Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Það er alþekkt að hagvöxtur á Vesturlöndum á 21. öldinni verður knúinn áfram af hugviti. Við Íslendingar getum ekki treyst einvörðungu á náttúruauðlindirnar, sem voru mikil lyftistöng á 20. öldinni.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Það er alþekkt að hagvöxtur á Vesturlöndum á 21. öldinni verður knúinn áfram af hugviti. Við Íslendingar getum ekki treyst einvörðungu á náttúruauðlindirnar, sem voru mikil lyftistöng á 20. öldinni.

Á þeim vettvangi munum við mæta harðri samkeppni frá glæsilegum fyrirtækjum víða um heim. Til að standast öðrum löndum snúning þurfum við meðal annars vel menntað starfsfólk og frjóan jarðveg til nýsköpunar.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina , sem birt var fyrir viku, kemur fram að minnsta kosti þrennt sem er umhugsunarvert í þeim efnum:

1. Íslendingar verja hlutfallslega litlum fjármunum til háskólanáms.

2. Hlutfallslega fáir eru skráðir í stærðfræði, raunvísindi, verkfræði og tæknifög í háskólum hér á landi. Hlutfallið er með því lægsta innan OECD-ríkjanna. Skýrsluhöfundar sögðu að þessi mælikvarði væri oft notaður til að meta tækifæri landa til nýsköpunar.

3. Umsóknum sem Einkaleyfastofunni bárust frá íslenskum aðilum vegna tæknilegra uppfinninga fækkaði um 40% frá árinu 2007 til ársins 2017 sem er ekki í takt við alþjóðlega þróun.

Það ætti að vera kappsmál að Ísland sé framarlega í nýsköpun og því þarf að leita leiða hvernig gera megi betur á þessum sviðum.