Bergþór og Albert eru glæsilegir saman og eiga ekki erfitt með að finna góðar leiðir til að gera veislur skemmtilegar.
Bergþór og Albert eru glæsilegir saman og eiga ekki erfitt með að finna góðar leiðir til að gera veislur skemmtilegar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergþór Pálsson óperusöngvari og Albert Eiríksson, matgæðingur og athafnamaður, taka elskulega á móti blaðamanni á fallegu heimili sínu á Lindargötu þar sem ætlunin er að ræða framkomu, mannasiði, líflegt andrúmsloft og...
Bergþór Pálsson óperusöngvari og Albert Eiríksson , matgæðingur og athafnamaður, taka elskulega á móti blaðamanni á fallegu heimili sínu á Lindargötu þar sem ætlunin er að ræða framkomu, mannasiði, líflegt andrúmsloft og brauðtertur í tengslum við fermingarveisluna. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Viðmót þeirra Bergþórs og Alberts er einstakt, það er allt í senn elskulegt og hlýtt en einnig fullt af sannleika og auðmýkt. Við byrjum strax að ræða um konuna sem afhenti gjöfina í fermingarveislunni, fékk sér að borða og fór heim.

„Sagan um konuna sem afhenti gjöfina og fékk mat í staðinn er svo dýrmæt, þar sem inntakið snýst einmitt um hversu miklu máli andrúmsloftið, viðmót og elskulegheit skipta. Við höfum öll þörf fyrir að vera í innilegum samskiptum, og ef við erum að fara í fermingarveislu, þá viljum við kynnast fermingarbarninu, fjölskyldu þess og gestum, sem getur verið áskorun þegar um stóra veislu er að ræða,“ segir Bergþór.

Þar sem gleðin ræður ríkjum

„Þð skiptir svo miklu máli að fermingarbarnið sé haft með í ráðum frá upphafi, að við það sé rædd fjárhagsáætlun veislunnar, hverju fjölskyldan hefur efni á og svo sé valið hvaða leiðir skuli farnar. Þannig átta allir sig á fjárfestingunni sem verið er að fara í og ákveðin virðing skapast fyrir verkefninu,“ segir Bergþór. Þeir eru sammála um að hóf sé best í þessu sem og öðru en fermingarveislan sé frábært tækifæri fyrir börn að stíga inn í fullorðinna manna tölu. „Þarna getur barnið fengið tækifæri á að taka þátt í að vera gestgjafi. En fermingarbarnið þarf þjálfun og það gerist ekki bara daginn fyrir veisluna. Við höfum mjög oft séð fermingabörn gera þetta vel. En þau eru ekki öll gerð fyrir slík hlutverk og þá er bara um að gera að leyfa þeim börnum að taka samtalið, maður á mann,“ segir Bergþór.

Að skilja ekki persónuleikann eftir við útidyrnar

Hvað um andrúmsloftið í veislunni? Nú hafið þið sérstakt lag á því að halda veislur og ég man sérstaklega eitt skiptið þar sem þið fönguðuð athygli allra gesta frá upphafi til enda, ég man varla eftir að neinn hafi tekið upp símann, sem er sérstakt í dag?

„Já, það eru leiðir til að gera þetta vel eins og aðra hluti. Til að byrja með er hægt að biðja fólk fallega að taka hringingu af símum sínum, en mæla sérstaklega með að þeir sem eru með börn í pössun o.s.frv. hafi bara titrarann á. Með þessu ertu að koma því fallega til skila að það sé að fara að hefjast dagskrá sem krefst áhuga okkar og athygli,“ segir Albert. Bergþór bætir við. „En það verður að gera allt svona fallega, ekki viljum við að fólk fái það að tilfinninguna að það þurfi að skilja persónuleikann sinn eftir við útidyrnar. Við viljum hafa létt og skemmtilegt andrúmsloft þar sem allir fá að njóta sín.“

Að mati Alberts er mikilvægt þegar kemur að fermingarveislunni að sjálfu fermingarbarninu líði vel. „Mér finnst að fermingarbarnið verði að þekkja þá sem eru í veislunni eða að fá kynningu á því hverjir eru á staðnum. Svo er góð aðferð að nota ísbrjóta í veislunni, fjöldasöng eða hreyfileika sem hristir fólk saman og fær athygli allra.“

Reisa sér ekki hurðarás um öxl

Hvaða ráð eigið þið fyrir okkur sem lendum ávallt í því að ná rétt að gera hreint heimilið og útbúa veitingar fyrir veislu, án þess að ná að leiða hugann að skipulagi skemmtiatriða eða andrúmsloftinu? „Lykillinn fyrir veislur er að reisa sér aldrei hurðarás um öxl. Að ætla sér ekki eitthvað sem er ekki framkvæmanlegt. Það er allt í lagi að bjóða bara upp á eina góða súpu og gefa sér svo tíma fyrir hitt. Veitingar eru einungis lítill hluti af veislunni. Við þurfum að hafa það hugfast,“ segir Bergþór.

Þegar kemur að borðsiðum eru þeir sammála um að Íslendingar séu til fyrirmyndar í því eins og öðru, en mikilvægt sé að þekkja til grundvallaratriða þegar kemur að borðsiðum til að vera frjáls við hin ýmsu tækifæri.

Að lokum benda þeir Bergþór og Albert á að það skiptir máli að efla sjálfsvirðingu fermingarbarna fyrir svona stóra veislu. „Að byggja barnið upp í að gera veisluna sem það dreymir um. Standa með barninu og ekki láta það gera það sem það ræður ekki við. Fjölskyldan þarf að standa saman og gera hlutina í kærleika,“ segja þeir að lokum.

Höf.: Bergþór Pálsson , Albert Eiríksson