Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Eins og komið var þá er þetta ágætis lending.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Eins og komið var þá er þetta ágætis lending. En það sem mér finnst mikilvægast í þessu öllu saman er að ráðherra er með þessu að opna glugga fyrir því að menn setjist niður og ræði skipulag samræmdra prófa á Íslandi. Það er löngu kominn tími til og því fagna ég,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tilkynnti á miðvikudag að nemendur í 9. bekk fái val um hvort þeir þreyti samræmd könnunarpróf í íslensku og ensku að nýju. Skólastjórnendur geta valið um hvort prófað verður í vor eða næsta haust.

„Okkar skoðun var ljós fyrir fundinn, að samræmdum grunnskólaprófum hefði lokið í síðustu viku. Það er í raun niðurstaðan, þetta verða ekki samræmd próf. Þetta verða persónuleg könnunarpróf sem nemendur skrá sig inn í ef þeir vilja til að prófa hæfni í íslensku og ensku. Þetta eru ekki samræmd próf og verða það ekki. Það verður ekkert samanburðarmat tekið út úr þessum prófum,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að mikilvægt sé að skólar geti valið um hvort prófað verði í vor eða haust. „Þá hafa þeir tækifæri til að koma þessum prófum inn í sitt skipulag. Það verður auðvitað töluverð vinna fyrir skólasamfélögin við að setja þessi próf á. Þetta er viðbótarvinna. Það verða ekki sveitarfélögin sem borga það – það verður ráðuneytið að gera.“

Hvernig er hljóðið í þínum félagsmönnum?

„Það eru auðvitað skiptar skoðanir. Skólastjórar hafa þá mynd af sér, sem er mikill kostur, að menn eru vanir að gera það sem þeim er sagt að gera og gera það eins vel og hægt er. Við munum því vanda okkur við að gera þetta í sem bestri samvinnu við nemendur og foreldra þeirra.“