Einar Garðar Þórhallsson fæddist 10. júlí 1946. Hann lést 30. janúar 2018.

Útför hans fór fram 15. febrúar 2018.

Nýir vinir eru silfur, gamlir vinir gull.

Ég kynntist Einari á sjöunda áratugnum og hófst með okkur kunningsskapur sem hélst meira eða minna með nokkrum hléum. 1984 smíðaði hann eftir minni teikningu hringa úr hvítagulli og rúmlega tuttugu árum seinna smíðaði hann aftur fyrir mig tryggðapanta úr gulli.

Á þessu tímabili keypti hann svo af mér fimm myndir. Lítið olíumálverk, portrettmynd af konu með skotthúfu með gíg í bakgrunni og tvær rauðkrítarmyndir og þrjár blýantsteikningar því hann var mikill listunnandi og áhugamaður um myndlist. Á námsárum sínum í MR og í læknanámi á háskólaárum málaði hann málverk sem hann síðar seldi öll til að létta undir með náminu eins og hann sagði mér síðar. Því miður átti hann ekki neinar ljósmyndir af þessum verkum. Einar hóf nám í læknisfræði en hætti og fór í gullsmíðanám í staðinn sem hann nálgaðist alltaf af hundrað prósent fagmennsku og smekkvísi. 1995 var skotthúfumálverkinu stolið og dýrmætu frímerkjasafni sömuleiðis af heimili hans við Hagamel 52. Þessir hlutir komu aldrei í leitirnar. Taki þeir til sín sem hlut eiga að máli.

Oft er skammt stórra högga á milli því góðvinur Einars Garðars til margra ára og fyrrverandi vinnufélagi minn og senumaður hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó við Vonarstræti á blómaskeiði leikfélagsins á sjötta áratugnum, Magnús Bergmann Ásgeirsson, lést einnig fyrir nokkrum vikum. Þeir Einar Garðar og Magnús voru jafnaldrar. Nú eru þessir höfðingjar horfnir á vit feðra sinna og verður saknað.

Á níunda áratugnum átti Einar heima á Hagamel 52 og bjó einn í óskiptu dánarbúi móður sinnar um tíma en á því heimili var hann að hluta til alinn upp. Hugðist kaupa íbúðina en tókst ekki. Í nokkur ár hírðist hann svo í smákompu, þakherbergi, í sama stigagangi. Nokkrum árum seinna eftir hæðir og lægðir í einkalífi og demóníska glímu við Bakkus tókst honum að feta sig út úr þeim dimma dal með viljann einan að vopni og sumum til undrunar keypti hann sér góða 80 fm íbúð við Kirkjuvöll í útjaðri Hafnarfjarðar sem hefur verið mikið átak og viðsnúningur fyrir hann Vesturbæinginn en auðvitað á jarðhæðinni því hann var of lofthræddur til að leita hófanna ofar í háhýsinu.

Með þessu var hann á vissan hátt horfinn gömlum vinum og kunningjum og Melabúðinni sem var langt frá vinnustaðnum á Laugaveginum gamla og nýja.

Einar Garðar var höfðingi heim að sækja, bóngóður, artarlegur og örlátur við vini sína og kunningja, viðræðugóður þótt hann hafi ætíð verið þjakaður af feimni og hugsanlega hefur hann haft of lágt sjálfsmat sem stóð honum án efa fyrir þrifum í lífinu, en var ástæðulaust því honum var margt til lista lagt og hafði margt til brunns að bera sem bæði var gott og virðingarvert.

Ég fannst af þeim

sem leituðu mín ekki

og sýndi mig þeim

sem spurðu ekki

eftir mér.

(Isaia 65:1)

Blessuð sé minning Einars Garðars Þórhallssonar.

Sigurður Eyþórsson

listmálari.