Hörn Sigurðardóttir fæddist 3. desember 1922. Hún lést 4. mars 2018.

Hörn var jarðsungin 13. mars 2018.

Elsku Hadda amma er farin frá okkur. Nú fær hún hvíldina sem hún á skilið. Amma var mögnuð kona en ég kunni ekki að meta það fyrr en ég komst á fullorðinsaldur. Ég skildi til dæmis ekki þegar ég var unglingur þegar hún spurði mig hverra manna vinur minn væri. Ég hafði bara ekki hugmynd um það og hafði aldrei velt því fyrir mér.

Hún bar hag allra sinna afkomenda fyrir brjósti fram til enda, vissi hvað allir voru að gera og spurði um hagi okkar þegar við komum í heimsókn og hvernig hefði gengið síðan síðast. Fyrir henni var eðlilegt að spyrja hverra manna einhver væri, það var ein af þessum spurningum sem hún spurði til að fylgjast með fólkinu sínu.

Nú ylja ég mér við minningar um ömmu. Öll skiptin sem hún dró fram bókina þar sem hún safnaði saman úrklippum, ljósmyndum og teikningum eftir barnabörnin og barnabarnabörnin. Í bókinni var að finna kvæði sem ég orti sennilega 8-9-10 ára gömul í eitt af þessum skiptum þar sem ég fékk að gista í græna sófanum inni í stofu á Víðimelnum.

Stundum dró hún fram bókina til að sýna mér, stundum bað ég hana að finna bókina að sýna mér og stundum bað ég hana að finna bókina og sýna stelpunum mínum.

Ég fæ mér kakómalt og tekex með osti og hugsa um þig, amma mín, og kvæðið og öndina.

Erla Stefánsdóttir.

Elsku amma mín er látin. Hún var yndisleg kona og ég á eftir að sakna hennar mjög mikið. Amma var mjög sterk kona sem vissi alltaf hvað hún vildi og lét ekkert mótlæti stoppa sig.

Þegar ég var yngri var ég svo heppin að við fjölskyldan áttum heima nálægt ömmu og afa. Það er nokkuð á milli okkar systkinanna og þegar við vorum á þeim aldri að skólinn var í löngu fríi og lítið að gera þá fengum við oft að koma við hjá ömmu og afa. Þá fékk maður að hjálpa ömmu að brjóta saman þvott en af einhverri ástæðu fannst mér algjört ævintýri að fara niður í kjallara í þvottahúsið. Eins fengum við að hjálpa til í garðinum við að hreinsa beðin og skemmtilegast fannst mér að sópa innkeyrsluna og í eitt skipti fékk ég að mála hliðið sem var auðvitað æðislegt. Bakgarðurinn var líka einhvers konar ævintýrastaður sem ekki var hægt að fara inn í nema með því að opna dyrnar með lykli sem mér fannst alveg magnað. Eftir smá vinnu fengum við okkur oft tekex með smjöri og osti og síðan var raðað inn í litlu uppþvottavélina sem var geymd inni í skáp. Amma hafði gott lag á að gera þessa hversdagshluti spennandi og skemmtilega og hún hafði alltaf svo góða nærveru. Einnig man ég eftir að meðan afi var við skrifborðið sitt að leggja kapal sátum við amma við borðstofuborðið þar sem hún kenndi mér að leggja kapal. Þessi tími sem ég fékk með ömmu þegar ég var yngri er ómetanlegur og er ég afar þakklát fyrir hann.

Þegar ég varð eldri þá breyttust tímarnir sem við áttum saman og þykir mér alveg jafn vænt um þá. Mér fannst svo yndislegt hvað það skipti ömmu miklu máli að litlu stelpurnar mínar væru vel klæddar og þeim væri ekki kalt en hún hafði líka hugsað þannig um okkur systkinin þegar við vorum lítil.

Þegar eldri dóttir okkar fæddist vildum við að hún yrði skírð í höfuðið á sterkum konum og fékk hún nafnið Guðrún Hörn og þykir mér mjög vænt um nafnið hennar. Þegar ég fór að skrifa þessi minningarorð og Guðrún Hörn sat hjá mér og var að lesa sagði hún að amma Hadda hefði alltaf verið svo góð, góð við sig og okkur öll. Sagði hún að amma hefði líka alltaf átt súkkulaði uppi í skáp og hefði alltaf gefið sér með.

Þín verður sárt saknað og mun minning þín lifa.

Elsku amma mín, hvíl í friði.

Í dagsins önnum dreymdi mig

þinn djúpa frið, og svo varð nótt.

Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt,

þeim svefni enginn rænir þig.

En samt var nafn þitt nálægt mér

og nóttin full af söngvaklið

svo oft, og þetta auða svið

bar ætíð svip af þér.

Og þungur gnýr sem hrynji höf

mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:

Mín hljóða sorg og hlátur þinn,

sem hlutu sömu gröf.

(Steinn Steinarr.)

Jóhanna Kolbrún

Guðmundsdóttir.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa.)

Elsku Hadda amma er farin. Ein af fyrstu minningum mínum er að fara með ömmu í kaffi til konunnar sem bjó í kjallaranum á Víðimelnum. Þar fékk ég kaffi í gullbolla, eða eins ég kallaði hann gulla-bolla. Löngu eftir að konan í kjallaranum flutti var það föst venja að fá kaffi hjá ömmu, fyrst var auðvitað aðallega mjólk í bollanum með örlitlu kaffi rétt til að lita mjólkina en smám saman varð innihaldið dekkra. Amma gerði heimsins besta ristaða brauð með smjöri. Ég hef aldrei skilið hvernig, en það var bara þannig. Ég hef aldrei getað ristað brauð eins fullkomlega og amma þrátt fyrir ófáar tilraunir. Amma gerði líka bestu vöfflurnar. Frá því ég man eftir mér og alveg þangað til afi og amma fluttu af Víðimelnum var það fastur punktur í tilverunni að fara til ömmu og afa og sitja í litla eldhúsinu, drekka kaffi og borða ristað brauð eða vöfflur með sultu og rjóma. Eftir kaffið var svo sest inn í stofu, ég að lesa í bók, Finnur afi að leggja kapal og Hadda amma að sauma út.

Hadda amma vann sem gæslukona á Þjóðminjasafninu þegar ég var barn og unglingur. Ég fór reglulega í heimsókn í vinnunna til hennar og kunni suma hluta sýningarinnar utan að. Þá þegar var ég staðráðin í að verða fornleifafræðingur og ég vil meina að amma hafi átt stóran þátt í því að það gekk eftir.

Það er svo margt sem situr eftir í minningunni. Að gista á Víðimelnum, fyrst í holunni á milli í hjónarúminu og svo þegar ég var orðin of stór á sófanum í stofunni. Ísbíltúrar í Hveragerði. Systurnar saman Auður, Gústa, Guðný, Hadda amma og Finna þegar hún var á landinu. Sumarbústaðaferð með ömmu og afa í Húsafell. Heimsókn til ömmu og afa á aðfangadagskvöld eftir matinn og pakkana og sitja með nýjustu bókina og lesa. Hlusta á plöturnar sem amma og afi keyptu á Spáni. Sitja með ömmu og skoða myndaalbúmin með myndum af börnum, barnabörnum og utanandsferðum og síðan bættust langömmubörnin við og loks langalangömmubörn.

Amma átti ekki alltaf auðvelda ævi og síðustu árin var líkaminn búinn að gefast upp, en hugurinn var alltaf skýr og hún fylgdist vel með bæði því sem var að gerast í fjölskyldunni og almennt í samfélaginu. Síðustu skiptin sem við hittumst var hún mikið að hugsa um þá sem höfðu farið á undan, sérstaklega um litla bróður sinn hann Guðmund Emil sem lést á fyrsta aldursári. Ég trúi því að núna líði ömmu loksins vel og að hún sé sameinuð systrum sínum fimm og litla bróður.

Agnes (Agga) Stefánsdóttir.