Sólveig Helga Björgúlfsdóttir fæddist í Neskaupstað 26. ágúst 1925. Hún lést á hjúkrunardeild Fjórðungssjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað 10. mars 2018.

Foreldrar Sólveigar Helgu voru Ólöf M. Guðmundsdóttir, f. 1897, d. 1986, og Björgúlfur Gunnlaugsson, f. 1895, d. 1963.

Systkini hinnar látnu voru Soffía, f. 1921, d. 2016. Anna, f. 1922, d. 2017. Guðmundur, f. 1924. d. 1986.

Maki Sólveigar Helgu var Halldór S. Haraldsson, f. 1921, d. 2004.

Börn þeirra hjóna eru Haraldur Þór, f. 1948, ókvæntur. Sigrún, f. 1952. Maki Ágúst Ármann Þorláksson, d. 2011. Björgúlfur, f. 1956. Maki Halla Höskuldsdóttir, f. 1960.

Sólveig Helga vann ýmis störf, s.s afgreiðslustörf við Kaupfélagið Fram, Félagsheimilið Egilsbúð og að síðustu við eldhús Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað.

Útför Sólveigar Helgu fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 16. mars 2018, klukkan 14.

Okkur langar í nokkrum orðum að minnast móðursystur minnar Sólveigar Helgu Björgúlfsdóttur, en hún andaðist í hárri elli 11. mars sl. á hjúkrunarheimili Sjúkrahúss Neskaupstaðar.

Ég man eftir Helgu móðursystur minni frá því ég man eftir mér, kannski svona fjögurra til fimm ára. Hún Helga var svo mikill partur af lífinu ásamt Halldóri manninum sínum og hinni móðursysturinni Soffíu og manninum hennar, Jóhannesi. Þessir voru hinir þrír öruggu punktar í tilverunni hjá litlum dreng, afi og amma ásamt fjölskyldum Helgu og Soffíu. Á uppvaxtarárunum bjó ég alltaf í Miðstrætinu og eins var með Helgu og Halldór, hún bara hinum megin við götuna og Soffía í næstu götu, á Þiljuvöllum.

Ýmsir fastir puntar í tilveru þessara fjölskyldna voru sláturtíðin, rabarbaraupptakan og berjaferðirnar og ekki síst jól og áramót. Matarboðannan dag jóla og á gamlárskvöld. Mikið spilað og alltaf „rúbertuvist“ hjá Helgu og Halldóri á gamlárskvöld og „þá var oft slegið í borð“. Eftir að ég eltist og var að hluta til fluttur suður kom ég af og til austur í vinnu og bjó þá oftast hjá Helgu. Aldrei heyrði ég að henni fyndist erfitt að hafa aukamann á heimilinu sem auk þess vann illa lyktandi vaktavinnu í bræðslunni, hún tók mér sem einu af börnunum.

Eftir að ég var kominn með fasta punta í tilveruna fyrir sunnan, konu og börn, Helga flutt úr Miðstrætinu í Starmýrina kom ég oft austur með mína fjölskyldu og bjó þá oftar en ekki hjá Helgu, stundum hjá Soffíu en oftar hjá Helgu.

Allar áttu þær systur, Soffía, Anna (móðir mín) og Helga það sameiginlegt að verða mjög aldraðar. Soffía og Anna 95 ára og hefði Helga orðið 93 í ágúst nk. Einn bróður áttu þær, Guðmund, en hann lést fyrir allmörgum árum.

Samskipti okkar við þessa fjölskyldu hafa í gegnum árin verið mikil og eigum við þeim miklar þakkir.

Biðjum við góðan Guð að vernda og blessa börn og barnabörn Helgu.

Úlfar Hermannsson,

Sigrún Rut Eyjólfsdóttir.