Karlmenn sem hafa hreinlega ekki hugmynd um hvernig þeim líður, svo djúpt er þeim innrætt að ekkert megi vera að.

Nóvember 2010. Göngutúr um Rauðavatn með vinkonu minni og hundinum hennar. Heiðskírt, kalt og snjór yfir öllu. Já, það getur stundum leynst fegurð á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrartímann. En hugur minn var annars staðar, langafi minn hafði nefnilega andast fyrr í vikunni. Spurður fregna í miðjum göngutúrnum ákvað ég að létta á mér.

„Langafi minn var að deyja,“ sagði ég. „Ég samhryggist,“ sagði hún. Svo, eftir stutta þögn; „En þú virðist nokkuð ánægður með það.“ Svarið kom flatt upp á mig, en um leið áttaði ég mig á því hvað hún meinti, ég hafði fundið það sjálfur. Varirnar á mér höfðu nefnilega herpst saman í eitthvert virkilega asnalegt bros – ég veit ekki hversu vel heppnað, en sannfærandi var það greinilega.

Ekki man ég eftir að hafa rætt þetta neitt frekar. Ég hlýt að hafa náð að afmá brosið, og hún hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvers konar siðblindu ég glímdi eiginlega við. Ég vissi hins vegar það sem rétt var, og hún ef til vill líka; að ég kunni ekki annað. Ég náði að láta þessi orð falla og hvað átti ég svo að gera; fella tár? Vera leiður? Ekki að ræða það. Eins mikið og ég kann að hafa viljað það þá var eitthvað miklu sterkara til staðar inni í mér, sem tók það ekki í mál.

Þessi minning er ein þeirra sem leitað hafa á hugann eftir að hafa fylgst með hugrökkum körlum á samfélagsmiðlum ræða opinskátt um reynslu sína af skaðlegum viðmiðum samfélagsins um karlmennsku.

Karlmenn sem misst hafa börn en ekki getað grátið nema í einrúmi.

Karlmenn sem farið hafa á mis við draumastörf sín þar sem þau þóttu of kvenleg.

Karlmenn sem hafa hreinlega ekki hugmynd um hvernig þeim líður, svo djúpt er þeim innrætt að ekkert megi vera að.

Og hvað gera konurnar, á sama tíma og átakið #karlmennskan fer eins og eldur í sinu um netheima? Þær styðja okkur auðvitað. Þær vita nefnilega betur, og af eigin raun, að þegar við brjótum á bak aftur úreld og eitruð viðhorf samfélagsins til kynjanna, þá vinna allir.

Skúli Halldórsson sh@mbl.is

Höf.: Skúli Halldórsson sh@mbl.is