Lokun Ekki var hægt að halda starfseminni uppi að fullu.
Lokun Ekki var hægt að halda starfseminni uppi að fullu. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Arnar Þór Ingólfsson athi@mbl.is Loka þurfti fæðingardeild og nokkrum hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ í gær vegna vatnsleka, sem Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir að rekja megi til mannlegra mistaka verktaka.

Arnar Þór Ingólfsson

athi@mbl.is

Loka þurfti fæðingardeild og nokkrum hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ í gær vegna vatnsleka, sem Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir að rekja megi til mannlegra mistaka verktaka. Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að taka húsnæðið aftur í notkun en það verður skoðað í dag.

Verið er að endurnýja þakjárn á hluta húsnæðisins og var frágangurinn ekki nógu góður sem olli því að töluvert regnvatn lak inn í húsnæðið í gær. Tryggingaaðilar mættu á svæðið síðdegis og tóku út mögulegt tjón.

„Í augnablikinu er þetta rými ekki brúklegt en það verður bara skoðað betur í fyrramálið,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Ég held að ég geti nú bara sagt það beint út að það var ekki staðið að þessu eins og hefði átt að gera. Það var búið að rífa og opna ákveðna hluti sem er nú kannski ekki skynsamlegt að standa að eins og gert var á þessu landsvæði, alveg sama hvernig spáir. Svo er viðkvæm starfsemi undir, það er ekki eins og þetta sé bara einhver geymsla,“ segir Halldór.

Vatnslekinn hafði ekki teljandi áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Engin fæðing var fram undan og þeir sjúklingar sem lágu inni í hvíldar- og endurhæfingarrýmum voru fluttir yfir á legudeild sjúkrahússins.