Már Magnússon fæddist 27. desember 1943 í Reykjavík. Hann lést á sjúkrahúsi í Frankfurt am Main í Þýskalandi 13. febrúar 2018 eftir stutt veikindi.

Móðir Más var Sigríður Guðlaug Björnsdóttir, f. 11. maí 1924, d. 9. júlí 2001. Faðir Más var Magnús Ólafur Valdimarsson, f. 6. janúar 1925, d. 7. október 1999. Uppeldismóðir Más var móðuramma hans, Kristín Guðmundsdóttir, f. 1. janúar 1897, d. 1. október 1986.

Systkini Más eru Nanna Ingvadóttir, f. 1946, Sigurður Gunnar Magnússon, f. 1948, d. 1969, og Katrín Edda Magnúsdóttir, f. 1956. Uppeldisbróðir hans var Sigurður Benedikt Klemenzson, f. 1935.

Már kvæntist Sigríði Ellu Magnúsdóttur 1972 og skildu þau 1976. Hann kvæntist næst Anete Blakenburg 1978 og skildu þau 1984. Hann kvæntist Sigríði Soffíu Gunnarsdóttur 1986 og skildu þau 2006. Synir þeirra eru 1) Gunnar Karel, f. 1984, í sambúð með Agnesi Guðjónsdóttur, f. 1983, börn þeirra eru Ilmur, f. 2010, Urður, f. 2013, og Embla, f. 2018. 2) Mímir, f. 1988, í sambúð með Elin Josefine Widerdal, f. 1987. Frá árinu 2007 var hann í sambandi með Silke Schrom, f. 1964.

Már ólst upp í Reykjavík og hélt eftir stúdentspróf til Vínarborgar og bjó þar frá 1963 til 1977. Hann var svo búsettur fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, en einnig í Bandaríkjunum, Akureyri og Danmörku.

Már vann aðallega við söng og söngkennslu frá árinu 1977, en einnig fékkst hann við leiðsögumennsku og þýðingar.

Útför Más fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. mars 2018, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Leiðinlegt hvað það var langt síðan við hittumst síðast. Ég sakna þess að spjalla við þig. Sjáumst.

Lóan sem söng fyrir norðan

flaug vestur, og austur

hringsólandi borðann

endilangan.

Róin ómaði í gegnum gluggann.

Ég sat og horfði út í nóttina

sem þú reiðst á

til tunglsins.

Mímir Másson.

Elsku besti pabbi minn.

Leiðinlegt að hafa ekki náð að kveðja þig almennilega þar sem þetta gerðist allt frekar skyndilega. Þú varst alveg frábær pabbi og afi, og minn besti vinur. Alltaf gat ég átt með þér djúpar samræður um nánast hvað sem er, og mun ég sakna þess að geta spjallað við þig um heima og geima.

Ég veit að þú varst stoltur af mér, rétt eins og ég var ótrúlega stoltur af þér. Þegar ég fékk fréttirnar af því að þú hafðir kvatt þennan heim, birtist mér þetta ljóð sem ég tileinka þér.

ég ber harm í brjósti í hljóði

því þú horfinn mér úr augsýn ert

geymi þig ávallt í hjarta mínu

og sérstakan stað í hugskotum mínum bý ég þér.

ég ber harm í brjósti í hljóði

gæfan mig bar í arma þér

fótspor þín leiða mig áfram

því þú tróðst stíginn á undan mér.

ég ber harm í brjósti í hljóði

enginn mun koma í stað þín

því þú varst minn klettur og bjargfesti

ég vil ei trúa því að þú farinn ert.

Takk fyrir allar góðu stundirnar og ég mun alltaf sakna þín.

Gunnar Karel.

Það er komið að kveðjustund. Í hugum okkar bekkjarsystkina Más Magnússonar í Menntaskólanum í Reykjavík veturna 1959-1963 lifa minningabrot, sum heilleg, önnur slitrótt, en öll ljúf og gleðileg. Í dag eru þau ljúfsár.

Már var bráðþroska unglingur, skólasystkini hans frá Núpi í Dýrafirði minnast þess að hann var fullorðinslegur en glaðsinna, fróður og menningarlega sinnaður. Heimsmaður. Nemendaherbergin á Núpi höfðu hvert sitt heiti, Már var í Lávarðadeildinni. Þannig var hann öll menntaskólaárin, hann fór sína eigin leið, stundaði tónlistarnám, söng í Pólýfónkórnum meðan við hin fórum í bíó, las mikið og var snemma fjölfróður. Okkur fannst að honum mundu allir vegir færir. Fyrstu árin eftir stúdentspróf lagði Már stund á landafræði, þjóðháttafræði og málfræði, fyrst við Háskóla Íslands en seinna í Vínarborg, háborg tónlistarinnar. Þar var þess ekki langt að bíða, að tónlistin fangaði hug hans, og meginhluta ævinnar fékkst Már við tónlist, söng og söngkennslu. Einnig starfaði hann sem leiðsögumaður, og við erum þess fullviss, að í ferðum hans hefur aldrei verið leiðinlegt.

Undanfarin ár höfum við bekkjarbræður úr MR komið saman reglulega til skrafs og skemmtunar, og Már hefur verið hluti af þessu litla samfélagi. Eftir síðasta fundarboð í febrúar kom glaðvært skeyti frá Má, en hann dvaldist þá um sinn í Þýskalandi, hann hlakkaði til næsta fundar og við færðum dagsetninguna til svo að hann yrði kominn heim. Nú hefur hann vitjað annarra heimkynna, en við þökkum honum fyrir samfylgdina og vottum ástvinum hans, ættingjum og aðstandendum dýpstu samúð.

Fyrir hönd bekkjarsystkina í D-bekk Menntaskólans í Reykjavík 1960-1963,

Jón Eiríksson.