Meet in Reykjavík var stofnað árið 2012 af Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Hörpu ásamt nokkrum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.
Meet in Reykjavík var stofnað árið 2012 af Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Hörpu ásamt nokkrum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Engin umræða er mikilvægari nú um stundir en umræðan um arðsemina í ferðaþjónustunni, að mati framkvæmdastjóra Meet in Reykjavik.

Að sögn Þorsteins Arnar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Meet in Reykjavík, eru straumhvörf að verða í arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. „Ef eitthvað þarf að vera áberandi umræðuefni í samfélaginu þá er það þetta, enda stendur ferðaþjónustan undir 43% af okkar útflutningstekjum,“ segir Þorsteinn í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að eitt af því sem hægt sé að gera til að spyrna við fótum sé að auka vægi svokallaðra MICE-ferðamanna til landsins en það eru ferðamenn sem koma til að taka þátt í ráðstefnum, fundum, hvataferðum eða sýningum. „Þeir geta haft töluvert vægi í því að auka arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu.“

Þorsteinn bendir á að ef hlutfall MICE-ferðamanna ykist um eitt prósentustig miðað við 2,5 milljón ferðamenn, eins og spár gera ráð fyrir árið 2018, þýddi það 3,5 milljarða í auknum útflutningstekjum.

Undanfarin ár hefur, að sögn Þorsteins, gengið vel að fjölga MICE-ferðamönnum hér á landi eða um 15,1% að meðaltali á ári á tímabilinu 2011-2016. „Hlutfall MICE-ferðamanna er rúmlega 6% af heildarfjölda ferðamanna hér á landi en í þeim löndum sem mestum árangri hafa náð er algengt að hlutfallið sé á bilinu 15-20%,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að verðmætin í þessari tegund ferðamanna felist einnig í bættri nýtingu innviða, svo sem hótelum, funda- og ráðstefnurýmum, og jákvæðum árstíðahalla en 80% MICE-gesta komi til landsins utan skilgreinds háannatíma.

Þorsteinn segir að það sama sé að gerast hér á landi og gerðist í Kosta Ríka og Nýja Sjálandi þar sem tekjuaukning af ferðamennsku fór minnkandi á sama tíma og ferðamönnum fjölgaði. „Þróunin hefur verið í ranga átt.“

Davos jafnréttisins

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, tekur í sama streng og Þorsteinn og segir að það skipti gríðarlega miklu máli að horfa til MICE-ferðamanna. „Í þessu samhengi skiptir líka máli að skapa okkur sérstöðu,“ segir Magnea og nefnir velheppnaða Arctic Circle ráðstefnu í haust og Heimsþing kvenleiðtoga sem haldið verður í Hörpu í Reykjavík árlega í nóvember frá árinu 2018 til ársins 2021. „Þar höfum við markað okkur sess sem jafnréttisland. Það skiptir máli að það sé stefnumarkandi hvað áfangastaðurinn stendur fyrir. Við gætum orðið fyrir jafnréttismál það sem Davos í Sviss er fyrir viðskipti.“