Þórhallur Páll Halldórsson fæddist 26. júlí 1941. Hann lést 24. febrúar 2018.

Útför Þórhalls fór fram 5. mars 2018.

Djúpur er harmur, þegar við hjónin kveðjum ástkæran bróður og mág, sem var okkur svo mikilvægur í lífi og starfi. Hann var kletturinn sem aldrei bifaðist þótt stormar blésu. Tenging okkar var einkar náin þar sem við vorum þrjú systkini af Seltjarnarnesi sem vorum gift þremur systkinum innan úr Kleppsholti. Öll byrjuðum við búskap í ættarhúsinu Sólarhóli á Seltjarnarnesi og þau ár voru bæði ljúf og minnisrík. Saman höfum við gengið í gegnum margvísleg áföll og þá hefur kærleikurinn og samheldnin verið okkar ríkidæmi. Á slíkum stundum var það okkar ástkæri Halli Palli sem ávallt stóð yfirvegaður, hvetjandi og umhyggjusamur á sinn einstaka og gefandi hátt. Eftir liðlega 60 ára samfylgd er margs að minnast. Fyrstu kynnin þegar bróðirinn vildi hafa eitthvað með það að gera að sóttur væri karlpeningur fram á Seltjarnarnes þegar nóg framboð virtist vera af frambærilegum mönnum inni í Kleppsholti. En þá eins og svo oft, hafði systirin rétt fyrir sér og var þessi ráðahagur sannkallað gæfuspor, því á Eiði var að finna garenteruð vörumerki, því fékk bróðirinn og önnur systir svo sannarlega að kynnast. Upp í hugann koma nú árlegu sumarferðalögin með stórfjölskyldunni, þorrablótin, grímuböllin og ekki má gleyma knattspyrnuleikjunum.

Halli Palli var mikill Skagamaður og vildi veg þeirra sem mestan. Karlpeningurinn í fjölskyldunum skiptist að vísu nokkuð jafnt í tvær fylkingar, ÍA og KR. Það var skemmtileg upplifun sem við sjálfir og drengirnir okkar fengum að njóta með vallarferðum bæði á KR-völlinn og á Skipaskaga. Allt voru þetta samverustundir sem nú eru gulls ígildi. Ekki má gleyma þeim árum sem við vorum að basla við að koma okkur upp framtíðarhúsnæði, því þótt Sólarhóll væri yndislegur var hann full lítill fyrir stækkandi fjölskyldur, liðlega 40 fm. Þá voru allar hendur tiltækar og oft var unnið fram á rauðanótt, jafnvel þótt vinnudagur hæfist árla næsta morgun. Með samtakamættinum hafðist þetta. Sama gilti ef skipt var um húsnæði eða þau endurbætt, aldrei var skorast undan. Sér kapítuli er allt sem viðkom bílaviðgerðum, fyrir daga tölvukubbanna. Þar var okkar yndislegi á heimavelli því flest ráð kunni hann varðandi slíkar viðgerðir. Þolinmæði hafði hann ótakmarkaða og kunna flestir fjölskyldumeðlimir sögur að segja af úrræðasemi hans.

Ekki má ljúka þessum orðum án þess að minnast á Halla sem eiginmann og föður. Í þeim hlutverkum var hann heill og umhyggjusamur, ávallt reiðubúin til að aðstoða. Þau hjón lifðu fyrir syni sína og fjölskyldur þeirra og nutu þess að vera hvort með öðru. Í sérstöku uppáhaldi hjá þeim voru Benidorm-ferðirnar. Það var sárt að horfa upp á þverrandi lífsgæði Halla eftir að hann fyrir tveimur árum varð fyrir alvarlegri nýrnabilun og þurfti að vera í nýrnavél þrisvar í viku. Þá sem fyrr kom hið einstaka geðslag honum að miklu gagni. Missir Guggu og fjölskyldu er mikill eftir langt og heillaríkt hjónaband. Við hjónin biðjum algóðan Guð að milda sorg þeirra. Minningar um einstakan mann munu lifa í hugum okkar um ókomna tíð.

Lilja Hjördís og Hafþór.

Rellinn strákur rauðhærður

reyndar mesti fjörkálfur.

Heldur þykir handóður

heitir Páll og Þórhallur.

(H.Þ.)

Þannig orti pabbi okkar um bróður minn. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að hann var ekki rellinn og alls ekki rauðhærður, sagði mamma, hann var með gyllt hár. Hverjum dettur í hug að þræta við mömmur? Í æsku var stóri bróðir mikil fyrirmynd, í flestu. Ég hefði aldrei komist upp með öll þau prakkarastrik sem hann framkvæmdi, að vísu öll meinlaus. Ef hann náðist þurfti hann bara að brosa út að eyrum og sýna fallegu spékoppana, allir bráðnuðu. Sjarmatröll Halli Palli. Þegar hann óx úr grasi breyttust bernskubrekin í endalausa greiðvikni. Seinna þegar hann hitti Guggu sína sannaðist máltækið að „oft verður góður hestur úr göldum fola“. Hann var fyrirmyndarfaðir og góður eiginmaður. Mitt lán í lífinu var að Gugga átti margar systur og ein þeirra varð lífsförunautur minn. Fljótlega eftir að við fórum að búa keyptu Halli og Gugga hæð og við Jóna kjallara í litlu húsi, Sólarhól á Seltjarnarnesi. Seinna fluttum við í Fossvoginn, Halli og Gugga í Kópavog og við Jóna í Reykjavík. Á þessum árum myndaðist, auk fjölskyldukærleikans, einstök og ævilöng vinátta milli okkar fjögurra og strákarnir okkar gengu um á báðum stöðum eins og heima hjá sér. Seinna þegar systir okkar Halla giftist eina bróður þeirra systra fjölgaði í „klíkunni“, við urðum sex gömlu brýnin. Vinátta og kærleikur okkar systkina ríkir líka á milli barnanna okkar. Alla ævi höfum við bræður verið að gera eitthvað saman utan vinnu, leggja flísar, parket, teppi, mála og gera við bíla. Þ.e. Halli gerði við bílana, hafði endalausa þolinmæði, og ég handlangaði. Samband okkar var það náið að oft var okkur nóg að horfast í augu til að við skildum hvor annan.

Við höfum sungið saman í Strætókórnum í tæp 40 ár. Farið í fjölda ferða með kórnum, um öll Norðurlönd, víða um Þýskaland og til Mæjorka og Tenerife. Halli hafði fallega rödd og var ótrúlega fljótur að læra. Ég sakna þess að hafa hann ekki við hlið mér lengur, í leik og starfi.

Halli var alltaf heilsuhraustur þar til fyrir rúmum tveimur árum að nýrun gáfu sig. Hann varð ekki samur eftir það. Hann fór þrisvar í viku í blóðskilju og verður starfsfólki þar og á 12E seint fullþökkuð fagmennska, alúð og umhyggja sem þau sýndu honum þar til yfir lauk.

Gugga og Halli hafa lifað í ást og samlyndi í tæp 60 ár og hefur hún stutt hann sem klettur í gegnum veikindin. Hún og synirnir vöktu yfir honum dag og nótt í stuttri en snarpri banalegu. Bræðurnir hafa umvafið mömmu sína ástúð þennan erfiða tíma. Bróðir minn var alltaf einstaklega greiðvikinn og glaðlyndur. Hann gat verið fastur fyrir en alltaf var hann sama sjarmatröllið.

Ég bið Guð að geyma ástvini hans alla, hafðu þökk fyrir allt, bróðir.

Már E. M. Halldórsson.

Halli Palli.

Hann var einn af kærleiksríkustu mönnum sem við hjónin höfum kynnst í gegnum ævina. Að sama skapi var hann svo ótrúlega kíminn að þegar ég skrifa þessi orð sjáum við fyrir okkur glettnina og blikið sem var svo einkennandi fyrir hann. Hann var einn af okkar bestu vinum og samferðamönnum í gegnum tíðina, þannig að minningarnar hrannast upp. Halli Palli að halda ræður innan hópsins okkar eins og enginn væri morgundagurinn, ljúfur, kíminn, fyndinn, fylginn sér en samt eins og hugleiðsla að hlusta á hann. Hækkaði aldrei róminn, mildur, sannfærandi eins og sefandi faðir. Svona er hann í minningu okkar.

Hvergi hef ég kynnst eins samheldinni og elskulegri stórfjölskyldu og þessum systkinahópi hans og Guggu sem hafa svo ruglað reytum meira og minna við systkini maka sinna, svona þvers og kruss.

Löngu áður en ég kynntist þessum hóp fylgdumst við krakkarnir á Möðruvöllum með árlegri tjaldahelgi fjölskylduhóps sem tjaldaði alltaf á sama stað austur við Trönudalsá ár eftir ár. Vorum við krakkarnir svolítið eftirvæntingarfull að fylgjast með þessum glaðværa hóp en þorðum aldrei að gefa okkur neitt að þeim. Forvitin gengum við, riðum eða rákum kýrnar framhjá. Þannig var nú hlédrægni sveitabarna þá. Gegnum kórastarf SVR 1979 kynnumst við svo og rekjum okkur saman við tjaldafólkið á eyrinni. Fjölmörgum árum síðar koma Ómar sonur Halla Palla og seinna Þröstur í sveit að Möðruvöllum. Oft kom hann í heyskap á þessum árum, hjálpaði til við viðgerðir á vögnum ásamt öðru sem til féll og hafði gaman af.

Eitt sinn vorum við Halli Palli sett í að moka heyi í blásarann, þurftum við þá oft að bíða á milli vagna. Var þá ekkert fyrir okkur að gera nema hlaupa inn í bæ í kaffi sem eru um það bil 200 metrar frá hlöðu. Eitt sinn segi ég við Halla Palla: Eigum við að koma í kapp heim? Hann verður hálf tregur en segir svo: Jú ókei. Við rjúkum af stað hnífjöfn og mátti ekki á milli sjá hvort var á undan að bæjardyrunum. En eftir á, í gegnum árin, þegar hann rifjaði þetta upp sagði hann „þarna ég hélt ég hún dræpi mig“ en síðan þá höfum við margan sjeníverinn sopið í ferðalögum, söng og gleði, haft gaman af bæði hér heima og erlendis.

Elsku Gugga mín, við söknum hans. Minning um góðan dreng mun lifa. Við sendum ykkur öllum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur.

Eygló og Reynir.

Elsku Halli Palli. Á stundu sem þessari þegar maður skrifar hinstu kveðju til manns sem stendur manni nærri og hefur leikið stórt hlutverk í lífi manns er margs að minnast og margt sem leitar á hugann á rölti niður breiðstræti minninganna og rifjast upp allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman í gegnum lífið.

Þær voru ófáar Narfastaðaferðirnar með ykkur bræðrum – þér og Ella ásamt okkur strákunum – alltaf á síðustu stundu. Allar vallarferðirnar á sumrin með ykkur kaffibrúsaköllunum – þér, pabba og Ella. Það voru alls konar trix notuð til að koma okkur strákunum frítt inn á völlinn. Þú hélst með Akranesliðinu af öllu hjarta. Það leið ekki sumar án þess að við færum í heimsókn til þín og Guggu í hjólhýsið á Laugarvatni, grilluðum, færum í gufu og stundum var gist í tjaldi. Mín fyrsta launaða vinna var hjá þér – sumarið 1977 þegar ég var sendill í nokkrar vikur að keyra út Dagblaðið með þér í Hafnarfjörðinn – þær stundir áttu eftir að verða fleiri næstu árin, bæði við sendlastörf og að keyra út fyrir þig og Guggu í afleysingum. Þú varst einstakur maður, elsku Halli Palli, alltaf tilbúinn að hjálpa ef þess þurfti og þá sérstaklega á þínu sérsviði sem voru bílaviðgerðir. Þeir eru ófáir í fjölskyldunni sem hafa notið þinnar aðstoðar á því sviði og er ég einn af þeim.

Mér er alltaf minnisstætt kvöldið sem við vörðum saman á verkstæði Bílaleigu Arnarflugs – í gömlu skemmunum við Flugvallarveg – að skipta um bremsuklossa á VW Golf sem ég átti. Þetta gekk ekki alveg eins og það átti að ganga og eitthvað stóðu boltarnir á sér. Ekkert haggaði þó ró þinni og þú flautaðir eins og konsertmeistari þegar á móti blés – flautið hækkaði bara því meiri sem vandinn varð! Ég gleymi þessu kvöldi aldrei því ég hefði fyrir löngu gefist upp gargandi og bölvandi – en ekki þú. Þú flautaðir þig bara í gegnum þetta og að lokum tókst þetta og ég keyrði heim seint um kvöldið með splunkunýja bremsuklossa.

En það eru tvær minningar sem standa mér næst sem eru dýrmætari en aðrar á svona stundu. Önnur er um einlægt og gott samtal sem við áttum á afmælisdaginn minn 28. nóvember síðastliðinn. Þar ræddum við um lífið og tilveruna og rifjuðum upp gamla og góða tíma á Nesinu – þegar þú varst bílstjóri á leið 3 Nes-Háaleiti. Ég fékk stundum far með þér í skólann eða fór með þér í kringum Nesið og fékk að standa fram í og sturta peningunum í bauknum niður – það var stór stund fyrir lítinn strák á Nesinu á þeim tíma. Það var alltaf svo gott að tala við þig, elsku Halli Palli, rólegur, yfirvegaður og einlægur – og aldrei var langt í glettnina og hláturinn. Hin minningin og sú síðasta sem við áttum saman var þegar ég var á landinu í byrjun janúar og bauð ykkur – systkinum mömmu og pabba – ásamt Vigga, á Jómfrúna. Sú stund var dýrmæt og enn dýrmætari nú eftir að þú hefur kvatt okkur fyrir fullt og allt. Þegar við kvöddumst þann dag óraði mig ekki fyrir því að það væri okkar síðasta kveðjustund – þó að þú hafir ekki verið upp á þitt besta þá. Einlægt og traust faðmlagið finn ég enn – eins og verið hafi í gær.

Elsku Halli Palli, ég kveð þig með miklum söknuði og skarðið sem þú skilur eftir í fjölskyldunni er stórt. En minningarnar eiga eftir að ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð. Þú varst einstakur maður og frændi.

Elsku Gugga, Halldór, Ómar, Nonni, Þröstur og fjölskyldur, ég bið góðan Guð að gefa ykkur allan sinn styrk til að takast á við þessa erfiðu stund.

Takk fyrir allt.

Þinn einlægur systursonur,

Tómas Bolli Hafþórsson.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Elsku Gugga og fjölskylda.

Við þökkum ævarandi vináttu og biðjum Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Karl Reynir og Unnur.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju Þórhall Pál Halldórsson. Með honum er genginn góður vinur og samferðamaður. Það er margs að minnast frá samvistum okkar á Eiði á Seltjarnarnesi en þar bjuggum við nokkrar fjölskyldur saman í áratugi og var sambúðin þar eins og lítil kommúna þar sem öll börnin ólust upp saman og voru öll sem eitt.

Ýmislegt var brallað á þessum árum á Nesinu og eru prakkarastrik Halla Palla enn mörgum okkar minnisstæð enda var hann skemmtilega stríðinn.

Halli Palli var einstaklega þægilegur, hlýr og vinalegur og hafði til að bera mikinn húmor. Hann var gæfumaður í sínu einkalífi þar sem þau hjón, Halli og eiginkona hans Gugga, stóðu saman sem ein persóna á lífsgöngunni og eins hefur verið aðdáunarvert að sjá samheldni og vináttu systkina Halla og Guggu. Það var gott að eiga Halla Palla sem vin og samferðamann. Með honum er nú fallinn frá einn þessara traustu og vönduðu manna og er hans sárt saknað.

Við fjölskyldan vottum Guggu, börnunum og fjölskyldunni innilega samúð á þessari sorgarstundu og vonum að minningin um góðan mann verði þeim huggun í harmi. Við óskum Halla Palla blessunar Guðs.

Guðrún Eyjólfsdóttir (Dúna) og fjölskylda.

Kveðja frá Strætókórnum

Í dag verður Þórhallur Páll Halldórsson borinn til grafar. Ég kynntist Þórhalli, eða Halla Palla eins og hann var ávallt kallaður, fyrir um 45 árum þegar ég hóf störf hjá SVR. Hann byrjaði að læra bifvélavirkjun hjá SVR árið 1965. Hann vann hjá Landsímanum um skeið við að leggja síma á sveitabæi. Einhvern smátíma var hann með vörubíl, en byrjaði aftur hjá SVR í mars 1969 og vann þar þangað til hann lét af störfum árið 2015. Halli Palli ók strætisvögnum og þá lengst leið 3 Nes-Háaleiti. Síðar varð hann vaktformaður og svo eftirlitsmaður til margra ára. Hann var mjög vel liðinn bæði af samstarfsmönnum svo og farþegum. Einstaklega hjálplegur og ljúfur maður í alla staði. Ég kynntist honum mjög vel, við ókum á sömu vakt lengi. Í sept. 1983 þegar við vorum að spjalla saman spurði hann hvort ég vildi ekki koma í Strætókórinn, en kórinn var að byrja vetrarstarfið það haustið. Ég sagði já, en mætti ekki. Hann hringdi svo í mig kl. 20 og spurði af hverju ég væri ekki mættur. Það var fátt um svör og hann sagði, sé þig eftir 10 mínútur. Ég gat ekki annað en mætt, og er enn í kórnum. Þá var kórinn 12 manna. Hann gaf sér alltaf tíma til að tala við menn, aldrei neinn æsingur eða hroki, ávallt var viðkvæðið elsku drengurinn minn.

Við erum búnir að eiga ótal margar samverustundir í gegnum kórstarfið, bæði utanlands sem og hér innanlands. Hann var búinn að glíma við veikindi í rúmt ár en þar sem söngur var hans yndi mætti hann á æfingar þótt heilsan væri ekki góð. Það var aðdáunarvert að sjá hann á sínum stað í röðinni og syngja með okkur, nú síðast fyrir hálfum mánuði.

Elsku Halli, hafðu þökk fyrir allt okkar samstarf. Elsku Gugga og fjölskylda, megi ljúfar minningar lifa um góðan mann.

Hvíl í friði,

Guðmundur Sigurjónsson formaður.

Skjótt getur úr tímaglasinu runnið. Þórhallur bjó lengst af við góða heilsu, styrkur fjölskyldufaðir og afburða starfsmaður. Þurfti að stríða í rúmt ár við veikindi, sem hann tókst á við með reisn til lokadags.

Þórhalls er minnst sem kröftugs vinnufélaga. Hann var starfsmaður SVR og Strætó frá 1958-1961 og svo frá 1969 til 2015. Verkefnin voru mörg og fjölbreytileg. Í huga koma góðar minningar. Þórhallur gegndi óvenju mörgum hlutverkum innan þjónustu strætisvagna. Hóf störf á verkstæði vagnanna, svo vagnstjóri, síðan stjórnandi akstursdeildar og farþegaþjónustu um langt árabil og síðast við umsjón biðstöðva. Hann var trúnaðarmaður starfsmanna um tíma. Var virkur í félagi starfsmanna og burðarás í Strætókórnum sem var honum kær.

Þórhallur var stjórnsamur, lét sig varða framgang þjónustu vagnanna og gat verið fylginn sér. Þó ætíð skammt í prúðmennsku og lipurð. Rætur hans lágu djúpt í þjónustu strætó, faðir hans var vagnstjóri, bróðir hans er vagnstjóri og fleiri úr fjölskyldunni störfuðu hjá fyrirtækinu. Þórhallur tók ríkan þátt í verkefnum Strætó um langt skeið og lét sig framgang þeirra varða. Hann var lipur í mannlegum samskiptum og átti fjölda vina og kunningja. Veitti stuðning ef starfsfélagar mættu mótbyr á lífsins vegi.

Við fyrstu kynni varð ljóst að eiginkonan, börnin og stórfjölskyldan voru ætíð í huga hans þrátt fyrir miklar annir og langan vinnudag á köflum. Fjölskylda hans er óvenju samstæð, sterk og umhyggjusöm.

Við þessi tímamót er efst í huga þakklæti fyrir kynni við Þórhall og að hafa fengið að eiga með honum samleið. Honum fylgja hlýjar hugsanir. Megi hann í friði fara og virðing ríkja um minningu hans.

Hörður Gíslason.

Fréttirnar um veikindi og síðar andlát Halla afa voru erfiðar. Halli afi og Gugga amma hafa alltaf gefið okkur ríkulega af tíma sínum í hverri Reykjavíkurferð og það er því skrítið að hugsa til þess að í næstu Íslandsferð verður afi ekki til staðar á Barðastöðum.

Hugur okkar er með elsku Guggu ömmu sem hefur staðið eins og hetja við hlið afa og við hugsum hlýtt til fjölskyldna Halldórs, Ómars, pabba og Þrastar á þessum erfiðu tímum. Um leið og við hörmum það að geta ekki verið með stórfjölskyldunni og ástvinum núna, þá sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að gefa ykkur öllum styrk. Afi barðist eins lengi og hann gat og eftir sitjum við hér sorgmædd en um leið þakklát fyrir kærleikann, hlýjuna, trúna, húmorinn og umhyggjuna sem hann sýndi okkur. Minningin um hjartahlýjan afa mun lifa með okkur svo lengi sem við erum á þessari jörðu. Hvíl í friði, elsku afi.

Kærleikskveðjur frá Noregi,

Guðný Helga,

Alexandra Líf og

Safír Steinn.