Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var fyrirsögn þess efnis að skattahækkanir væru til skoðunar hjá ríkisstjórninni. Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem boðaði aðgerðir í þágu tekjulægri hópa.

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var fyrirsögn þess efnis að skattahækkanir væru til skoðunar hjá ríkisstjórninni.

Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem boðaði aðgerðir í þágu tekjulægri hópa. Tilefni viðtalsins voru yfirlýsingar Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að krafist verði breytinga á skatta- og húsnæðislánakerfinu í komandi kjarasamningum. Annars verði látið sverfa til stáls.

Ræddi ekki um skattahækkanir

Katrín segir fyrirsögn fréttarinnar hafa verið ranga, enda hafi ekki komið fram í máli hennar að skattahækkanir séu í skoðun.

„Ég ítreka það sem kom fram í mínu máli í gær [í fyrradag]. Við settum fram yfirlýsingu í tengslum við atkvæðagreiðslu sem fram fór hjá ASÍ um uppsögn kjarasamninga. Þar gáfum við út að við vildum endurskoða skattkerfið, með áherslu á lækkun skattbyrði í þágu tekjulægri hópa. Þar myndum við skoða fyrirkomulag persónuafsláttar og samspil við bótakerfin. Markmiðið væri að styðja við tekjulægri hópana. Í tengslum við þetta eru ekki fyrirhugaðar neinar skattahækkanir en auðvitað gefum við okkur ekkert um niðurstöðu vinnunnar,“ segir Katrín.

Spurð hvernig aðgerðir í þágu tekjulágra verði fjármagnaðar segir Katrín ótímabært að ræða það. Viðræðurnar séu enda ekki hafnar. baldura@mbl.is