Kattarauga Svæðið er lítið og þolir illa mikinn ágang ferðafólks. Náttúruvættið er þó ekki í hættu af þeim sökum.
Kattarauga Svæðið er lítið og þolir illa mikinn ágang ferðafólks. Náttúruvættið er þó ekki í hættu af þeim sökum. — Ljósmynd/Kristín Ósk Jónasdóttir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Unnið er að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Kattarauga í Vatnsdal. Drög hafa verið lögð fram til kynningar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Unnið er að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Kattarauga í Vatnsdal. Drög hafa verið lögð fram til kynningar. Ekki er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum á svæðinu, aðeins sett upp nýtt upplýsingaskilti og göngustígar afmarkaðir.

Glittir í auga kattarins

Kattarauga er alldjúp tjörn í landi Kornsár 2 í Vatnsdal. Í henni eru tveir fljótandi gróðurhólmar sem rekur undan veðri og vindi. Í botni tjarnarinnar er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjartur dagur. Af því dregur tjörnin nafn sitt.

Náttúruvættið var friðlýst árið 1975. Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að það sé á verksviði stofnunarinnar að vinna stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði. Hún segir að Kattarauga sé lítið og mjög viðkvæmt svæði. Ekki er vitað hversu margir ferðamenn leggja leið sína þangað. Svæðið er ekki á rauðum lista Umhverfisstofnunar en Ingibjörg segir að það sé engu að síður mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Stjórnunar- og verndaráætlunin gildir til tíu ára og henni fylgir aðgerðaáætlun til fimm ára.

Í aðgerðaáætluninni er kveðið á um eftirlit Umhverfisstofnunar með svæðinu og þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru. Gert er ráð fyrir að komið verði fyrir nýju upplýsingaskilti við náttúruvættið á vormánuðum. Þá er fyrirhugað að setja upp lágar stikur með köðlum meðfram göngustígnum umhverfis tjörnina.

Tekið við athugasemdum

Umhverfisstofnun vann drög að verndaráætlun í samvinnu við fulltrúa Húnavatnshrepps og eiganda landsins. Áætlunin hefur verið auglýst til umsagnar og athugasemda. Hægt er að gera athugasemdir á heimasíðu Umhverfisstofnunar fyrir 23. þessa mánaðar. Áætlunin verður síðan send til umhverfisráðherra til staðfestingar.