Everton Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með næstu vikurnar.
Everton Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með næstu vikurnar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Gylfi Þór Sigurðsson missir af næstu sex leikjum Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, ásamt landsleikjum Íslands gegn Mexíkó og Perú, miðað við að hann verði sex vikur frá keppni vegna hnjámeiðslanna.

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Gylfi Þór Sigurðsson missir af næstu sex leikjum Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, ásamt landsleikjum Íslands gegn Mexíkó og Perú, miðað við að hann verði sex vikur frá keppni vegna hnjámeiðslanna.

Í gær staðfesti Everton loksins að fjarvera Gylfa yrði 6-8 vikur vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik liðsins gegn Brighton á laugardaginn. Miðað við að allt gangi eðlilega fyrir sig í endurhæfingunni ætti hann að vera kominn í nokkuð góða æfingu, þó leikæfingin verði lítil, þegar Ísland mætir Argentínu í fyrsta leiknum í lokakeppni HM í Moskvu 16. júní.

Átta umferðum er ólokið í ensku úrvalsdeildinni og Everton leikur sex leiki næstu sex vikur. Það eru heimaleikir gegn Manchester City, Liverpool og Newcastle og útileikir gegn Stoke, Swansea og Huddersfield.

Gylfi nær því ekki að spila á sínum gamla heimavelli í Swansea þar sem honum hefði án efa verið vel tekið en sá leikur fer fram 14. apríl.

Fyrsti leikurinn gegn Lars?

Verði fjarvera Gylfa átta vikur mun hann ekki spila meira á tímabilinu. Tvær síðustu umferðirnar fara fram 5. maí, þegar Everton fær Southampton í heimsókn, og 13. maí þegar liðið sækir West Ham heim. Hann á raunhæfa möguleika á að spila þessa tvo leiki. Að öðrum kosti yrði fyrsti leikur Gylfa eftir meiðslin væntanlega vináttuleikur Íslands og Noregs, 2. júní, þegar Lars Lagerbäck mætir með lærisveina sína á Laugardalsvöllinn.

Hann verður að sjálfsögðu ekki í hópnum sem tilkynntur verður á morgun vegna leikjanna í Bandaríkjunum en Ísland mætir Mexíkó aðfaranótt laugardagsins 24. mars í Santa Clara í Kaliforníu og leikur síðan á þriðjudagskvöldið 27. mars við Perú í Harrison í New Jersey.