Sigurður Þorkell Árnason fæddist í Reykjavík 15.3. 1928 og ólst þar upp í foreldrahúsum við Framnesveginn í Vesturbænum.
Sigurður var í Miðbæjarbarnaskólanum, lauk prófi á mótoronámskeiði Fiskifélags Íslands 1947, fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1951, farmannaprófi frá sama skóla 1953 og skipstjóraprófi frá varðskipadeild sama skóla 1955.
Sigurður var 14 ára er hann fór fyrst til sjós: „Ég reri þá tvær vertíðir hjá Metúsalem Jónssyni, útvegsbónda á Stafnnesi, á trillu sem gekk fyrir bensínvél úr bifreið, en við vorum á færi og línuveiðum.“
Sigurður var síðan háseti á varðskipum ríkisins og síðan á gamla Drangajökli til 1953, var annar og fyrsti stýrimaður á varðskipunum Maríu Júlíu, Ægi I, Þór III og Sæbjörgu á árunum 1953-59.
Sigurður varð skipherra á Óðni II árið 1959 og varð síðan skipherra á öllum helstu varðskipum landhelgisgæslunnar og starfaði við allar deildir Gæslunnar. Þá var hann á flestum flugvélum og þyrlum Gæslunnar. Hann er auk þess eini núlifandi skipherra Landhelgisgæslunnar sem tók þátt í að verja útfærslu landhelginnar í fjórar mílur 1952, í 12 mílur 1959, í 50 mílur 1971 og í 200 mílur árið 1974. Hann var því skipherra í öllum þorskastríðunum, 1959, 1971 og 1974.
Var þetta ekki svolítið taugastrekkjandi að vera að klippa undan breskum togurum undir vernd breskra herskipa?
„Jú, minnstu ekki á það. Herskipin reyndu að smala togurunum í hópa og gæta síðan hjarðarinnar en þá tókum við auka hring, komumst oft inn á milli og náðum að klippa á togvírana. Herskipin gengu meira en íslensku varðskipin en við vorum yfirleitt mun liprari. Klippurnar urðu mikilvægt vopn sem reyndi á þolrif þeirra bresku. Reyndar man ég ekki hvað við klipptum á marga togara, en þetta virkaði í baráttunni.“
Sigurður var sæmdur ensku OBE-orðunni fyrir björgun skipshafnar af enska togaranum Nott County 1974, sem strandaði við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi í febrúar 1968, en þá var Sigurður skipherra á Óðni. Hann var sæmdur orðu frá bandaríska sjóhernum, er riddari af den Kongelige Norske Olavs Orden fyrir landhelgisstörf 1976, var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir landhelgisstörf 1976 og fjölda annarra viðurkenninga.
Sigurður kom í land árið 1990: „Ég starfaði síðan við laxveiðieftirlit, við útibú Landsbankans í Háskólabíói og loks við Háskólabíó. En nú dútla ég við það að halda húsinu okkar við milli þess sem ég fer og hitti gamla félaga úr Gæslunni, tvisvar til þrisvar í mánuði. Það er ómissandi að hitta þessar gömlu kempur og rifja upp gömul ævintýri. Þar er af nógu að taka.“
Fjölskylda
Eiginkona Sigurðar er Halldóra Edda Jónsdóttir, f. 8.7. 1933, húsfreyja. Foreldrar hennar voru Jón Ottó Magnússon, f. 6.10. 1887, d. 4.3. 1938, skipstjóri í Hafnarfirði, og k.h., Margrét Magnúsdóttir, f. 27.3. 1906, d. 23.11. 1971, húsfreyja í Hafnarfirði, Bíldudal og í Reykjavík.Börn Sigurðar og Eddu eru Jón Viðar, f. 21.6. 1958, prófessor í Ósló, en kona hans er Katrín Dóra Valdimarsdóttir ráðgjafi; Steinunn Erla, f. 18.3. 1960, hönnuður í Reykjavík, en maður hennar er Páll Hjalti Hjaltason arkitekt, og Magnús Viðar, f. 6.1. 1966, kvikmyndaframleiðandi í Reykjavík en kona hans er Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.
Sonur Sigurðar frá því áður, og Elsu Þorvaldsdóttur, f. 24.11. 1927, húsfreyju, er Þorvaldur Sigurðsson, f. 30.9. 1951, forstjóri í Reykjavík, en kona hans er Herdís Ástráðsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Systkini Sigurðar: Magnús Vilhelm Árnason, f. 11.3. 1922, d. 19.11. 1971, verkamaður í Reykjavík; Anna Rósalilja Árnadóttir, f. 6.7. 1923, d. 20.2. 1996, iðnaðarmaður í Hafnarfirði; Eyjólfur Árnason, f. 11.12. 1924, d. 9.8. 2008, skipstjóri og starfaði síðar við álverið í Straumsvík; Ásdís Árnadóttir, f. 6.11. 1926, d. 15.1. 1986, húsfreyja í Reykjavík, og Sigurbergur Árnason, f. 25.11. 1930, d. 11.11. 2008, iðnfræðingur í Reykjavík.
Foreldrar Sigurðar voru Árni Steindór Þorkelsson, f. 24.6. 1888, d. 17.7. 1932, skipstjóri í Reykjavík, og k.h. Steinunn Sigríður Magnúsdóttir, f. 27.8. 1898, d. 7.12. 1971, húsfreyja í Reykjavík.