Auðvitað förum við sigurreif á HM. Við eigum það þegar inni

Það er gott að láta sig dreyma. Og þá er átt við vökudrauma, sem hægt er að hafa dálitla stjórn á. Hinir draumarnir, þessir sem sækja að mönnum að óvörum að næturþeli, fara sínar eigin leiðir, eru óútreiknanlegri en Trump og stundum er ekki heil brú í þeim. Þeir eiga það til að enda í svitabaði og jafnvel martröð þegar verst tekst til. Börnin hlakka til afmælisins og jólanna. Þeir sem eldri eru láta sér stundum nægja að hlakka til helgarinnar. Tilhlökkunin er oftast einstaklingsbundin. En hitt er til að gert sé þjóðarátak í dagdraumum. Og þá er ákveðin hætta á að þjóðin vakni öll í einu í svitabaði eftir martröð.

Nú fá allir áfallahjálp ef eitthvað bregður út af og er sú tíska komin að ystu mörkum þótt góð sé. En spyrja má hvort ekki sé til eitthvað sem kalla mætti „fyrirbyggjandi áfallahjálp“. Sé það ekki til má sjálfsagt finna hana upp. Þetta er nefnt vegna þess tilhlökkunar- og vonarefnis sem nú er uppi á eyjunni. Það er heimsmeistarakeppnin í fótbolta í landi Pútíns. Tilefni hugleiðinganna eru orð hins ágæta formanns KSÍ. Til þeirra var vitnað í viðtali:

„Guðni Bergsson, formaður KSÍ, er bjartsýnn á að íslenska landsliðið í knattspyrnu geti endurtekið árangurinn frá því á EM fyrir tveimur árum og komist upp úr riðlinum á HM í Rússlandi í sumar.

Ísland komst í 8-liða úrslit á Evrópumótinu eftir sigur á Englendingum í 16-liða úrslitunum en í 8-liða úrslitunum töpuðu Íslendingar fyrir Frökkum.

„Við erum í mjög erfiðum riðli en fyrir tveimur árum komum við öllu fótboltasamfélaginu á óvart með frammistöðunni á Evrópumótinu í Frakklandi og nú erum við tilbúnir að endurtaka leikinn.“

Það er fínt hjá Guðna að tala menn upp í stuð. En gæti ekki fyrirbyggjandi áfallahjálpin fylgt með og falist í því að líta svo á að sigur okkar sé þegar í höfn. Hann fékkst með því að íslenska liðið náði þvert á allar spár að komast á EM og fá þennan fína árangur þar og svo einnig inn á HM, sem enginn heilvita maður gerði ráð fyrir og er þá íslenska þjóðin talin frá. Allt til viðbótar því afreki er sem sagt ótrúlegur bónus sem við munum auðvitað fagna ógurlega þegar og ef liðið lendir einu sinni eða oftar í lukkupotti á HM.

Við vitum öll að þó að liðið sé frábært má ekki mikið út af bera. Þannig fékk nánast öll þjóðin í hnén þegar fréttir bárust um brothætt hné Gylfa Sigurðssonar. Var þá þegar tekinn út dálítill snertur af áfallahjálp.

Þegar við höfum öll gert okkur grein fyrir því að landsliðið fer á HM sem sigurvegari og hvað sem gerist kemur það til baka sem sannur sigurvegari getur fátt sett okkur út af laginu.

En við getum auðvitað gengið áfram með dálítið óraunhæfar væntingar í maganum, ef við gætum þess að fara vel með þær.