur.

Indriði Aðalsteinsson,

Skjaldfönn.