Öflug Borgnesingurinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sækir að körfu Breiðabliks en hún skoraði 13 stig fyrir Skallagrím í sigrinum mikilvæga í gær.
Öflug Borgnesingurinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sækir að körfu Breiðabliks en hún skoraði 13 stig fyrir Skallagrím í sigrinum mikilvæga í gær. — Morgunblaðið/Hari
Skallagrímur komst skrefi nær því að ná síðasta sætinu í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöld.

Skallagrímur komst skrefi nær því að ná síðasta sætinu í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöld. Skallagrímskonur gerðu endanlega út um vonir nýliða Breiðabliks um að komast í úrslitakeppnina með því að vinna leik liðanna í Kópavogi 85:65.

Á sama tíma tapaði Stjarnan fyrir Keflavík suður með sjó, 81:78. Þar með eru Stjarnan og Skallagrímur jöfn að stigum í 4.-5. sæti, og ljóst að spennandi barátta er fram undan á milli þessara tveggja liða í síðustu þremur umferðunum. Þau mætast í Borgarnesi í næstsíðustu umferð, en Skallagrímur hefur unnið tvo af þremur leikjum þeirra hingað til, samtals með stigamuninum +5. Stjarnan á einnig eftir leiki við Snæfell og Val, en Skallagrímur leiki við Íslandsmeistara Keflavíkur og nýkrýnda deildarmeistara Hauka.

Keflavík var 14 stigum undir gegn Stjörnunni í gær, 52:38, um miðjan þriðja leikhluta. Stjarnan var jafnframt yfir, 78:76, þegar fjórar mínútur lifðu leiks en þá skellti Keflavíkurvörnin í lás og gestirnir skoruðu ekki fleiri stig. Með sigrinum komst Keflavík upp að hlið Vals í 2.-3. sæti, en Valur er ofar vegna innbyrðis leikja liðanna í vetur. Brittany Dinkins skoraði 31 stig, átti 10 stoðsendingar og tók átta fráköst fyrir Keflavík í gær, og Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 24 stig og tók 10 fráköst. Danielle Rodriguez var með 30 stig fyrir Stjörnuna, gaf 15 stoðsendingar og tók átta fráköst.

Í þriðja leik gærkvöldsins vann Snæfell sigur á Njarðvík, 84:71. Snæfell er því jafn Breiðabliki að stigum í 6.-7. sæti en Njarðvík er eftir sem áður stigalaus og fallin niður í 1. deild. sindris@mbl.is