Jón Örn Friðriksson
Jón Örn Friðriksson
Eftir Jón Örn Friðriksson: "Krabbamein í blöðruhálskirtli er vanalega hægvaxandi og hefur yfirleitt hvorki áhrif á lífslengd né lífsgæði."

Krabbamein í blöðruhálskirtli er vanalega hægvaxandi og hefur yfirleitt hvorki áhrif á lífslengd né lífsgæði. Flestir deyja því með krabbameinið en ekki af völdum þess. En meinið getur í sumum tilfellum verið ágengt, valdið einkennum, stytt líf og rýrt lífsgæði. Mikilvægt er að greina þau krabbamein sem krefjast meðferðar. Á sama tíma er mikilvægt að veita þeim karlmönnum ráðgjöf og stuðning sem greinast en þarfnast ekki meðferðar.

Blöðruhálskirtillinn gegnir mjög afmörkuðu hlutverki og er í raun óþarfur séu frekari barneignir ekki fyrirhugaðar. Kirtillinn myndar basískan hluta sæðisvökvans sem hlutleysir súrt umhverfið í leggöngum kvenna. Þetta getur lengt líf sáðfrumna og aukið líkur á getnaði. Kirtillinn stækkar oft með hækkandi aldri, getur þrengt að þvagrásinni sem liggur í gegnum kirtilinn og leitt til þvagtregðu.

Meðferð og fylgikvillar

Þrátt fyrir þróun í aðgerðartækni og geislameðferðum geta aukaverkanir sem rýra mjög lífsgæði karlmanna fylgt meðferð á krabbameini í blöðruhálskirtli. Kirtillinn liggur djúpt í grindarholinu í mikilli nálægð við þéttriðið net fíngerðra tauga sem eru nauðsynlegar fyrir holdris. Sömuleiðis liggur neðri hluti kirtilsins við hringvöðva sem kemur í veg fyrir þvagleka. Vöðvinn og ristaugarnar geta skaddast við meðferð og valdið einkennum á borð við stinningarvandamál og þvagleka. Meðferðin gagnast sumum karlmönnum sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli. Í þeim tilfellum er áhætta á fylgikvillum metin ásættanleg.

PSA-próf

PSA er glýkóprótein sem myndast í blöðruhálskirtlinum og fer að hluta út í blóðrásina. PSA-gildi í blóðsýni er lágt við eðlilegar aðstæður en hækkun getur verið vísbending um sjúkdóm í kirtlinum.

PSA-skimunarprófið er ekki gallalaust. Frískir karlmenn geta verið með hækkað PSA og menn með krabbamein í kirtlinum geta verið með eðlilegt PSA-gildi. Þessi staðreynd takmarkar notagildi PSA sem skimunarprófs. Enn fremur er PSA-gildið eitt og sér ekki nægjanlegt til að greina krabbameinið eða meta hve alvarlegt það er.

Vefjasýni frá blöðruhálskirtli

Þegar grunur er um krabbamein í blöðruhálskirtli, t.d. ef PSA-gildið er hækkað eða ef æxlisgrunsamlegir hnútar greinast við þreifingu um endaþarm, er næsta skref að taka vefjasýni frá kirtlinum. Þá eru notaðar grannar nálar til að fá sýni frá blöðruhálskirtlinum. Sýnin eru tekin ómstýrt um endaþarm. Í smásjá sést hvort æxlisfrumur leynast í kirtlinum og hve illvígar þær eru. Þetta inngrip er einfalt og nauðsynlegt til að staðfesta greininguna og meta stig krabbameinsins. Aukaverkanir eru óþægindi og jafnvel sársauki við sýnatökuna. Venjulega sést blóð í þvagi, hægðum og sæðisvökva í nokkra daga eða vikur á eftir. Alvarlegir fylgikvillar við inngripið eru sjaldgæfir.

Segulómskoðun af blöðruhálskirtli

Rannsóknir sýna að hver vefjasýnataka frá blöðruhálskirtli greinir um helming marktækra krabbameina í kirtlinum. Venjulega er mælt með tveimur sýnatökum ef sú fyrsta sýnir ekki fram á krabbamein. Við það eykst næmi greiningarinnar og greinast þá um þrjú af fjórum marktækum krabbameinum í kirtlinum.

Til að auka næmi vefjasýnatökunnar er víða notuð segulómskoðun af blöðruhálskirtlinum fyrir sýnatökuna. Sjáist breytingar í kirtlinum er miðað á þau svæði. Rannsóknir hafa sýnt að þessi aðferð fækkar sýnatökum, fleiri marktæk krabbamein greinast og á sama tíma greinast ekki mein sem ekki þarfnast meðferðar. Flókið getur verið að meta breytingar á segulómmyndum og þarf vel þjálfaða sérfræðinga til að meta myndirnar. Enn fremur er segulómskoðun dýr rannsókn og biðlistar geta verið langir sem takmarkar notkunarmöguleika.

Mottumars og ráðgjöf

Mottumars, árlegt árvekniátak Krabbameinsfélagsins í marsmánuði, beinist að þessu sinni að krabbameini í blöðruhálskirtli. Unnið er að þróun gagnvirks tækis sem ætlað er sem stuðningur fyrir sjúklinga og lækna þegar kostir og gallar PSA-skimunar eru ræddir. Einnig er vert að minna á að fagfólk hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins veitir upplýsingar og ráðgjöf í Skógarhlíð 8 í Reykjavík alla virka daga og símatími er á milli kl. 13 og 15 í síma 800 4040. Nánari upplýsingar um þjónustuna og námskeið er að finna á krabb.is.

Höfundur er þvagfæraskurðlæknir við sjúkrahúsið á Akureyri, LSH og Krabbameinsskrá Íslands. jonorn@krabb.is

Höf.: Jón Örn Friðriksson