Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir fæddist á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði, V-Hún., 22. júní 1926. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir hinn 28. febrúar 2018.

Hún var dóttir hjónanna Hólmfríðar Bjarnadóttur frá Túni í Flóa, f. 13.10. 1891, d. 24.4. 1981, og Jóns Eiríkssonar frá Efri-Þverá í Vesturhópi, f. 22.6. 1885, d. 10.2. 1975. Systkini Gullu, eins og hún var jafnan kölluð, eru: Guðfinna, f. 23.4. 1917, d. 12.6. 2010, Ingunn, f. 3.1. 1919, d. 3.4. 1979, Þorgerður, f. 14.8. 1920, d. 14.9. 2010, Eiríkur f. 27.2. 1922, d. 19.1. 2008, Bjarni, f. 7.12. 1924, d. 31.3. 2012, Snorri f. 15.5. 1928, d. 30.6. 2016, Stefán f. 6.3. 1930, d. 21.7. 2013, Eggert Ólafur f. 27.11. 1931, Gunnlaugur Ragnar f. 22.1. 1933, d. 2.1. 2015, Ragnheiður, f. 20.11. 1935.

Hinn 22. júní 1955 giftist Gulla Ólafi Guðjónssyni frá Saurbæ á Vatnsnesi, V-Hún., f. 1.6. 1928, d. 12.2. 1975. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Guðjón Heiðar, f. 19.4. 1958, bílamálari. Eiginkona hans er Þrúður Hjelm, f. 18.5. 1965, skólastjóri. Börn þeirra eru: a) Eva Dögg, f. 20.7. 1983, sonur hennar er Þráinn Berg, f. 9.6. 2007, b) Ólafur, f. 23.12. 1989, sambýliskona hans er Þórunn Heba Bjarnadóttir, c) Óskar Þór, f. 11.6. 1993. 2) Hólmfríður Jóna, f. 27.1. 1961, framhaldsskólakennari, dóttir hennar er Inga Björk, f. 9.8. 1982, sambýlismaður hennar er Heiðar Freyr Steinunnarson. 3) Sigrún, f. 2.7. 1965, iðjuþjálfi. Eiginmaður hennar er Bergur Bergsson tæknifræðingur, f. 19.9. 1961. Börn þeirra eru: a) Þórey, f. 20.5. 1993, b) Agnar, f. 25.4. 1998, c) Sæþór, f. 12.11. 2000. 4) Fróði, f. 30.6. 1968, vélvirki. Eiginkona hans er Bergþóra Njálsdóttir, f. 28.7. 1966, sjúkraliði. Dætur þeirra eru: a) Amanda Sjöfn f. 2.10. 2003, b) Sara Lind, f. 12.12. 2006. Auk þess á Bergþóra tvær dætur fyrir, sem eru: c) Sandra Ösp, f. 12.12. 1984. Eiginmaður hennar er Ernst Gíslason. Sonur þeirra er Christopher Leo, f. 3.5. 2014, og Díana Huld, f. 1.5. 1987, sambýlismaður hennar er Ásgeir Yngvi Elvarsson. Sonur þeirra er Daníel Yngvi, f. 6.1. 2016.

Gulla ólst upp á heimili foreldra sinna á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði. Auk hefðbundins barnaskólanáms þess tíma stundaði hún nám við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði veturna 1944-1946 og við Húsmæðraskólann á Akureyri veturinn 1947-1948. Hún flutti ung til Reykjavíkur þar sem hún vann við ýmis störf. Eftir að hún gifti sig tóku húsmóðurstörf og barnauppeldi við ásamt því að annast aldraða foreldra sína sem brugðu búi og fluttu inn á heimili hennar. Eftir að hún varð ekkja fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og fékkst aðallega við störf tengd saumaskap og ræstingum. Fyrst til að byrja með vann hún á Saumastofunni Elísu sem mágkona hennar rak. Lengst af vann hún á Saumastofu Henson og síðustu árin hjá Listasaumi í Kringlunni. Samhliða dagvinnu vann hún við ræstingar í Álftamýrarskóla árum saman.

Útför Ingibjargar Guðlaugar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 16. mars. 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar mér bárust þær fregnir að tengdamóðir mín, Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir eða Gulla eins og hún var ætíð kölluð, væri látin varð ég bæði sáttur yfir að hún hefði fengið langþráða hvíld en að sama skapi kom yfir mig sorg yfir því að komið væri að lokakaflanum á okkar 30 ára kynnum.

Gulla var alla tíð mjög tengd minni fjölskyldu og þegar fjölskyldan fór að stækka studdi Gulla oft við bakið á okkur ef illa stóð á með börnin. En það var líka kostur að við bjuggum þessi ár í göngufæri við hana, þ.e. að oft leit hún inn ef hún var á röltinu eða í formlegt boð í mat eða kaffi. Þessi samskipti urðu til þess að börnin okkar tengdust henni sterkum böndum enda hafði hún gott lag á þeim, gefandi en ákveðin ef því var að skipta. Gulla hafði sínar skoðanir á lífinu og þjóðfélagslegri umræðu, en alltaf stutt í húmorinn og var samveran við hana ávallt ánægjuleg.

Líf hennar hafði ekki alltaf verið dans á rósum, því ekki varð það bara hennar hlutskipti 48 ára að missa maka sinn frá fjórum börnum, 6 til 16 ára, heldur hafði faðir hennar látist tveimur dögum áður. Foreldrar hennar höfðu frá því að þau fluttu að norðan úr Miðfirði búið í sambýli við fjölskylduna. Í kjölfarið fylgdu svo fleiri áföll sem eflaust hafa reynst henni mjög erfið. Þetta tímabil hefur tekið á, því það hefur eflaust ekki verið auðvelt að vera einstæð móðir á þessum tíma en hún skilaði því hlutverki með sóma á allan hátt.

Þegar okkar kynni hófust var líf hennar komið á lygnari sjó, börnin utan eitt flutt að heiman.

Gulla var skynsöm kona með heilmikið verksvit sem nýttist m.a. í að takast á við þau verkefni sem upp komu og skipti þá engu máli hvort þau væru hefðbundin karl- eða kvenmannsverk. Henni var það hugleikið að börn hennar gengju menntaveginn og þá ekki síst dæturnar en það var með hana eins og svo marga af hennar kynslóð að langskólaganga stóð ekki öllum til boða og þá síður konum.

Gulla fór í Húsamæðraskólann á Akureyri og það hefur eflaust átt vel við hana því hún var afskaplega handlagin og margt fallegt sem eftir hana liggur. Ég er nokkuð viss um að ef hún hefði átt þess kost þá hefði hún menntað sig frekar enda afskaplega vel gefin á allan hátt.

Það var mikil sorg þegar Gulla greindist með minnissjúkdóm, enda átti hann eftir að taka smám saman í burtu frjálsræði hennar og getu til að búa ein. Eftir að hún veiktist tóku börnin hennar ásamt Binna, systursyni hennar, sig saman um að tryggja að það liði ekki sá dagur að eitthvert þeirra liti inn og það hélst þessi ár. Með þessu móti gátu þau gefið henni til baka árin þegar hún með sinni þrotlausri vinnu lagði allt í sölurnar til að halda fjölskyldunni saman

Í lokin vil ég þakka þessi ár, minning hennar mun lifa.

Þinn tengdasonur

Bergur.

Elsku amma Gulla er loksins komin til Nangijala. Þar hefur Óli afi tekið henni fagnandi og þau fá loksins að vera saman eftir langan aðskilnað.

Ég á ótal skemmtilegar og ljúfar minningar um ömmu mína. Ég var mikið hjá henni sem barn og mér þótti það alltaf svo notalegt. Það var svo gaman þegar amma las fyrir mann því hún nennti alltaf að lesa svo lengi. Við fórum oft á leikvöllinn hjá Bólstaðarhlíð og amma lék sér með manni eins og jafningi. Hún hékk í klifurgrindinni, prílaði upp í kastalann og lék sér að því að bregða manni. Hún sprengdi hurðasprengjur í undirgöngunum á leiðinni út í Kringlu og mér krossbrá alltaf en amma hló manna hæst því henni þótti þetta svo fyndið.

Amma bauð okkur mömmu alltaf í saltkjöt og baunir á sprengidag. Mér fannst baunasúpa vond en ömmu fannst nú lítið mál að gera smá kjötsúpu handa mér í staðinn. Þetta voru einu skiptin sem hún keypti kók handa mér til að hafa með matnum. Þegar maður var í eldhúsinu í Álftamýri fékk maður alltaf einhver verkefni. Ég sneri við kleinum á bökunarplötu, klippti þindir, mældi hráefni í bakstur og rúllaði upp pönnukökum. Mér er það minnisstætt þegar ég var hjá ömmu sem barn og hún var að ganga frá sparistellinu eftir jólin. Á stofuskenknum stóð súputarína og beið eftir að komast inn í skáp. Amma tók tarínuna upp og um leið og hún svipti lokinu ofan af henni leit hún á mig glettin á svip og sagði: „Það skyldi þó ekki vera súpa í skálinni?“ Lyktin sem gaus upp í stofunni tók af allan vafa. Það var þá súpa í skálinni eftir allt saman. Sagan af súpunni hefur oft verið rifjuð upp síðan og það er alltaf hlegið jafn mikið.

Eina síðsumarshelgi þegar ég var 18 ára var ég ein heima með vinkonu minni. Mamma hafði skroppið í burtu yfir helgina og við unglingarnir vorum eitthvað að dingla okkur. Síminn hringdi og það var amma. Hún sagðist vera á leiðinni í kvennamessu í Strandarkirkju og að við ættum bara að koma með henni. Það þýddi ekkert fyrir okkur unglingana að mótmæla, amma kom og sótti okkur upp í Hraunbæ og við lögðum af stað. Við tók eftirminnilegt ferðalag þar sem við skröltum eftir holóttum sveitavegi í kvöldsólinni á grænsanseraðri Mözdu, tvær 18 ára og ein á áttræðisaldri á leiðinni í messu.

Fyrra sumarið mitt í Listaháskólanum var amma svalari en ég. Hún keypti sér leðurjakka, Yaris og fór á tónleika með Sigur Rós á Klambratúni. Þegar amma keypti í matinn keypti hún nær alltaf eitthvað sem hún hafði aldrei prófað, eitthvað sem henni fannst skrýtið, áhugavert og skemmtilegt. Hún var aldrei hrædd við nýjungar og var alltaf til í prófa eitthvað nýtt og öðruvísi.

Amma var saumakona af guðs náð og allt það sem ég kann í þeim efnum lærði ég af henni. Amma var fagmaður fram í fingurgóma og allt það sem hún gerði var vandað og vel gert, hvort sem um var að ræða viðgerð á vinnuflík eða fallegan silkikjól. Amma var mér mikil fyrirmynd varðandi svo margt. Hún var jafnréttissinni og mikil jafnaðarmanneskja, svo sterk, hlý og fyndin. Hún gaf mér gott veganesti sem á eftir að endast mér út lífið.

Þín dótturdóttir,

Inga Björk Andrésdóttir.

Elsku amma okkar, við munum alltaf muna eftir þér sem fallegri ákveðinni konu sem kom okkur alltaf í gott skap og með hjarta úr gulli. Takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Við söknum þín sárt og elskum þig endalaust, elsku amma okkar.

Hvíldu í friði.

Amanda Sjöfn og Sara Lind.

Ég kynntist aldrei föðurömmu minni, því hún lést áður en ég fæddist. Af þeim sökum gekk amma Gulla mér í ömmustað og þótti mér ávallt vænt um að vera hluti af hennar glæsilega barnabarnahópi. Í sorg minni yfir fráhvarfi ömmu Gullu hafa rifjast upp fyrir mér margar góðar minningar af samverustundum okkar, allt frá því að ég var lítil stelpa í sumarfríum á Íslandi.

Það er mér minnistætt að hafa fengið að gista hjá ömmu Gullu eitt sinn þegar ég var ein á Íslandi. Ég átti flug til Noregs morguninn eftir og var ég alltaf smá stressuð fyrir flug og vön að fá í magann. Um kvöldið þegar ég átti að fara að sofa bauð Amma Gulla mér höndina og hélt ég í höndina á henni alla nóttina. Ég svaf mjög vel og mér leið miklu betur í maganum morguninn eftir.

Amma Gulla var mjög klár í höndunum, hún saumaði mikið og heklaði. Fyrir nokkrum árum þegar hún kom í heimsókn til foreldra minna, tók hún eftir því að ég var í götóttri peysu. Ég hafði ekki gefið mér tíma til að gera við hana sjálf. Amma Gulla bauðst til að gera við peysuna mína á meðan hún sat og spjallaði við okkur. Við lok heimsóknar var peysan bætt og aftur orðin falleg. Ég hef síðan þá passað upp á að gera alltaf við fötin mín. Hún var alltaf svo vandvirk og gerði allt með mikilli alúð. Hún er og verður mér ávallt mikil fyrirmynd í mínum störfum.

Mér þykir það þó líklegast minnisstæðast að hafa kynnt Ömmu Gullu fyrir Ídu Þorbjörgu, dóttur minni. Það var núna um jólin þegar við fjölskyldan komum til landsins. Þá var Amma Gulla orðin mjög þreytt og veik, en andlitið ljómaði þegar hún sá Ídu og fékk að halda á henni og kyssa. Hún lék við Ídu, gretti sig framan í hana, leyfði Ídu að pota í andlitið á sér og áttum við þrjár alveg dásamlegan tíma saman, sem ég held að hafi verið okkur öllum mjög mikilvægur.

Ég hlakka til að segja Ídu frá langömmu sinni þegar hún verður eldri og kenna henni þá hluti og gildi sem amma Gulla kenndi mér. Minning ömmu Gullu mun lifa í okkur afkomendum hennar.

Bergdís Inga Brynjarsdóttir.

Nú er komið að kveðjustund, elsku amma mín.

Ég er heppin að eiga svo margar góðar minningar um þig. Ég held að skýrasta minningin sé þegar ég sat í sófanum með þér og þú varst að leysa orðagátu eins og þú gerðir svo oft á meðan ég var að keyra þig um á ímyndaða bílnum mínum sem var í alvöru bara sófinn. Þú varst alltaf með í leikjunum mínum og sýndir mér alltaf mikinn áhuga.

Þegar ég varð unglingur breikkaði pínu bilið en það var samt alltaf svo gaman að hitta þig.

Það var mikil sorg þegar þú veiktist en samt gott að vita að það var alltaf stutt í húmorinn þegar ég heimsótti þig.

Elsku amma, takk fyrir allt

Þinn

Sæþór.

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, kölluð Gulla, fædd á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði en bjó lengst af í Álftamýri 56 í Reykjavík, andaðist á 92. aldursári hinn 28. febrúar á Eir. Gulla fékk friðsælt andlát umvafin fjölskyldunni, enda öllum svo kær. Hún eignaðist fjögur börn, Guðjón, Hólmfríði, Sigrúnu og Fróða og var alla tíð ákveðin miðja stórfjölskyldunnar frá Svertingsstöðum því foreldrar hennar bjuggu síðustu æviárin sín hjá Gullu og eiginmanni hennar, Ólafi Guðjónssyni sem því miður lést langt um aldur fram.

Þær systur, mamma Ragnheiður og Gulla, bjuggu í samsíða blokkum í Álftamýrinni og það var ekki tilviljun því þær stóðu saman í gegnum tíðina og af því höfum við börnin þeirra notið góðs. Gulla var fær saumakona og starfaði við það fag í áraraðir. Það má segja að saumskapur og hannyrðir hafi leikið í höndum hennar en hún leit á öll verkefni sín sem rannsókn og leit að lausnum. Hún sinnti líka mikið matargerð enda hafði hún marga munna að metta og hjá henni var verulega gestkvæmt enda fjölskyldan góð heim að sækja. Þeir voru ófáir unglingarnir sem komu við í snæðing og fengu ákveðið skjól hjá Gullu sem var í senn raungóð, umburðarlynd og líka oft svo glettin. Hún hvatti okkur áfram en hikaði heldur ekki við að setja okkur mörk. Hún hafði í látleysi sínu góð áhrif á persónuþroska okkar margra. Þegar einhver af okkur krökkunum meiddist eða brenndist þá fórum við strax til hennar því hún gat bundið um og grætt flest sár okkar. Hún hefði án efa getað orðið góður læknir eins og Stefán bróðir hennar ef það hefði staðið til boða á sínum tíma.

Gulla var sósíalisti, friðarsinni og herstöðvaandstæðingur og mótmælti ævinlega hvers kyns kúgun, arðráni og ofríki. Hún mótaðist af því viðhorfi að styðja þá sem minna máttu sín og hafði andúð á valdbeitingu og yfirdrepsskap, rétt og móðir hennar.

Sumarið 1976 fékk mamma Gullu systur sína til að koma norður í Aðaldal og vinna hjá sér á sumarhótelinu í Hafralækjarskóla. Þar fengum við sex af dætrum þeirra vinnu og Fróði litli lærði að synda. Við tóku miklar vinnutarnir og þetta varð verulega heitt sumar en það var oft svo glatt á hjalla hjá okkur. Á þessum tíma geisuðu Kröflueldar með tilheyrandi jarðskjálftum og vá. Gistu því á hótelinu margir hópar erlendra og innlendra vísindamanna en Gulla sat við í hitanum, steikti, sauð og bakaði og útbjó nestispakka. Á hótelinu dvaldist hópur af starfsmönnum Landgræðslunnar og flugmennirnir á landgræðsluvélinni Páli Sveinssyni (Douglas C-47A) gerðu okkur og þeim það til skemmtunar að steypa flugvélinni yfir Hafralækjarskóla til að láta vita að þeir kæmu senn í snæðing. Okkur stóð líka til boða að fljúga með vélinni upp í ógleymanlega himneska birtu eins og leikur um hana núna.

Ég þakka Gullu fyrir góða og ómetanlega samfylgd og hún mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mömmu og okkar systra, Huldar, Helgu, Þóru og mín og barna okkar. Kærleikurinn heldur veröldinni saman.

Friðbjörg Ingimarsdóttir.

Að eiga góðar minningar sem gleðja og næra hugann er ríkidæmi hverrar manneskju. Því er einmitt farið um okkur sem minnumst Gullu með mikilli hlýju og virðingu og ekki hvað minnst þakklæti fyrir að fá að tilheyra hennar góðu fjölskyldu.

Hún var móðursystir Brynjars, systir Ingunnar sem lést fyrir aldur fram árið 1979. Börnin okkar kölluðu hana ömmu Gullu og heimili hennar, tími og stóri faðmur rúmaði okkur öll. Þannig var Gulla, hún vildi öllum vel, gerði ekki mál úr hlutunum, gekk í verkin og tók lífinu af æðruleysi og jákvæðni þegar á reyndi.

Hún stóð ein uppi með fjögur ung börn þegar Óli maðurinn hennar féll frá árið 1975. Í þeim erfiðu aðstæðum sýndi hún ótrúlegan styrk og sjálfstæði sem einkenndi allt hennar líf.

Kvenréttindi voru henni ofarlega í huga og hún gladdist mjög yfir því þegar Vigdís var kosin forseti enda hafði hún nefnt hana sem frambærilega konu í embættið þónokkru áður en hún gaf kost á sér.

Gulla var einstaklega verklagin og iðjusöm og unun að sjá fallegt handbragð hennar á fötum sem hún saumaði. Alltaf gaf hún sér tíma til að leiðbeina og sýna hvernig gera ætti hlutina og var það gert á skýran og fumlausan hátt eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Hún hafði góða nærveru sem laðaði fólk að sér og heimili hennar var eins og umferðarmiðstöð þar sem ættingjarnir hittust. Hún var einstaklega barngóð og sýndi þeim athygli og umhyggju sem við minnumst með þakklæti.

Hún fór vel með alla hluti og þess vegna entust þeir lengi og er það sannarlega í anda góðs umhverfisverndarsinna sem hún var. Hún fór með okkur í mótmælagöngur í baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun enda unni hún landinu og naut þess að ferðast og upplifa fegurð náttúrunnar.

Í svo mörgu er hún góð fyrirmynd sem er okkur öllum dýrmætt veganesti í lífinu.

Hún var alltaf hrein og bein í samskiptum og þrátt fyrir veikan mátt og litla meðvitund síðustu dagana á Hjúkrunarheimilinu Eir þá var eins og hún vissi af nærveru okkar. Þegar læknirinn, sem þekkti Gullu vel, hafði orð á því að hann hefði búist við því að hún myndi ákveða það sjálf hvenær nú væri komið nóg, þá spurðum við hana hvort hún væri að fara frá okkur.

Þá sameinaði hún alla krafta sína í einu skýru orði: „Já.“

Hennar tími var kominn til að kveðja og síðasta ferðalagið inn í Sumarlandið framundan.

Í birtunni þar bíður hún okkar.

Bjargey Ingólfsdóttir og Brynjar Hólm Bjarnason.

Ég var 10 ára gömul þegar ég datt í lukkupottinn og kynntist Ingu vinkonu minni. Ég eignaðist bestu vinkonu og dásamlega aukafjölskyldu, hverrar ættmóðir var hin einstaka amma Gulla.

Ég á margar ljúfar minningar sem tengjast ömmu Gullu og ég man það sérstaklega vel hvað það var alltaf gott að koma í heimsókn til hennar í Álftamýrina. Hún átti það til að skella í pönnukökur þegar maður kom og stundum var hún nýbúin að baka ostahorn. Í Álftamýrinni fékk maður að dunda sér í ró og næði og amma Gulla var ekkert að skipta sér of mikið af manni. Hún var yfirleitt eitthvað að bralla sjálf eða var í eldhúsinu að kjafta við fullorðna fólkið. Á meðan skoðuðum við Inga bækur, flettum myndaalbúmum, spiluðum gaur eða sátum úti á svölum í sólbaði og fylgdumst með umferðinni. Mér fannst líka alltaf svo gaman þegar við Inga fórum í Kringluna og kíktum inn hjá ömmu Gullu á heimleiðinni. Ef Inga stakk ekki upp á slíkri heimsókn sjálf átti ég það til að spyrja: „Heyrðu, Inga. Er ekki langt síðan þú hefur farið til ömmu þinnar?“ Eftir að ég missti ömmu mína fannst mér gott að geta farið til ömmu Gullu í Álftamýri og átt þar góða stund í þessum dásamlegu rólegheitum þar sem tíminn stóð í stað.

Í eldhúskróknum í Álftamýrinni hékk platti með textabroti úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Textinn fjallaði um börn og þar stóð meðal annars:

„Börnin ykkar eru ekki börn ykkar. Þau eru synir og dætur lífsins og eiga sér sínar eigin langanir. Þið eruð farvegur þeirra, en þau koma ekki frá ykkur. Og þó að þau séu hjá ykkur, heyra þau ykkur ekki til. Þið megið gefa þeim ást ykkar, en ekki hugsanir ykkar, þau eiga sér sínar hugsanir.“

Ég man að ég las þennan texta oft þegar ég sat í eldhúsinu hjá ömmu Gullu og gæddi mér á einhverju nýbökuðu góðgætinu. Núna eftir að hún kvaddi tilvist sína hér á jörðinni og hélt á vit draumanna rifjast þetta upp fyrir mér. Svona var amma Gulla. Hún var börnunum sínum þessi farvegur, sem einkenndist af takmarkalausri ást, hlýju og þolinmæði. Hjá ömmu Gullu fengu allir að vera þeir sjálfir, hugsa sínar eigin hugsanir og elta sína eigin drauma.

Björk Konráðsdóttir.